Ég hefði fyrr átt von á dauða mínum en að ég myndi fyllast þörf til að vitna í æðruleysisbænina í greinarkorni sem þessu, en ég geri það nú samt:
Þessi mantra hefur nýst fólki í ýmsum aðstæðum, til dæmis þeim sem hafa viljað koma sér úr klóm fíknar. Valdafíkn er samfélagsmein sem er erfitt að vinna á. Ég held að vandinn sé kerfislægur fremur en að einstaklingar vakni á morgnana ákveðnir í að sölsa undir sig eins miklum völdum og mögulegt er þann daginn. Það er einkennileg áhersla lögð á vald í samfélaginu. Okkur er kennt að þau séu eftirsóknarverð, þó virðast flestir sammála um það að völd spilli.
Einmitt þess vegna höfum við þróað upp ýmis kerfi sem dreifa völdum til að reyna að takmarka spillingaráhrif þeirra og að farið sé illa með völdin. Þrígreining ríkisvaldsins er ein af þessum reglum, en hún er því miður alls ekki algild á Íslandi.
Nú eru meira en sjö ár frá því að kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu sögðu að leggja skyldi nýju stjórnarskrána til grundvallar sem stjórnarskrá fyrir Ísland. Í nýju stjórnarskránni er völdum opinberra aðila einmitt settar skorður og þau takmörkuð svo þau safnist ekki á fárra hendur. Eitt dæmi um þetta er að ráðherrar munu ekki sitja lengur á þingi og fara þannig samtímis með löggjafar- og framkvæmdarvald, líkt og nú er. Leyndarhyggju yfirvalda er einnig sagt stríð á hendur í nýju stjórnarskránni þar sem gerð er krafa um að stjórnsýslan sé gegnsæ og að upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skuli vera tiltæk án undandráttar.
Nú er að störfum þingnefnd sem forsætisráðherra stýrir og samanstendur af formönnum allra flokka á Alþingi. Nefndin er að skrifa sínar eigin tillögur að nokkrum tilgreindum stjórnarskrárgreinum. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um að leggja nýju stjórnarskrána til grundvallar er ekki virt með störfum þessarar nefndar.
Það er eins og það hvíli fávísismara yfir íslenskum þingheimi þegar það kemur að þeirri grundvallarstaðreynd að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Þrátt fyrir afgerandi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu virðist þinginu okkar ekki auðnast að fara eftir þeim skýra vilja kjósenda sem þar kom fram, og hefur ítrekað verið staðfestur í skoðanakönnunum síðan. Ástæðan virðist vera sú að alþingismenn trúi að þar sem þeim sé falið formlegt vald til að breyta stjórnarskránni þá beri þeim ekki siðferðileg skylda að virða vilja kjósenda til málsins.
Ég tel að þessari formannanefnd muni reiða nákvæmlega eins af og þeim ótalmörgu öðrum nefndum Alþingis sem gert hafa tilraun til að setja þessari þjóð nýja stjórnarskrá: Ekkert gerist. Þegar kosningar nálgast kemst ólga í flokkana og þeir geta ekki sammælst um neitt annað en að flýta sér í kosningabaráttu hverjir gegn öðrum. Þetta stærsta réttlætismál þjóðarinnar mun sitja á hakanum sem fyrr. Af hverju? Jú, af því Alþingi er vanhæft til að fjalla um valdatakmörkun síns sjálfs. Stjórnmálaflokkar geta einfaldlega illa hróflað við því kerfi sem þeir hagnast sjálfir á að standi óbreytt. Auðlindir í þjóðareign, alvöru náttúruvernd, jafnt vægi atkvæða, gegnsæ stjórnsýsla, heimild til að vísa umdeildum lagafrumvörpum í þjóðaratkvæðagreiðslu, möguleiki á persónukjöri ... allt eru þetta dæmi um nauðsynlegar lýðræðislegar umbætur sem myndu minnka flokksræði en auka hag almennings í þessu landi.
Því vona ég að æðruleysisbænin smjúgi inn í huga hvers einasta þingmanns á Alþingi Íslendinga. Að þeir vakni einn daginn með sannleikann í hjartanu um að í fullveldi íslensku þjóðarinnar felist rétturinn til að setja sér sína eigin stjórnarskrá. Í framhaldinu munu þingmennirnir okkar vonandi átta sig á því, fyrst þeir ætla ekki að ganga skrefið til fulls og leggja nýju stjórnarskrána fram til atkvæðagreiðslu á Alþingi, að eina réttlætanlega breytingin sem þeir geta gert á þessu kjörtímabili sé að breyta sjálfu breytingaákvæði gildandi stjórnarskrár með þeim hætti að það þurfi annars vegar meirihluta þings og hins vegar meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar.
Með þessari breytingu myndi þingheimur leggja gríðarlega mikilvægt lóð á vogarskálar lýðræðisins því þá myndi íslenska þjóðin loksins komast upp úr spólförunum sem þetta mál er búið að vera í frá lýðveldisstofnun. Árið 1944 voru allir flokkar á Alþingi sammála um að stjórnarskráin sem við burðumst að grunninum til enn með skyldi vera bráðabirgðaplagg en hafist yrði strax handa við að skrifa Íslandi eigin stjórnarskrá. Sú vinna varð aldrei að veruleika, og enn burðumst við með stjórnarskrá sem var skrifuð fyrir aðra þjóð á annarri öld. Bráðum eru komin 76 ár frá formlegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, en í raun er sjálfstæðisbaráttunni ekki lokið fyrr en nýja stjórnarskráin hefur verið lögfest. Þó óumdeilt sé að allt vald stafi frá þjóðinni, þá hamlar Alþingi einfaldlega raunverulegu fullveldi íslensku þjóðarinnar með því að hunsa vilja fólksins um ný grunnlög.
Því segi ég: Hvort sem það er guð eða annar kraftur sem þingmenn trúa á ættu þeir að biðja um æðruleysi til að sætta sig við það að Alþingi fær þessu máli ekki breytt. Þess í stað verða þingmenn að finna kjark til þess að breyta því sem þeir geta breytt.
Stóra spurningin er síðan hvort þeir hafi vitið til að greina þarna á milli.
Athugasemdir