Íþróttir eru mikilvægar í menningu okkar. Flestir fjölmiðlar birta sérstakar íþróttafréttir og mörg okkar fylgjast með af áhuga. Oft og tíðum eru í þeim viðtöl við íþróttafólk sem hefur skarað framúr og unnið afrek. Merkilegt nokk eru viðmælendurnir oftar karlar, sama hvert umfjöllunarefnið er, meiðsli, að hann sé að „leggja skóna á hilluna“, eða góður árangur. Hvar eru konurnar?
Það er gömul saga og ný að konur hafi verið skrifaðar út úr sögunni. Um það höfum við ótal dæmi, á öllum sviðum menningar okkar og samfélags – í gervallri sögunni. Við hugsum gjarnan um það sem fortíðarmál, að það gerist ekki á tímum jafnréttis. Skárra ef svo væri.
Aðferðirnar sem hafa verið og eru notaðar til þess arna eru oftast að hundsa, horfa framhjá, þagga niður í og smætta. Með þessu erum við ekki bara að gera lítið úr þeim konum sem gera merkilega hluti, skara framúr og vinna afrek. Nei, við erum líka að koma í veg fyrir að ungar stúlkur og konur eignist fyrirmyndir því eins og glöggt máltæki segir: „You can't be what you can't see.“ Því miður er þetta nákvæmlega það sem íslenskir fjölmiðlar gera ungum stúlkum hér og nú, og þeim sem eiga eftir að koma. Með því að viðurkenna ekki og varpa ljósi á afrek kvenna, ýta fjölmiðlar undir misrétti kynjanna. Annað atriði sem enginn skyldi vanmeta er hversu mikilvægt það er að strákar og karlar sjái og lesi um afrek kvenna í íþróttum – til að útrýma alræmdri kvenfyrirlitningu í þeirra röðum.
„Með því að viðurkenna ekki og varpa ljósi á afrek kvenna, ýta fjölmiðlar undir misrétti kynjanna“
Nú langar mig að taka eitt dæmi af mýmörgum um hvernig konur eru skrifaðar út úr sögunni. Á dögunum var kona verðlaunuð þrefalt fyrir íþróttaafrek vetrarins; besti varnarmaðurinn, besti línumaðurinn og besti leikmaðurinn. Dágóð uppskera þetta. Ekki þótti helstu fjölmiðlum ástæða til að fjalla um þennan árangur. Konan hefur rakað að sér titlum undanfarin ár og er leiðtogi innan síns félags og utan. Einn af fremstu og verðlaunuðustu þjálfurunum landsins sagði hana bestu leikmanneskjuna í sinni stöðu á Íslandi og var þá að tala um bæði karla og konur. Ekki þótti þetta fréttnæmt.
Þessi skrif mín eru persónuleg en umfram allt eru þau skrifuð því ég er femínisti og sem slík skrifa ég fyrir stúlkur og konur í nútíð og framtíð sem þurfa að fá verðskuldaða viðurkenningu í íslenskum fjölmiðlum, hvatningu og sterkar kvenfyrirmyndir.
Athugasemdir