Spænska veikin 1918–1919 er banvænasti faraldur sem saga síðustu alda kann frá að greina. Veikin er talin hafa sýkt um þriðjung allra íbúa heimsins, eða um 600 milljónir manns, og lagt að velli nærri tíunda hvern mann sem smitaðist, samtals um 50–60 milljónir manna, oftast úr lungnabólgu. Tölurnar eru á reiki. Sumar heimildir telja 21–50 milljónir manna hafa misst lífið af völdum veikinnar, aðrar heimildir nefna allt upp í 100 milljónir dauðsfalla.
Mikið mannfall þá
Spænska veikin er nú talin hafa átt upptök sín í Kína og borizt þaðan til Ameríku og Evrópu. Hún barst milli vannærðra hermanna með veiklað ónæmiskerfi í níðþröngum skotgröfum vígvallanna í Evrópu á lokaári fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914–1918 og barst síðan áfram lengra þegar hermennirnir sneru hver til síns heima eftir að friður brauzt út haustið 1918. Ungt fólk milli tvítugs og þrítugs varð verst úti. Spánn var hlutlaus í stríðinu og hafði því enga ástæðu til annars en að reiða fram réttar upplýsingar um farsóttina, upplýsingar sem stríðandi fylkingar reyndu að leyna til að láta sem minnstan bilbug á sér finna. Þess vegna var veikin kennd við Spán. Nafngiftin festist.
Margir læknar réðu fólki að forðast mannþröng eða jafnvel mannamót yfirleitt. Sums staðar var fólk varað við handaböndum og því var sagt að halda sig innan dyra, snerta ekki bækur á söfnum og setja grímur fyrir vitin. Skólum og leikhúsum var víða lokað. Fáir mæltu með handþvotti.
Margir læknar veiktust. Um 675.000 Bandaríkjamenn týndu lífinu. Mannfallið nam 0,6% af íbúafjölda landsins. Eins og hendi væri veifað lækkaði meðalaldur Bandaríkjamanna við andlát í einu stökki um 12 ár, þ.e. úr 51 ári 1917 í 39 ár 1918. Árið eftir, 1919, stökk meðalaldurinn upp í 55 ár og hefur farið hækkandi jafnt og þétt æ síðan þar til 2015–2017 þegar ótímabær dauðsföll í örvæntingu vegna of stórra lyfjaskammta, sjálfsvíga o.fl. settu strik í reikninginn. Mörg önnur lönd fóru mun verr út úr faraldrinum sem gaus upp í þrígang 1918–1919. Tuttugasti hver Indverji týndi lífi.
Um 500 manns misstu lífið á Íslandi af völdum spænsku veikinnar eða rösklega 0,5% mannfjöldans líkt og í Bandaríkjunum borið saman við 0,2%–0,3% í Danmörku. Það var eins og svartidauði frá því 500 árum fyrr væri genginn aftur. Ferðir yfir Jökulsá á Sólheimasandi og yfir Holtavörðuheiði voru bannaðar og verðir gættu vegarins. Á Norður- og Austurlandi var sett á hafnbann. Snarræði Sigvalda Kaldalóns, tónskálds og héraðslæknis, við Ísafjarðardjúp 1911–1921 átti sinn þátt í því að Djúpmenn sluppu við spænsku veikina líkt og Vestfirðir sluppu við svartadauða að heita má. Um þetta sagði dr. Haraldur Briem, fv. sóttvarnalæknir, í viðtali við DV á 100 ára afmæli spænsku veikinnar 2018: „Þetta er með fáum dæmum í veraldarsögunni þar sem tókst að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs með því að hindra mannaferðir.“
Minna mannfall nú
Nú stendur heimsbyggðin aftur í svipuðum sporum og 1918 þótt margt hafi breytzt. Veirusýking sem brýzt út í Kína berst miklu hraðar yfir löndin nú en þá, en á móti kemur að getan til að bregðast við veikinni með vísindaþekkingu að vopni og leiðarljósi er einnig mun meiri nú en þá enda þótt bóluefnis gegn veirunni sé varla að vænta fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (World Health Organization, WHO, ísl. AHS) og sóttvarnayfirvöld í hverju landi tefldu fram löngu tilbúnum og vel ígrunduðum viðbragðsáætlunum. Kínversk yfirvöld brugðust hægt við þegar fyrstu veirusýkingarinnar varð vart í borginni Wuhan 10. janúar en þau gripu síðan til þeim mun harkalegri gagnráðstafana sem báru tilætlaðan árangur. Þar í landi er nú að því er virðist upp runnin stund milli stríða. Dauðsföllin af völdum veirunnar í Kína hafa staðnæmzt við rösklega 3.300 og fjöldi skráðra smita er innan við 82.000 og þeim fjölgar nú hægt sé kínversku tölunum treystandi.
