Stundin mun á næstu vikum senda út menningarviðburði í samstarfi við Menningarhúsin í Kópavogi. Viðburðirnir verða haldnir klukkan 13 á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á meðan samkomubanni stendur vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Hægt verður að sjá viðburðina á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og Facebook-síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.
Meðal þeirra sem koma fram í viðburðaröðinni eru Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur, Gerður Kristný skáld, Jógvan, Matti Matt, Vignir Snær, Ragna Fróðadóttir, Andri Snær Magnason rithöfundur, Sigurbjörn Bernharðsson, Halla Oddný, Þorgrímur Þráinsson, Elín Björk Jónasdóttir, Einar Falur, Kordo kvartettinn og Hrönn Egilsdóttir.
Útsending dagsins er úr Salnum, þar sem jazztríóið Hot Eskimos mun flytja útsetningar á íslenskri popp-, rokk-, og punktónlist auk erlendra laga og frumsamins efnis. Tríóið skipa þeir Karl Olgeirsson píanóleikari, Jón Rafnsson kontrabassaleikari og Kristinn Snær Agnarsson trommuleikari.
Útsendingin hefst klukkan 13. Streymi af viðburðinum verður birt í þessari frétt og á fyrrgreindum Facebook-síðum ásamt forsíðu Stundarinnar. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá menningarhúsunum í Kópavogi um viðburðinn:
Kúltúr klukkan 13 | Hot Eskimos
Hot Eskimos mæta í Salinn í Kópavogi og flytja útsetningar á íslenskri popp-, rokk-, og punktónlist auk erlendra laga og frumsamins efnis.
Þeir Karl Olgeirsson píanóleikari, Jón Rafnsson kontrabassaleikari og Kristinn Snær Agnarsson trommuleikari hafa starfað saman í Hot Eskimos frá árinu 2010. Þeir hafa gefið út geisladiskana Songs from the top of the World (2011) og We ride Polar Bears (2015) sem hlutu góðar viðtökur og lof gagnrýnenda. Tríóið vinnur nú að upptökum á nýju efni sem er væntanlegt á markað með haustinu.
Athugasemdir