Við Íslendingar erum góð í því að takast á við utanaðkomandi hættu, að hugsa sem einn maður, að fylgja einföldum reglum, eins og hópur fjallgöngufólks í einfaldri röð, sem fetar einstigi, allir hafa sinn stað í röðinni og sitt pláss. Það getur farið illa ef fólk fer að troða á hælunum hvert á öðru. Best er að hugsa ekkert nema að setja einn fót fram fyrir annan. Þannig mjakast hópurinn áfram með samstilltu átaki.
Stundum dettur kvíðasjúklingum í hug að fara í fjallgöngu og riðla skipulaginu þar sem þeir skakklappast á völtum fótum inni í miðri röðinni og velta fyrir sér upphátt hvort þeir muni hrapa niður með hausinn á undan eða renna niður klettahlíðina á rassinum. Þótt kvíðasjúklingarnir skapi usla gegna þeir samt mikilvægu hlutverki við að draga fram hugrekki hinna regluföstu og fótvissu og leysa þannig úr læðingi vissa gleði.
Í kórónugöngunni eru þannig kvíðasjúklingar kallaðir kóvitar og líkt og fyrirmyndirnar draga þeir fram hvað sum okkar eru einfaldlega miklu betri í kórónuveiru en aðrir. COVID-ofurfólkið er hins vegar hyllt í fjölmiðlum og göngustígar eru fullir af fólki í goritexi, fjölskyldur hnappa sér saman og milli þeirra og annarra eru hárfínir tveir metrar. Þetta er fólkið sem kann að fylgja reglum, talar einum rómi, þvær sér 20 sinnum á dag og sprittar sig.
„Við erum fallin í COVID-óvit og reiðum okkur núna á valdafólk“
Og það er lítið um gagnrýni. Við erum fallin í COVID-óvit og reiðum okkur núna á valdafólk. Það horfir á trúnaðartraust okkar vaxa eins og bankainnistæðu. Eftirspurn eftir landsfeðrum og landsmæðrum er mikil, hin heilaga þrenning sóttvarnaryfirvalda og lögreglu eru rokkstjörnur á okkar undarlegu tímum. Og ríkisstjórnin nýtur góðs af, þjóðin stendur heilshugar að baki henni eins og öðrum valdastofnunum.
Meðan þessi halelúja-samkoma stendur yfir snýr forstjóri Samherja aftur undir huliðshjálmi drepsóttarinnar. Það er búið að rannsaka málið segja talsmenn fyrirtækisins og vísa í rannsókn norskrar lögmannsstofu sem var í vinnu fyrir þá sjálfa. Samt hefur ekkert heyrst af lögreglurannsókninni hér. Stórfyrirtæki búa sig undir að sækja hundruð milljóna í sjóði almennings vegna björgunaraðgerða sem efnt var til, svo hægt væri að milda ískalda og langvarandi kreppu sem er um það bil að skella á.
En þótt fólk sjái þetta ekki, skulum við gefa því það sem það á. Það talar ekki eins og Kóvitarnir sem þykjast vita allt betur en aðrir, ef þeir vilja ekki loka alla inni um ókomna framtíð vilja þeir reka þá út á götu svo þeir myndi hjarðónæmi á sem stystum tíma.
Og ekki eru Kó-óvitarnir betri. Þeir laumast úr sóttkví í sumarbústað, velta bílnum og smita sveitalögguna, sjúkraflutningafólkið og alla aðra miskunnsama samverja sem á vegi þeirra verða. Þeir missa út úr sér hnerra í opnu rými, ráfa um Bónus með móðu á gleraugunum, virða ekki fjarlægðarmörk og reka kerruna í rassinn á næsta manni. Ég las kílómetralangan Facebook-þráð þar sem því var haldið fram að þarna væru einkum á ferðinni karlar yfir sjötugt sem teldu að reglurnar væru samdar fyrir einhverja aðra.
