Dauðsföll á Spáni tvöfölduðust frá því á föstudaginn og þar til í gær, mánudag, og hafa heilbrigðisyfirvöld í landinu miklar áhyggjur af því hvað Covid-smitin eru orðin útbreidd um allt landið. Frá þessu er greint í spænska dagblaðinu El País í dag.
Á föstudaginn í síðustu viku var tala látinna vegna Covid-19 kominn upp í 1.000 en í gær var talan komin upp í 2.182 og hafa 462 látist í landinu á einum sólarhring.
Í spænska blaðinu er bent á að þetta þýði að á Spáni hafi dauðsföllin tvöfaldast á styttri tíma en á Ítalíu eftir að mannfall vegna Covid hafði náð 1.000 einstaklingum. Á Ítalíu jukust dauðsföll vegna Covid um 1.000 á fjórum dögum en á Spáni þremur. Svipaða sögu má segja um Kína þar sem tvöföldun látinna var enn hraðari á Spáni en þar.
Þetta þýðir að fjölgun látinna vegna Covid, frá 1000 og upp í 2000 einstaklinga, hefur ekki átt sér stað eins hratt í neinu öðru landi í heiminum hingað til en á Spáni.
„Ég trúi ekki að ég sé að upplifa þetta“
Ella Ólafsdóttir, íslensk kona sem búsett er í Madríd ásamt spænskum manni sínum og þremur börnum, segir að ástandið í borginni sé ótrúlegt. „Við förum ekki út í búð, við förum ekkert út, heldur pöntum við bara mat. Næstu tvær vikurnar verða verstar segja sérfræðingarnir, smithættan verður mest núna á næstunni þar sem svo mikið af fólki sem hefur verið með Covid er að koma heim frá spítölunum. Smithættan liggur í loftinu,“ segir Ella. „Göturnar eru bara tómar, þetta er bara ótrúlegt miðað við hvernig Madríd er alltaf. Ég trúi ekki að ég sé að upplifa þetta, ég trúi því ekki. Ég vakna alla morgna og mér líður eins og ég sé stödd í bíómynd,“ segir Ella sem búið hefur í borginni síðastliðin 16 ár.
Dauðsföll meira dreifð á Spáni
Bent er á það í greininni í El País að 80 prósent dauðsfalla vegna Covid á Ítalíu hafi nú átt sér stað í þremur héruðum: Lombardy, Emilio Romagna og Veneto. Þann 13. mars hafði 92,3 dauðsfallanna átt sér stað í þessum þremur héruðum og í dag er þessi tala 80 prósent.
Líkt og í Ítalíu þá áttu 90 prósent af fyrstu 100 dauðsföllunum á Spáni sér stað á þremur svæðum: í Madríd, Baskalandi - La Rioja og í Aragón. Þann 13. mars höfðu 88,1 prósent dauðsfallanna verið á þessum þremur svæðum og 11,9 prósent annars staðar. Síðan þá hafa dauðsföll í Katalóníu, Castilla Y León og Castilla La Mancha, sem í Valencia, aukist til muna. Í gær var hlutföll dauðsfalla í Madríd, Baskalandi - La Rioja og í Aragón 65,9 prósent af heildartölunni og 34,1 prósent á öðrum svæðum.
Í spænska blaðinu er viðtal við prófessor í læknisfræði, Daniel López Acuña, þar sem hann segir um þennan mun á Spáni og Ítalíu og útbreiðslu Covid. „Það sést að dauðsföll hafa aukist verulega í nokkrum héruðum, án þess þó að talan hafi náð sömu hæðum og í héruðunum þar sem dauðsföllin voru flest síðastliðna viku. Þetta er fyrirbæri sem hefur ekki átt sér stað á Ítalíu,“ segir Acuña.
„Maður lokar bara glugganum og reynir að setja góða tónlist á og hugsa um eitthvað annað“
Hann bendir á það að líklega sé munurinn á Ítalíu og Spáni sé sá að á Ítalíu voru ferðir fólks innan og frá héruðunum þremur þar sem smit komu upp fyrst og voru flest- Lombardy, Emilio Romagna og Veneto - takmarkaðar mjög í byrjun á meðan það gekk ekki eins vel að takmarka ferðir fólks innan og frá svæðunum þar sem smit komu up fyrst á Spáni, meðal annars í Madríd. Fyrir vikið hafi smit borist hraðar og meira út til annarra svæða á Spáni en gerðist frá héruðunum á Norður-Ítalíu og innan þess lands.
Reynir að fjarlægja sig andlega frá ástandinu
Ella segir að hún og fjöskylda hennar hafi ekki farið út í viku og að þau muni ekki gera það næstu vikurnar. Útgöngubann er í gildi í Madríd og verður í gildi þar til um miðjan apríl hið minnsta.
Hún segir að þau taki einn dag í einu og reyni að gera skemmtilega hluti sem hjálpi þeim að hugsa um eitthvað annað en ástandið fyrir utan gluggann hjá þeim. „Við tökum bara dag fyrir dag og vonum það besta. Maður lokar bara glugganum og reynir að setja góða tónlist á og hugsa um eitthvað annað. Þetta er svo skelfilegt. Svo fær maður hringingar frá vinkonum sínum sem eru að missa ættingja sína. Ein spænsk vinkona min var að missa pabba sinn og hún hafði ekki séð hann í fjóra daga áður en hann lést,“ segir Ella. „Og hafðu það í huga að þetta er ekki byrjað í raun, þetta á eftir að versna, því miður.“
Ella segir að hún vonist til þess að ástandið á Spáni verði orðið skárra um miðjan apríl og staðan verði þannig þá að hægt verði að fella útgöngubannið úr gildi og lífið fari aftur að komast í sinn vanagang.
Athugasemdir