Mikillar óánægju gætir meðal hjúkrunarfræðinga um nýjan kjarasamning, en þeir tjá sig nú um hann í lokuðum Facebook-hópi sínum. Hjúkrunarfræðingur með tæplega 40 ára starfsreynslu segist ekki geta ímyndað sér annað en að samningurinn verði kolfelldur. Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins skrifuðu undir samninginn 10. apríl, en þá höfðu samningar verið lausir í meira en ár. „Það eru allir í sjokki,“ segir einn viðmælanda Stundarinnar.
Samningurinn á að taka gildi frá aprílbyrjun til loka mars 2023 og við undirritunina sagði formaður félagsins samninginn að um tímamótasamning væri að ræða. Einn viðmælandi Stundarinnar segir fáa félagsmenn vera á sömu skoðun og formaðurinn og vísar þar til umræðna í áðurnefndum Facebook-hópi hjúkrunarfræðinga. Hún segir að þær kjarabætur sem samningurinn kveði á um séu í raun ekki hreinar launahækkanir, því ýmis réttindi séu tekin af hjúkrunarfræðingum á móti.
Segir dæmi um launalækkanir
Þá séu dæmi um að hjúkrunarfræðingar lækki í launum, einkum á Landspítala. „Ég heyrði í einni, sem sagðist lækka um 40 þúsund á mánuði, eftir að Hekluverkefnið var lagt niður,“ segir hjúkrunarfræðingurinn og á þar við greiðslur sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala fengu gegn því að vera á viðbragðslista og taka tiltekinn fjölda vakta.
Meðal þess sem samningurinn felur í sér, að hennar sögn, er 30 daga sumarfrí fyrir alla hjúkrunarfræðinga, óháð starfsaldri en áður þurftu þeir að hafa unnið tilskilinn árafjölda til þess. Þá er komið inn ákvæði um að þeir sem eru 55 ára og eldri þurfa ekki að vinna næturvaktir. „Þetta er gamalt ákvæði, sem við seldum einu sinni á móti hækkun og er nú komið inn aftur,“ segir viðmælandi Stundarinnar. „Við fáum sjaldan hreinar hækkanir, við þurfum alltaf að selja eitthvað á móti.“
„Við fáum sjaldan hreinar hækkanir, við þurfum alltaf að selja eitthvað á móti“
Verði samningurinn samþykktur mun vinnuvika hjúkrunarfræðinga styttast í 36 klukkustundir á viku. „En við þurfum að sleppa kaffitímunum okkar á móti. Þannig að þetta er ekki hrein stytting á vinnutíma. Og þetta á ekki að komast til framkvæmda fyrr en í maí á næsta ári - það er meira en ár í það.“
Mörgum finnst þetta móðgandi
Viðkomandi hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í um 38 ár. Laun hennar fyrir 100% starf eru nú 524.000 og hún segir að þau myndu hækka um 17.000 á samningstímanum. Hún segir ekki koma til greina að samþykkja samninginn. „Nei, og ég á ekki von á að margir geri það. Þetta eru nánast engar launahækkanir, fólk átti von á talsvert meiru og ég heyri að mörgum finnst þetta móðgandi. Þetta eru hrikaleg vonbrigði, ég get ekki orðað þetta neitt öðruvísi.“
Samningurinn verður kynntur rafrænt fyrir félagsmönnum og atkvæðagreiðsla um hann hefst næstkomandi miðvikudag, 22. apríl og stendur í viku.
Athugasemdir