Andrés Ingi Jónsson þingmaður spyr hvenær búningsaðstöður og salerni muni mæta kröfum nýrra laga sem gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns.
Fyrirspurninni beinir hann til bæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Hvenær má vænta þess að ráðherra endurskoði lög, reglugerðir og reglur á málefnasviði sínu með hliðsjón af því að ákvæði þeirra um búningsaðstöðu og salerni gera ekki ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, sbr. lög nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði?“
Lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi síðasta sumar. Í þeim var skilgreindur réttur fólks til að skilgreina kyn sitt og heimiluð hlutlaus skráning kyns. „Opinberum aðilum og einkaaðilum sem skrásetja kyn ber að gera ráð fyrir hlutlausri skráningu kyns, t.d. á skilríkjum, eyðublöðum og í gagnasöfnum, og skal skráningin táknuð á óyggjandi hátt,“ segir í lögunum. „Í vegabréfum skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns með bókstafnum X.“
Ýmsar reglugerðir heyra undir umhverfis- og auðlindaráðherra sem tengjast búningsaðstöðum og salernum, meðal annars byggingarreglugerð, reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð um baðstaði í náttúrunni.
Athugasemdir