Daginn eftir að fyrsta samkomubannið var sett á stigum við feðgar út úr bílnum fyrir framan Austurbæjarskóla. Sá stutti nam staðar á miðri gangstéttinni og horfði í kringum sig, rannsakandi á svip. Pabbi? Hvar er allt fólkið?
Klukkuna vantaði nokkrar mínútur í átta á þriðjudagsmorgni en það var akkúrat engin umferð, umhorfs eins og á sunnudegi. Það voru engir túristar að bíða eftir grænu ljósi eða að horfa á eftir rútubílum með þessum spyrjandi greddusvip sem einkenndi erlenda ferðamenn. Það var búið að reka síðasta fíflið út úr partíinu og tæma öskubakkana. Við höfðum endurheimt borgina okkar! Við vorum frjálsir!
Seinna um daginn ók ég í gegnum vesturbæ Reykjavíkur á fimmtán kílómetra hraða eins og árið væri 1969. Ég keypti bækur til eigin þarfa í fyrsta sinn í langan tíma á lager Forlagsins úti á Granda. Það var enginn annar í búðinni og afgreiðslufólkið gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig. Ég sá alveg á svipnum á þeim hvað þau voru að hugsa: Akkúrat núna er heimsendir að eiga sér stað og þú ert síðasti kúnninn í sögu þessa fyrirtækis. Þú ert kominn hingað til að bjarga okkur, Þórarinn Leifsson! Ekki fara!
Ég fór hins vegar og fékk mér falafel á galtómum stað í næstu götu. Spjallaði heillengi við búsældarlega afgreiðslukonu sem sagðist vera mest í því að senda mat heim til fólks.
Allt í einu datt mér í hug að ég ætti eftir að minnast þessa tímabils með töluverðri nostalgíu eftir nokkra mánuði. Minnast þess þegar ég og borgin sem ól mig af sér fengum tækifæri til að endurræsa okkur frá grunni og kynnast upp á nýtt.
Made in Reykjavik
Ég fæddist á Landspítalanum einhvern tíma á síðustu öld. Í minningunni anga Þingholtin af hveraprumpi og dagmömmurnar af blautum sígarettum. Höfuðborg Íslands hýsti meirihluta þjóðarinnar á tiltölulega litlu svæði sem var rammað inn af Esjunni og nokkrum heiðum sem héldu borginni í gíslingu stóran hluta ársins, hún var svolítið eins og geimstöð á tunglinu. Utan bæjarmarkanna var ekkert nema ísköld, hraunótt auðnin. Alveg frá því að ég man eftir mér hafði ég reynt að flýja þennan skelfilega stað.
Hér ól ég manninn ef mann skyldi kalla. Skafreykjandi smápönkari, lausgyrt listaspíra, skiltamálari, vefhönnuður, myndskreytir og loks rithöfundur. Alveg eins og hjá skáldinu forðum varð það dýpsta hvöt lífs míns að komast burt úr foraðinu, burt frá allsleysi andans og doða lífsins, hvað sem það kostaði. Reykjavík var fátt annað en stökkpallur út í heiminn, fyrsti áfanginn í flóttaleið gegnum napurlegt hraunið suður í Leifsstöð, út úr þessu guðsvolaða landi.
Burt!
Ást og haturs-samband
Ég er örugglega ekki einn um að hafa átt í þessu skrítna ást og haturs-sambandi við Reykjavík. Ekki sá fyrsti eða síðasti til að klastra sjálfsmyndinni saman við borgir úti í heimi og reyna að upplifa mig sem heimsborgara út frá þeim; Tóti í Köben, Tóti í Berlín eða Tóti í Barselóna hljómaði alltaf betur en Tóti í Slippnum. Útlöndin eru einhvern veginn miklu fínni en litli bastarðurinn Reykjavík og stundum ríghöldum við í milljónaborgirnar á samfélagsmiðlum löngu eftir að við erum flutt „heim“.
Ég er örugglega ekki einn um að hafa átt í þessu skrítna ást og haturs-sambandi við Reykjavík.
Frændfólk mitt flutti frá Berlín til Danmerkur fyrir nokkrum árum síðan. Og þar sem eitthvert rjómabollu-kollegí í Árhúsum getur aldrei verið jafn svalt og listamannaverksmiðjuloft í Austur-Berlín eru þau enn þá staðsett í Þýskalandi á samfélagsmiðlum nokkrum árum síðar. Svartholið Berlín var orðinn hluti af sjálfsmyndinni, ég get auðveldlega speglað mig í þeirri pælingu.
Skrítnir dagar
Við feðgar höfðum sem sagt endurheimt heimaborg okkar og nokkrir skrítnir dagar fylgdu í kjölfarið. Sonur minn sönglaði yfir Playstation í dimmri stofu í Garðabænum, spann djöflasýru úr lærleggjum Messi og Rolando á skjánum á meðan pabbinn breiddi úr sér ofan á tvíbreiðu rúmi með MacBook Pro á maganum og nýja skáldsögu suðandi í framheilanum. Stundum vaknaði ég á morgnana og fannst ég svolítið slappur, með vægan hita, örlítinn blautan hósta; paranojan var allsráðandi. Í byrjun apríl fékk ég síðan óvænt skilaboð um að koma í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Ég mætti fjölda fólks og vígalegum öryggisverði í anddyri Turnsins í Kópavogi. Hann spurði hvort ég væri veikur og hvort ég hefði verið í útlöndum nýlega. Síðan var mannskapnum raðað upp við hvítan vegg með tveggja metra millibili, líkt og fyrir aftöku áður en okkur var skipað inn í lyftu sem minnti óþyrmilega á líkbrennsluofn.