Öðru máli gegnir um Evrópu og Ameríku. Þar æðir veikin áfram. Á Ítalíu og Spáni greindust fyrstu smitin 29. og 30. janúar, væntanlega af völdum kínverskra farandverkamanna og ferðamanna. Skráð smit á Ítalíu og Spáni eru nú í báðum löndum orðin miklu fleiri en í Kína og dauðsföllin þrisvar til fjórum sinnum fleiri en í Kína. Munurinn á eftir að aukast enn áður en kúfnum er náð hvenær sem það verður í þessum mánuði eða næsta. Yfirvöld á Ítalíu og Spáni virðast þó líkt og í Kína hafa brugðizt rétt við fárinu skv. leiðbeiningum AHS en þó ekki nógu skart. Ítalskir stjórnmálamenn létu sumir taka myndir af sér og handaböndum sínum til að undirstrika þá skoðun þeirra að öllu væri óhætt þvert gegn opinberum viðvörunum lækna. Einn þeirra reyndist smitaður. Ferðahindranir, útgöngubönn og slíkar ráðstafanir komust of seint til framkvæmda, en þær virðast nú byrjaðar að skila árangri í hægari fjölgun smita og dauðsfalla. Kúfurinn er ekki enn kominn í augsýn, en vonir standa nú til að hann sé ekki langt undan.
Vandi Bandaríkjanna
Bandaríkin eru kafli út af fyrir sig. Fyrsta smitið greindist þar 20. janúar, tíu dögum fyrr en á Ítalíu og Spáni. Trump forseti stóð vikum saman ljúgandi framan í fólkið í landinu eins og hans er háttur með þeim árangri að viðnám gegn faraldrinum í samræmi við leiðbeiningar AHS og sóttvarnalækna hófst ekki fyrr en mörgum vikum of seint. Þessi töf var dýru verði keypt. Fjöldi skráðra smita og dauðsfalla í landinu af völdum veirunnar hefur að undanförnu tvöfaldazt á þriggja daga fresti. Þessi hraða fjölgun hefur fært taugamiðju faraldursins til Bandaríkjanna frá Evrópu þar sem nú virðist sjá til lands. Anthony Fauci, yfirmaður sóttvarna í Bandaríkjunum, telur mannfallið í landinu nú stefna í 100.000 til 240.000 manns. Þessar tölur gætu átt eftir að hækka eins og allt er í pottinn búið. Ef fjöldi dauðsfalla heldur áfram að tvöfaldast á þriggja daga fresti verða þau orðin 240.000 laust eftir miðjan apríl. Af þessu má ráða nauðsyn þess að fækka smitum og hægja þannig á veikinni með tiltækum ráðum.
Vegna ónógs undirbúnings skortir bandarísk sjúkrahús grímur, hanzka, hlífðarföt, pinna, próf og öndunarvélar – tugþúsundir slíkra véla! – til að sinna ört fjölgandi innlögnum sjúklinga og til að gæta öryggis eigin starfsfólks. Kínverjar leggja nótt við dag til að framleiða nýjar öndunarvélar handa Bandaríkjamönnum, Bretum, Ítölum og öðrum. Á sama tíma skilja sumir fylkisstjórar vestra ögrandi ummæli forsetans svo að hann hyggist láta eigin hagsmuni og flokkshagsmuni ráða tilskipunum sínum um dreifingu nauðsynlegra hjálpargagna til fylkja í sárri neyð. Meint siðblinda forsetans sem var löngum feimnismál í fréttatímum sjónvarpsstöðva er nú á hvers manns vörum. Stuðningur kjósenda við forsetann mælist nú 47% og hefur aldrei verið meiri frá því hann tók við embætti í janúar 2017. Það er gömul saga og ný að stuðningur almennings við stjórnvöld eykst í hamförum. Ungverska þingið hefur nú afhent Victor Orbán, forsætisráðherra landsins, alræðisvald í nafni veirunnar.
