Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna, telur að aðgerðapakki ríkisstjórnar Íslands sé betur úthugsaður en aðgerðir sem boðaðar hafa verið á hinum Norðurlöndunum og víðar. Þetta skrifar hann á Twitter.
Þá segir Kári „mjög snúið […] að finna aðgerðir sumra ríkisstjórna sem hafa lofað gríðarmiklum fjárhæðum sem maður fær ekki til að ganga saman við stöðu ríkisfjármála þar í landi“ og bætir við: „Ég er að horfa á þig Spánn.“ Spánn er það land á eftir Ítalíu sem hefur glímt við flest kórónasmit. Þar í landi voru kynntar björgunaraðgerðir í síðustu viku að umfangi um 200 milljarða evra auk stóraukinna útgjalda til félagsþjónustu og heilbrigðismála.
Kári bregst einnig við gagnrýni Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, á áherslur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna kórónaveirunnar. Gunnar hefur haldið því fram á samfélagsmiðlum að ríkisstjórnin hygli fyrirtækjum á kostnað almennings. Kári segir þetta bull. „Við erum að eiga við vírus sem skeytir ekki um þjóðfélagsstöðu eða þjóðerni (ESB og BNA mega átta sig á því). Þetta er ekki stéttastríð en GSE er of sjálfhverfur til að átta sig á því,“ skrifar hann og bætir við: „Að berjast við veirur með marxískri orðræðu er eitthvað beint frá Lysenko“.
Athugasemdir