Uppi á þriðju hæð tók við örstutt bið fyrir framan skenk áður en ég var kallaður inn á litla skrifstofu þar sem þrjár stelpur með grímur lásu upp nafnið mitt. Ein þeirra tróð rándýrum sýnistökupinna lengst upp í nösina á mér og á kaf í miðheilann. Á leiðinni niður aftur kannaðist ég við konu framar í röðinni. Það var svolítið sérstakt þegar við kinkuðum kolli í kveðjuskyni, einhver örvænting, svona eins og við vissum bæði að við myndum deyja eftir tvo daga og værum bara að flýta okkur heim til að kaupa eiturlyf á Telegram og ríða svo öllu ljóta fólkinu á Tinder, mjög hratt og subbulega. Þarna var líka einhver kona búin að setja á sig svarta Hatara-grímu sem hún hafði tekið með sér að heiman. Einhver spurði út í þetta og hún virtist hálf skammast sín fyrir að vera svona vel varin meðan við hin vorum berskjölduð og saklaus.
Reykjavík smitast
Þegar ég kom aftur niður á bílastæðið fyrir framan Turninn greip mig svipuð óraunveruleikatilfinning og þegar ég skildi í síðasta sinn fyrir einhverjum árum síðan. Þá hafði heimurinn breyst á einni nóttu eins og hendi væri veifað. Ég hef heyrt að þegar fólk skilur þá fer það oftast á sömu veiðilendur og það fann síðasta maka; hafði þá gengið í hjónaband og reynt í framhaldi að éta sig í hel fyrir framan sjónvarpsskjá í úthverfi. Það er jú mannlegt eðli að rata í sama farið.
En núna fannst mér vera kominn tími til að losna undan mæðraveldinu fyrir fullt og allt. Svo í stað þess að leita að Kaffibarnum tók ég saman föggur mínar og flutti í kommúnu í Hlíðunum þar sem ég bjó í nokkra mánuði með litháskum krökkum sem unnu á veitingahúsum niðri í bæ. Það var svolítið sérstakt að uppgötva að borgin mín var full af útlendingum sem gengu í skítadjobbin meðan Íslendingarnir sátu ofar í fæðukeðjunni. Borgin mín hafði breyst án þess að ég tæki almennilega eftir því fyrr en nú.
Borgin mín hafði breyst án þess að ég tæki almennilega eftir því fyrr en nú.
Einhvern tíma eftir aldamótin höfðu þúsundir ferðamanna tekið að streyma í gegnum hraunið frá flugvellinum, þeir flæddu líkt og vinnumaurar niður Laugaveginn í fjöllita útivistarfatnaði áður en þeir drifu sig áfram út á land, út í hrjóstrugar óbyggðirnar.
Og Reykjavík smitaðist.
Matsölustaðir opnuðu á hverju horni, hveralyktin vék fyrir kannabisfnyk og ungt fólk flykktist til landsins hvaðanæva að úr heiminum til að vaska upp og steikja hamborgara. Fyrst var það bara miðborgin sem breyttist en smám saman fóru úthverfin að lifna við líka.
Reykjavík öðlaðist einhvern seiðandi sjarma sem erfitt var að festa reiður á.
Ó borg, mín borg
Þessi tilfinning ágerðist enn frekar þegar ég fór að gæda. Ég kynntist landinu mínu á nýjum forsendum og gat þar að auki horft á Reykjavík utan og ofan frá, kynnt mér sögu hennar, komist að því hvers vegna Laugavegur hét Laugavegur en ekki bara Bredgade og hvaðan þessi hveralykt kom eftir allt saman. Þá daga sem Snæfellsnesið reyndi að drepa mig sá ég Reykjavík sem blíða heimahöfn. Í hvert sinn sem ég ók niður Ártúnsbrekkuna í lok vaktar þótti mér örlítið vænna um þessa tilreyktu systur sem ég hafði unnið svo ötullega í að þroskast frá öll þessi ár.
Finnst ykkur hún ekki falleg? sagði ég við túristana þegar Hallgrímskirkja og Sundahöfn blöstu við í fjarska. Hún er ekki Berlín, ekki Köben eða Barselóna. En hún er einstök, svolítið eins og kiðfætt og bílprófslaus listakona sem er alveg að fara að detta á andlitið á Laugaveginum í ölæði. Sjáið hvernig hún korrar makindalega á útreyktu nesinu, baulandi inn í bergmálsklefana, alveg úr sambandi við ógnvænlegt landið sjálft sem gæti hraunað yfir hana á hverri stundu og sópað út í Faxaflóa með einu handtaki. Hún er fullkomlega óþolandi en samt þykir okkur svo ósköp vænt um hana Reykjavík, við viljum ala börnin okkar upp í henni, hvergi annars staðar.
Sorry buddy, er hnussað fyrir aftan mig. This city is just ugly as hell!
Ég slekk á mækinum og læt Hauk Morthens eiga síðasta orðið meðan ég dreifi túristunum á hótelin kringum Hlemm. Haukur syngur síðasta atkvæðið úr Ó borg, mín borg:
Um síð, um síð ég kem og krýp þér aumur
og kyssi jafnvel hörðu strætin þín.
Því af þér fæddist lífs míns ljósi draumur,
eitt lítið barn og það var ástin mín.
Athugasemdir