Stundin sendir í dag út fyrirlestur á vegum Endurmenntunar HÍ þar sem Kristín Tómasdóttir, verðandi fjölskyldumeðferðarfræðingur, fjallar um „spaugilegar og jákvæðar hliðar þeirra áskorana sem fjölskyldur standa frammi fyrir á þessum undarlegu tímum,“ eins og segir í tilkynningu frá Endurmenntun HÍ.
Streymið hefst klukkan 12:40 og verður aðgengilegt á forsíðu Stundarinnar, á Facebook-síðu Stundarinnar og í þessari frétt. Þá verður upptaka tiltæk á sömu stöðum í kjölfarið.
Eftirfarandi er tilkynning frá Endurmenntun HÍ um fyrirlesturinn:
Kristín Tómasdóttir, verðandi fjölskyldumeðferðarfræðingur, fer yfir spaugilegar og jákvæðar hliðar þeirra áskorana sem fjölskyldur standa frammi fyrir á þessum undarlegu tímum. Í fyrirlestrinum fjallar hún um fyrirbyggjandi nálgun gegn því sem hún kallar #röðin en um þessar mundir standa hjón í Kína í röðum eftir skilnaðarpappírunum eftir óvenju mikla samveru undanfarna mánuði. Kristín byggir fyrirlesturinn einnig á eigin reynslu af sóttkví með eiginmanni og þremur börnum eftir skíðaferð til Austurríkis fyrr í mánuðinum.
Kristín útskrifast með MA gráðu í fjölskyldumeðferð í vor og starfar hjá Sálfræðingunum Höfðabakka við parameðferð. Húmor í meðferð er Kristínu hugleikin og hefur hún í því samhengi þróað uppistand sem nýstárlega og fyrirbyggjandi meðferð við paravanda.
Athugasemdir