Vandi Bandaríkjanna er ekki bundinn við forsetann. Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að tæplega 70% demókrata eru smeyk við covid-19-veiruna borið saman við 40% repúblikana. Repúblikanaflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn í okkar heimshluta sem hafnar hlýnun loftslags ekki bara sem kenningu heldur einnig sem staðreynd. Enginn þeirra 16 frambjóðenda Repúblikanaflokksins sem sóttust eftir útnefningu til forsetaframboðs 2016 fékkst til að lýsa stuðningi við þróunarkenninguna. Þegar heill stjórnmálaflokkur studdur af næstum helmingi kjósenda segir vísindum og þekkingu stríð á hendur, þá getur varla verið góðs að vænta. Þetta ástand stefnir nú í að kosta Bandaríkjamenn jafnvel mörg hundruð þúsund mannslíf. Kannski gat þetta ekki endað öðruvísi. Þegar stórveldi velur sér siðblindan bjána til forustu er voðinn vís.
Hamfarir sem skálkaskjól
Höldum áfram með Trump forseta. Fyrst þrætti hann fyrir faraldurinn og sagði að fyrstu smitskráningunum vestra myndi fækka úr 15 niður í núll. Nokkru síðar bætti hann því við að faraldurinn myndi falla niður eins og fyrir kraftaverk. Fyrir nokkrum dögum sagðist hann hafa í hyggju að troðfylla bandarískar kirkjur um páskana þótt vitað væri að faraldurinn verður þá enn í örum vexti þar vestra. Læknum tókst að telja forsetann ofan af þeirri fyrirætlan. Hugsun hans var sú að hjól atvinnulífsins yrðu að ganga fyrir heilbrigði fólksins. Hann virtist hugsa eins og gamall gangster, sem hann er: Peningana eða lífið?
En þessi hugsun er hæpin ef ekki beinlínis röng. Peningarnir og lífið eru falskar andstæður. Reynslan af spænsku veikinni virðist sýna að þau fylki og þær borgir Bandaríkjanna sem hindruðu mannaferðir til að hægja á smiti og fækka dauðsföllum náðu sér fyrr og betur á strik í efnahagslegu tilliti að fárinu loknu en þau fylki og þær borgir sem héldu frekar að sér höndum til að hægja á samdrætti efnahagslífsins. Líklegt virðist að þessi ályktun eigi einnig við um faraldurinn núna en um það er þó ekki hægt að fullyrða í því ótrygga ástandi sem nú ríkir.
Hitt ber flestum nú saman um að brýna nauðsyn ber til að bregðast ákveðið við efnahagsafleiðingum faraldursins sem dregur svo skyndilega úr umsvifum fyrirtækja og atvinnu mikils fjölda fólks. Slíkar aðgerðir – aukin útgjöld, léttari álögur og peningaprentun af hálfu almannavaldsins og frestun gjalddaga af hálfu einkaframtaks og fjármálastofnana til að hamla samdrætti – munu kosta mikið fé. En svo verður að vera, enda hefur aldrei verið ódýrara að taka lán en einmitt nú þegar vextir eru víða nálægt núlli. Nú ríður á að gera það sem gera þarf og það án tafar.
Vandinn er að því leytinu til auðveldari viðfangs nú en hann var eftir fjármálahrunið 2008 að þá þurfti eða hefði þurft að setja þeim sem keyrðu efnahagsslífið í kaf í glæpsamlegum tilgangi stólinn fyrir dyrnar. Nú er engin hliðstæð þörf á slíku þar eð sökudólgurinn er skynlaus veira. Á hitt er þó að líta að hamfarir eins og þessar geta sumir reynt að nýta sér sem skálkaskjól þar eð heilbrigðiskreppan heimtar alla athygli manna sem stendur og dreifir sjónum þeirra frá öðrum brýnum verkefnum. Fyrri syndir Trumps forseta og annarra liggja í láginni meðan fárið gengur yfir.
Um þennan viðkvæma vanda hafa margir fræðimenn og listamenn fjallað í lærðum greinum, bókum og bíómyndum. Þar á meðal er þýzka myndin Hvíti borðinn frá 2009. Þar segir frá litlu þýzku þorpi þar sem allir þekkja alla og hryllilegir atburðir eiga sér stað. Allir þykjast sjá það í hendi þér að einhver þorpsbúinn hefur framið voðaverkin, en enginn tekur af skarið. Þögnin grúfir sig yfir þorpið. Árið er 1914. Stríðið mikla skellur á þá um sumarið og fólkið fær um annað að hugsa. Átti stríðið að strika yfir fortíðina?
Athugasemdir