FI532 Munchen: Aflýst. FI520 Frankfurt: Aflýst. FI 342 Helsinki: Aflýst. FI542 París: Aflýst.
Svona heldur listinn á vefsíðu Keflavíkurflugvallar áfram yfir brottfarir í dag áfram. 37 brottfarir voru á áætlun í dag, en 75% þeirra, öllum nema níu, hefur verið aflýst.
Fjórar flugferðir Icelandair
Á vegum Icelandair voru 23 brottfarir fyrirhugaðar, öllum hefur verið aflýst nema fjórum. Þrjár voru til Evrópulanda í morgun og ein til Boston síðdegis.
SAS flýgur til Ósló í hádeginu, sömuleiðis mun British Airways fljúga til London og þangað mun Wizz Air fljúga í kvöld. Þá eru tvær ferðir Easy Jet til Bretlands á áætlun.
Icelandair tilkynnti í morgun um að segja þyrfti upp 240 starfsmönnum og að 92% starfsmanna þar myndu taka á sig skert starfshlutfall. Hluti starfsmanna njóta úrræða ríkisstjórnarinnar um mótframlag vegna skerðingar á starfsfhlutfalli. Bogi Nils Bogason, formaður félagsins, sagði í tilkynningu sem hann sendi starfsmönnum að þessar aðgerðir væru nauðsynlegar til að tryggja framtíðarrekstur félagsins.
Í dag voru áætlaðar komur 36 flugvéla. Öllum nema átta hefur verið aflýst. 23 vélar Icelandair áttu að koma í dag, öllum hefur verið aflýst nema þremur.
Stundin ræddi við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, rétt í þessu. Þar kom fram að flugframboð í sumar yrði minna en ráðgert var vegna kórónaveirunnar. „Við tilkynntum um það núna fyrir skemmstu að við værum að gera ráð fyrir því að flugframboð okkar í sumar yrði að minnsta kosti 25 prósent minna en við vorum áður búnir að gera ráð fyrir. Við erum samt að búa okkur undir að það geti orðið enn minna. Við erum í raun að búa okkur undir það versta en erum að reyna að tryggja ákveðinn sveigjanleika svo við getum farið af stað þegar eftirspurn fer aftur af stað og bókunargluggar opnast.“
Athugasemdir