Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Jóninna Margrét lést af völdum COVID-19: „Hún var minn allra besti vinur“

Son­ur Jóninnu Mar­grét­ar Pét­urs­dótt­ur seg­ir sárt að vita til þess að móð­ir sín hafi ver­ið ein þeg­ar hún kvaddi.

Jóninna Margrét lést af völdum COVID-19: „Hún var minn allra besti vinur“
Besti vinur Þröstur, sonur Jóninnu heitinnar, segir hana hafa verið afskaplega góða konu og sinn allra besta vin.

Sonur Jóninnu Margrétar Pétursdóttur, konunnar sem lést í síðustu viku af völdum COVID-19 kórónaveirunnar á Landspítalanum, segir mjög erfitt til þess að vita að hún hafi verið ein þegar hún kvaddi þennan heim. Það sé ein birtingarmynd þess hvernig veiran herji á samfélagið, að fólk sé eitt og einangrað að takast á við erfiðleika. „Mig grunar að fæstir geri sér grein fyrir því,“ segir Þröstur Reynisson. Hann segir móður sína hafa verið afskaplega vandaða og góða konu og sinn besta vin. Eiginmaður Jóninnu og faðir Þrastar liggur mikið veikur af vírusnum á gjörgæslu en tekist hefur að halda honum stöðugum síðustu daga sem vekur vonir.

Jóninna var 71 árs gömul, búsett í Hveragerði, en COVID-19 veiran hefur hitt bæjarfélagið afar illa fyrir eins og hefur verið fjallað um í Stundinni. Jóninna var astmasjúklingur en að sögn Þrastar hafði sjúkdómurinn ekki áhrif á daglegt líf hennar, hún tók sín lyf og lifði eðlilegu og virku lífi. Jóninna lést á Landspítalanum 23. mars síðastliðinn, fyrst Íslendinga, eftir að hafa verið flutt þangað mikið veik viku áður, 16. mars síðastliðinn. Fram að því hafði hún engin einkenni sýnt. 

„En hún var ein þegar andlátið bar að garði. Það er mjög erfitt að vita til þess“

Sökum eðlis COVID-19 veirunnar og hversu bráðsmitandi hún er gátu fáir hitt Jóninnu á meðan hún lá inni á Landspítalanum. Þröstur gat þó hitt móður sína stuttlega en hann hefur verið í einangrun síðan að veikindin komu upp. „Annars hitti ég hana ekkert meir en náði að tala við hana í síma á laugardeginum. Aðeins pabbi og elsti bróðir minn fóru og hittu hana og svo ein frænka mín. Mér skilst að hún hafi þó getað heyrt í ansi mörgum í gegnum síma. En hún var ein þegar andlátið bar að garði. Það er mjög erfitt að vita til þess, þetta er nú ein birtingarmynd þess hvaða áhrif þessi veira hefur.“

Liggur mikið veikur á gjörgæslu

Eiginmaður Jóninnu heitinnar er 75 ára gamall og hefur að sögn Þrastar sonar hans ekki glímt við nein veikindi fram til þess að hann smitaðist af COVID-19 veirunni. Hann hafi hríðversnað mjög hratt og liggi mikið veikur á Landspítalanum. Þröstur segir þó að tekist hafi að halda líðan hans stöðugri síðustu daga sem veki vonir um að hann muni ná að komast yfir þann hjalla. 

Þröstur telur að móðir sín hafi vitað að hverju dró í veikindum sínum. „Já, mér skilst að hún hafi gert sér grein fyrir því, og við vorum held ég öll búin að undirbúa okkur fyrir þetta.“

„Almenningur er hins vegar allt of værukær og þarf alvarlega að skoða sín mál“

Starfsfólk Landspítala stendur sig eins og hetjur í þessum aðstæðum sem nú eru uppi, að mati Þrastar, og nú komi vel í ljós hvers konar fagfólk við Íslendingar eigum. „Almenningur er hins vegar allt of værukær og þarf alvarlega að skoða sín mál þegar kemur að samskiptum og forvörnum.“ Spurður hvort hann hafi þá áhyggjur af því að enn fleiri eigi eftir að verða alvarlega fyrir barðinu á veirufaraldrinum svarar Þröstur: „Mikið fleiri.“ Hann brýnir fyrir fólki að veirusýkingin sé dauðans alvara og allir, með engum undantekningum, verði að hlýða fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, fyrir sig sjálfa og fyrir meðborgarana. 

Beðinn um að lýsa móður sinni heitinni svarar Þröstur: „Hún var afskaplega vönduð og góð kona og minn allra besti vinur.“

Mun allt sitt líf reyna að heiðra ömmu sína

Barnabarn Jóninnu setti inn fallega kveðju um ömmu sína á Facebook-síðu hennar fyrir fjórum dögum síðan sem lesa má hér í heild sinni: „Jesús hvað það er erfitt að missa. Amma var mér sem önnur móðir enda tók hún þátt í uppeldi á mér. Alltaf hægt að treysta á þig og alltaf stóðstu með mér. Við áttum svo margt eftir saman elsku amma en þú áttir að verða partur af öllu því stóra sem ég á eftir. Þú áttir að ganga með mér niður kirkjugólfið, þú áttir að verða skírnarvottur, þú áttir eftir að sjá fyrstu eignina sem við kaupum okkur. Allar útilegurnar, matarboðin, jólaundirbúningurinn og allt sem við vorum vanar að gera saman. Að vita það að ég heyri aldrei 'nei hæ ástin mín' aftur stingur mig. Þú varst svo falleg, svo góð og svo ofboðslega traust. Ég mun allt mitt líf reyna að heiðra þig og þú átt alltaf stað í mínu hjarta. Elsku amma ég vona að amma Sigga hafi tekið vel á móti þér og ég sé þig þegar kemur að mér. Lovjú.“

Yfir 1.000 manns hafa nú sýkst af COVID-19 kórónaveirunna á Íslandi og 25 manns liggja veikir á sjúkrahúsi af völdum veirunnar. Þar af eru tíu á gjörgæslu. Hins vegar hefur 135 manns sem fengu veirusýkinguna nú batnað af henni. Ríflega 9.500 manns eru í sóttkví og tæplega 900 manns í einangrun. Tæplega 5.000 manns hafa lokið sóttkví.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár