Við Íslendingar getur hrósað happi yfir því að þekking og vísindi skuli hafa ráðið för í viðureigninni við veiruna. Hér og þar höfum við séð stjórnvöld hrekjast undan henni, fyrst í afneitun, jafnvel fullkominni, síðan þegar hún dugir ekki, með yfirgengilegum sýningum á röggsemi – og loks með úrræðaleysi og glundroða, eins og nú ríkir í Bandaríkjunum.
Hér á landi hefur maður allan tímann haft á tilfinningunni að þau sem aðgerðum stjórna séu skrefinu á undan ástandinu – hafi séð fyrir þróun og vendingar. Enn er of snemmt að hrósa happi – enn eru margir fárveikir og enn er of snemmt að slaka á gagnvart útbreiðslu veirunnar, en fram til þessa hefur vel verið haldið á málum af hálfu almannavarna, landlæknis og sóttvarna. Ríkisstjórnin hefur líka stillt sig um að hlýða ákalli sumra um að ýta til hliðar fagfólkinu og taka stjórnina, sem er gott. Ríkisstjórnin hefur haldið sig við hlutverk sitt, sem er að bregðast við þeim efnahagslegu hamförum sem veirunni fylgja.
Að hirða pottinn
Þar hefur ýmislegt tekist vel – einkum eftir að þingið fór höndum um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að fara að sumum tillögum stjórnarandstöðunnar, bæði við afgreiðslu hlutastarfafrumvarpsins og einnig þegar kom að því að setja fyrirtækjum skilyrði um að eigendur og stjórnendur geti ekki sogað til sín fjármagn út úr þeim, eigi þau að fá fyrirgreiðslu.
Best hefði verið ef ríkisstjórnin hefði strax kallað á stjórnarandstöðuna: hjálpið okkur, gerum þetta saman – allir upp á dekk!
„Best hefði verið ef ríkisstjórnin hefði strax kallað á stjórnarandstöðuna: hjálpið okkur“
Þeir flokkar sem stjórnarandstöðuna skipa eru fulltrúar tæplega helmings kjósenda og þrátt fyrir ólíkar áherslur, hugsjónir og lífsviðhorf er þeim öllum treystandi fyrir upplýsingum. Þegar upp kemur neyðarástand á samráð við stjórnarandstöðu að vera eins mikið og kostur er. Þannig hefur verið haldið á málum í Danmörku og Noregi og víðar í kringum okkur.
En ekki hér. Hvað sem líður yfirlýsingum núverandi stjórnarflokka um breytt vinnubrögð ríkir hér enn gamli hugsunarhátturinn um valdið sem vinning. Samkvæmt honum eru kosningar eins og peningaspil. Lagt er undir með kosningaloforðum. Eftir kosningar ná einhverjir flokkar saman um að mynda ríkisstjórn (eða semja um það á laun fyrir kosningar) og teljast þá vera sigurvegarar, hvað sem líður eiginlegu fylgi – og hirða pottinn. Ná völdum.
Þó að við í stjórnarandstöðu næðum að laga eitt og annað í meðförum þingsins – og forsætisráðherrann kynnti svo þær umbætur og lét í veðri vaka að þær væru frá meirihlutanum – þá sáum við ástæðu til að leggja fram ýtarlegar breytingartillögur um stóraukin framlög upp á 30 milljarða til velferðarmála, alls konar framkvæmda og rannsókna og annarrar sköpunar.
Verðug og óverðug
Tvennt má nefna sem tekist var á um, og snerist kannski ekki fyrst og fremst um fjármagn heldur allt eins um það hver teljist verðug þess að hið opinbera lyfti undir með þeim.
Meðal þess sem við tókumst á um í nefndastarfinu var átakið „Allir vinna“ – endurgreiðsla á virðisaukaskatti – sem stjórnarmeirihlutinn vill að einskorðist að mestu við hefðbundnar karlagreinar. Samfylkingin barðist fyrir því í efnahags- og viðskiptanefnd að átakið næði einnig til iðngreina þar sem konur eru fjölmennar, eins og hárgreiðslu og hönnunar. Meirihlutinn brást við með því að bæta við bílaverkstæðum.
Annað mál sem tekist var á um var barnabótaaukinn, sem meirihlutinn vildi skerða um helming ef hjón hefðu saman náð 1250 þúsund króna launum á síðasta ári, sem sé 625 þúsund hvort, en meðallaun í landinu eru tæplega 800 þúsund krónur. Stjórnarliðar lögðu ríka áherslu á þessar skerðingar, enda líta þeir á barnabætur sem fátækrastyrk. En þarfir barnanna eru þær sömu nú þó að tekjur foreldranna hafi verið nærri meðallaunum árið 2019. Fólk hrapar í tekjum vegna minnkandi atvinnu – eða missir hana jafnvel – þarf að uppfylla þarfir barnanna sinna hér og nú, árið 2020, með þeim tekjum sem það hefur nú – ekki tekjunum sem það hafði árið 2019. Þetta segir sig eiginlega sjálft.
Saman og sundur
Svona var tekist á um mál – og svona verðu áfram tekist á um mál. Fyrir okkur sem höfum tamið okkur að rækta heilbrigðan mótþróa (sem sumir kenna við röskun) hefur það reynt svolítið á að hlýða alltaf Víði, sýna borgaralega hlýðni þegar kemur að sjálfsögðum tilmælum og fyrirmælum um fjarlægð og heimveru. Við kinkum kolli og allt samfélagið hreyfist saman til að varna því að faraldurinn verði að meiriháttar plágu. En hlýðninni eru takmörk sett. Við þurfum að muna að stjórnmálaflokkarnir eru fulltrúar ólíkra hugsjóna og standa vörð um ólíka hagsmuni.
Við eigum sameiginlega hagsmuni sem lúta að heilsuvernd en þegar kemur að dreifingu gæða og byrða þurfum við alltaf að vera á verði gagnvart þeim öflum sem ekki vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins heldur vilja soga til sín meira en þeim ber ...
Athugasemdir