Frá upphafi veiru hafa fjölmiðlar fjallað af atorku og aðdáunarverðri þrautseigju um kórónaveiru frá öllum hliðum, allt frá því hún skreið út um rassgatið á kínverskri leðurblöku og hóf að skoða sig um í heiminum. Allir fréttatímar og allt þar á milli er helgað lífi veirunnar, það líður aldrei svo mínúta að það sé ekki verið að fjalla um kórónaveiruna eða tala við fólk um kórónaveirur, telja sjúka og smitaða eða fara yfir reglurnar um veirur. Þetta er hin línulega dagskrá. Síðan eru alls kyns aukastöðvar og streymisveitur sem sjá okkur fyrir nauðsynlegri afþreyingu svo við göngum ekki af göflunum eða til að við gerum það að minnsta kosti hægt og sígandi þannig að símakerfið á geðdeildinni hrynji ekki.
Það hefur gleymst að fullt af fólki yfir sjötugt horfir og hlustar bara á Ríkisútvarpið. Það kann að fylgja settum reglum ef þær eru sanngjarnar og settar fram á skýran hátt en það kann kannski ekki allt á sjónvarpsfjarstýringu.
Það hlustar allan sólarhringinn á tölur um smitaða, veika, látna COVID-sjúklinga alls staðar í heiminum, og fær að heyra í minnstu smáatriðum, allan guðslangan daginn, hvernig sjúkdómurinn pínir og plagar fólk, aðallega í þeirra aldurshópi. Kallaðir eru til sérfræðingar og sagnfræðingar til að rifja upp gamlar plágur og pestir líka eins og þetta sé ekki nóg. Og meðan við getum fundið eitthvað í sjónvarpsfrumskóginum til að hvíla okkur á þessum hörmungum, þá eru það helst óveðursfréttir eða heimildamyndir um snjóflóð sem brjóta upp dagskrána hjá þessu fólki.
Sumt fólk hefur verið háð börnum sínum og barnabörnum til að rata um í sjónvarpsfrumskóginum, núna snýst COVID-platan hring eftir hring, án þess að neinn fái neitt um ráðið því börnin mega ekki koma inn á heimilið. Það ætti því að huga að því að senda fólk í geimbúningum í sóttkvírnar til að hafa smá sýnikennslu í sjónvarpsglápi og flótta undan kórónuveiru.
Kóvitunum og Kó-óvitunum er viss vorkunn. Það eru ekki alltaf gáfulegustu, skemmtilegustu og frumlegustu eiginleikarnir sem blómstra á svona tímum. Það hafa orðið til nýjar dyggðir og fólkið sem kann ekki, getur ekki eða vill ekki fylgja þeim er fallið í ónáð. Hetjur vorra tíma eru fólkið sem þykist ekki vita betur en Alma og Þórólfur, fólkið sem hlýðir Víði. Það heldur sig heima, hnerrar í krepptan olnboga, syngur með kórnum sínum á Zoom, föndrar, bakar, lyftir ketilbjöllum og lofar stjórnvöld.
Þetta fólk á eftir að leiða okkur um einstigið eins vel og hægt er. En höfum í huga að þeir eiginleikar hópsálarinnar sem við þurfum að tileinka okkur núna eru ekki þeir allra skemmtilegustu. Stundum höfum við orðið okkur til skammar vegna þeirra og slegið hvert metið á fætur öðru í foringjadýrkun, heimóttarskap og einsleitni.
Og sumir eiginleikanna sem við þurfum á að halda í dag eru mjög varasamir. Þar má nefna, fjarlægð, blinda hlýðni við stjórnvöld og skort á gagnrýni.
Við látum okkur hafa það því við viljum alls ekki deyja úr COVID-19. En við viljum ekki heldur deyja úr leiðindum, einangrun og hræðslu, jafnvel ekki þeir sem eru komnir yfir sjötugt.
Athugasemdir