„Jæja, það er komin niðurstaða – þú ert með veiruna,“ sagði heimilislæknirinn minn við mig í símtali fyrir tíu dögum síðum. Það kom mér á óvart. Ég hafði bara verið með smá kvef – að ég hélt en var í sóttkví og fór því eftir settum reglum og hafði samband við heilsugæsluna mína. Ég sagði öllum í kringum mig að ég væri 90 prósent viss um neikvætt próf enda ekkert að mér.
Þegar símtalið barst hafði ég verið í einangrun heima hjá mér í sex daga útaf kvefinu og sóttkví í tvo daga þar á undan. Nú eru dagarnir 16 talsins og ég enn ein heima í einangrun. Það er skrítin tilfinning fyrir manneskju eins og mig – sem aldrei stoppar. Enda sagði ég það þegar veiran barst hingað að einn minn stærsti ótti væri að vera lokuð ein heima hjá mér – kannski þess vegna sem ég reyndi að afneita einkennum.
Ég var hrædd til að byrja með. Ég var líka þakklát því ég er ung og ekki í áhættuhópi. Svo mér stafar minni ógn af veirunni sjálfri en mörgum öðrum. Ég grét – en þá aðallega því ég vissi að það yrði enn lengra þar til ég fengi að vera í samveru við börnin mín. Ég á nefnilega þrjá stelpur. Stelpur sem ég er vön að hafa heima aðra hverja viku. Ég á ekki maka – sem er líka einmanalegt í þessu ástandi.
Einkenni mín voru ekki týpísk – ef það er hægt að segja að eitthvað sé týpískt við þessa veiru. Ég fann fyrir kvefi og stífluðu nefi. En var sagt að líklega væri það ekki veiran, maður fengi sjaldan stíflað nef með henni – ég hóstaði nefnilega ekkert.
„Ég var hrædd til að byrja með. Ég var líka þakklát því ég er ung og ekki í áhættuhópi“
Ég fann fyrir verkjum í líkamanum – en hélt að það væri af því að ég var að byrja að vinna heima og stólarnir mínir voru lélegir. Tvær nætur í röð þurfti ég svo að standa upp og labba um gólf utaf verkjum í líkama – en það var rúmið – það er lélegt og ég var harðákveðin í að kaupa mér nýtt þegar þessu öllu lýkur.
Ég ræddi þetta við fólk í kringum mig – sem sögðu mér að augljóslega ætti ég almennt bara léleg húsgögn. Já sagði ég og bara fannst ekkert athugavert við kaldhæðnina á bak við þessi orð – já og hvað húsgögnin mín versnuðu öll sem eitt á einni nóttu.
Ég átti erfitt með að einbeita mér í vinnunni, fékk illt í augun við að horfa á tölvuskjáinn – gat ekki lesið texta og fann svona þyngsli í höfðinu, örlaði á höfuðverk það var af því að ég var búin að vera léleg við að nota gleraugun mín. Sem ég á að nota til að létta á sjónskekkjunni við vinnu. Ég setti þau því upp. Þetta hvarf ekki en ég var viss um að það tæki bara tíma.
Ég r ein af þeim sem bý yfir áfallstreitu – sem að kom eftir langvarandi baráttu við heilbrigðiskerfið um að hlusta á mig. Svo ég taldi öll einkennin mín bara vera hluta af ímyndun í hausnum á mér. Svo er ég líka íslendingur og harka bara svona af mér. Ég fékk aldrei hita – aldrei hósta en fékk að fara í próf útaf heimilisaðstæðum.
Núna, öllum þessum dögum síðar þegar hausinn er kominn í lag, áttaði ég mig á að þetta kenndi mér margt. Við Íslendingar þykjum vera hörð af okkur – við köllum ekki allt ömmu okkar og látum ekki smá kvef – verki eða hausverk stoppa okkur í að sinna okkar.
Þá fór ég að huga að því að núna verðum við öll að láta af þessari hörku. Kvefið á að stoppa okkur frá því að fara út í búð eða innan um fólk. Sé minnsti grunur um veikindi þá eigum við að vera heima – við eigum að bakka átjánhundruð skref til baka í hörkunni og bara viðurkenna að við verðum veik – nú er heimsfaraldur sem er lífsógnandi fyrir marga og margir hafa týnt lífinu í. Það varðar okkur öll og kannski ættum við að láta það kenna okkur mýkt.
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa verið í sóttkví þegar ég veiktist. Því annars hefði ég harkað þetta af mér. Sem sýnir okkur mikilvægi þess sem stanslaust er brýnt fyrir okkur. Virðum tilmæli.
Skiljum hörkuna eftir – hlustum á líkamann okkar betur en nokkru sinni fyrr og höldum okkur heima – ef ekki fyrir okkur þá fyrir náungann.
Athugasemdir