Eitt af því sem gerði prímatategundinni manninum kleift að ná völdum í dýraríkinu fyrir margt löngu var sérlega háþróuð ályktunarhæfni hans. Þessi hæfileiki gerði honum til dæmis kleift að tengja saman tvo ólíka atburði miklu betur en önnur dýr gerðu.
Þrusk í fjarska, kannski úti í myrkrinu þar sem mennirnir hnipra sig saman skinnklæddir við varðeldinn. Alllöngu síðar fer eins og mildur vindsveipur um runna í útjaðri flöktandi birtunnar sem eldurinn nær til. Hvort um sig ekki merkilegt en varðmaðurinn, sem situr á hækjum sér við eldinn, tengir þetta umsvifalaust saman.
Hann ýtir varlega við félaga sínum sem rumskar um leið.
„Óvinir að læðast að okkur,“ hvæsir varðmaðurinn lágt, „eða einhver stóru kattanna.“
Og fyrr en varir eru mennirnir vaknaðir og búnir til varnar.
Það segir sig sjálft að það gaf mönnunum gífurlegt forskot að hafa þróað með sér svona ríka ályktunarhæfni. Hún er auðvitað til staðar í öðrum dýrategundum en hvergi nærri í sama mæli. Hjá mönnunum getur hún sem kunnugt er þróast út í öfgar.
Í fimmta gír
Sá mikli kvíði sem er eins og lágvær heimsfaraldur í sálinni um þessar mundir, hann er fyrst og fremst þessi ályktunarhæfni stöðugt í fimmta gír.
Menn sjá alls staðar hættumerki og tengja þau sífellt saman svo úr verður ein þrotlaus og yfirvofandi ógn sem engin leið er að bregðast við. Varðmaðurinn við eldinn var ekki gerður til að bregðast við svo ótal mörgum hættumerkjum í einu.
Á hinn bóginn getur hæfileiki mannsins til að tengja saman og draga ályktanir líka leitt til þess að hann fer að sjá tilgang í öllu. Það hlýtur að vera meining í hverju þruski. Áður en varir er maðurinn farinn að trúa á guð af því það hlýtur að vera einhver tilgangur með þessu jarðlífi.
Annar en halda lífi eina nótt enn við varðeldinn.
Það getur endað með ósköpum, sem kunnugt er. Ef við erum sammála um þá ályktun að einhver æðri tilgangur sé með jarðvistinni en alveg ósammála um hver hann er, þá styttist í að við förum að berja hvert annað í hausinn.
Eins og dæmin sanna.
En það er samt önnur saga.
Þörfin fyrir tilgang þarf ekki að vera svo hættuleg.
Stundum er hún nánast krúttleg, ég finn ekkert annað orð yfir það.
Fleiri skilaboð
Inger Andersen heitir kona ein, hún er danskur hagfræðingur og sérfræðingur í umhverfismálum, sem lengi vann hjá Alþjóðabankanum en er nú umhverfisstjóri Sameinuðu þjóðanna.
Hún lét hafa eftir sér í fjölmiðlum 25. mars síðastliðinn að „náttúran væri að senda okkur skilaboð“ með kórónaveirunni og COVID-19. Við hefðum farið illa með jörðina og brátt væri komið að skuldadögum, ef við gættum okkar ekki.
Fleiri skilaboð væru á leiðinni og þau yrðu sífellt alvarlegri.
Það var næstum fyndið að hún skyldi taka svona til orða.
Fyrir 252 milljónum ára urðu miklar hörmungar í heiminum. Ástæðurnar eru ekki að fullu ljósar en 96 prósent af öllu lífi í sjónum þurrkaðist út og 70–80 prósent öllu lífi á landi. Miðað við þessi ósköp var loftsteinninn sem útrýmdi risaeðlunum eins og meinlaus gjammandi hvolpur.
Sennilega mundi þó hvorki Inger Andersen né nokkur annar taka svo til máls að þarna hafi náttúran verið að senda lífverum jarðar fyrir 252 milljón árum skilaboð.
Lindýrin í sjónum eða öll þau myndarlegu skordýr sem þá réðu ríkjum á landi höfðu ekkert til saka unnið.
Þetta gerðist bara.
Ótal hamfarir
Ótal hörmungar hafa dunið yfir jörðina ótal sinnum, bæði fyrir og eftir að við mennirnir komumst á legg.
Og það eru engin skilaboð í því fólgin frá neinum. Það gerist bara sem hlýtur að gerast miðað við aðstæður og atburði á hverjum tíma. Og svo gerist sumt bara af hreinni tilviljun.
Séra Jón Steingrímsson eldklerkur horfði upp á hrikalegar náttúruhamfarir árið 1783 þegar gaus við Laka og hann hafði líka svo háþróaða ályktunarhæfni að honum fannst það hlyti að vera einhver tilgangur á bak við þessi ósköp.
Jú, það var verið að senda okkur skilaboð, skrifaði hann í Eldriti sínu. Þetta voru skilaboð frá guði, hann var að láta vita af því að hann væri ekki ánægður með hve vinnufólk væri orðið matvant og að letingjar heimtuðu kryddaðan mat.
Þess vegna sendi guð eldinn.
Þessu trúði séra Jón statt og stöðugt þótt hann horfði að öðru leyti á hamfarirnar með rannsakandi augum vísindamannsins og festi á blað ómetanlega lýsingu á öllu saman.
Rétt fyrir sér?
Það merkilega er samt að Inger Andersen og öll þau sem tala eins og hún um tilgang og skilaboð með kórónuveirunni og COVID-19, þau hafa í aðra röndina rétt fyrir sér.
Það er að segja ef litið er á málflutning frá mjög þröngu sjónarhorni.
Kórónaveiran hefði getað farið af stað hvenær sem er í sögunni, jafnt fyrir milljón árum sem í fyrra. En hins vegar er ljóst að slæm meðferð manna á náttúrunni eykur stórlega líkurnar á svona faraldri.
„Slæm meðferð manna á náttúrunni eykur stórlega líkurnar á svona faraldri“
Við höfum þrengt svo að vistkerfi allra villtra dýrategunda að líkurnar á að við sýkjumst af stökkbreyttum veirum þeirra verða alltaf meiri og meiri.
Það er bara óhjákvæmilegt.
Leðurblökurnar hafa sífellt minna svæði til umráða. Alls konar villtar dýrategundir eru farnar að leita sárnauðugar sífellt nær búsvæðum manna.
Það er strax farið að styttast í næsta faraldur.
Er þetta kannski bara spurning um orðalag, Inger?
Hvaða þytur er þetta í runnanum?
Athugasemdir