Það er vinsælt á vinnustöðum að setja miða fyrir ofan eldhúsvaskinn eða kaffivélina til að minna fólk á að mamma þess vinni ekki hér og það sé ætlast til að það gangi frá eftir sig.
En hvar er mamma?
Jú, mamma er í vinnu eins og allir aðrir í jafnréttisparadísinni Íslandi. Við erum öll lítil tannhjól, rær eða skrúfur í vélinni sem knýr áfram besta land í heimi, þar á meðal er ódýrt vinnuafl sem starfar í litlum verksmiðjum fyrir börn og litlum verksmiðjum fyrir gamla og sjúka.
Vinnukonur á leigumarkaði
Þessu var öllu svo vel fyrirkomið í nafni jafnréttis, afi gamli fær að borða á réttum tíma og amma fær lyfin sín, gólfin þeirra eru skúruð og klósettið þrifið og börnin fá að púsla og heyra uppbyggilegar sögur meðan mamma og pabbi eru í vinnunni.
Þangað til mamma fór að vera með múður.
Hún er mætt í flíspeysunni sinni til að vera með leiðindi.
Þegar þetta er skrifað er hún að æsa til mótmæla fyrir utan jafnréttisþing í jafnréttisparadísinni. Mamma vill ekki lengur vera þræll í jafnréttisparadís þar sem ungar konur í drögtum með sannfærandi runur af háskólagráðum segja okkur hvað við höfum það gott. Hún er mætt í flíspeysunni sinni til að vera með leiðindi. Hana grunar að það verði ekki talað um konurnar sem passa börnin og gamla fólkið, konurnar sem sjá um að allir taki meðulin sín og konurnar sem skúra gólfin.
Hún er orðin popúlisti.
Núna eru jafnaðarmenn og femínistar í meirihluta í borginni. Þeim finnst óþægilegt að horfast í augu við þessar konur og kröfur þeirra. Mömmu sem hætti að hugsa um börnin sín og afa og ömmu og fór að hugsa um börn og afa og ömmur allra hinna. Hún fær fyrir það laun, en bara ekki nóg til að hún geti verið fjárhagslega sjálfstæð. Þjóðskipulagið, húsbændur og hjú, hefur bara breytt um ásýnd. Áður sváfu vinnukonur á heimilum betri borgara í vinnukonuherbergjum, núna velkjast þær um á leigumarkaði með laun sem duga ekki fyrir húsaleigu og mat. Ef þær hafa ekki fyrirvinnu.
Lögmálin í jafnréttisparadís
Vinnukonurnar í jafnréttisparadísinni hafa ekki haft rödd í umræðunni því aðrar konur sem eru í hálaunaðri vinnu við að vera jafnaðarmenn og femínistar hafa tekið orðið. Þær skilja svo vel að til að paradísin geti starfað mega þessar konur aldrei fá fulla umbun erfiðis síns. Þær verða að vera lægstar, fái þær einhverja leiðréttingu þurfa allir aðrir meira. Og ef þær skilja það ekki eru þær popúlistar. Og maður á aldrei að hlusta á popúlista heldur grípa fyrir eyrun og gretta sig þegar þeir opna munninn.
Fái þær einhverja leiðréttingu þurfa allir aðrir meira
Græn aflátsbréf eða upprunaábyrgðir fyrir hreinleika hafa reynst íslenskum orkufyrirtækjum drjúg tekjulind sem dregur niður ímynd landsins eins og kaupendur raforku komast að raun um þegar þeir fá árlegan reikning þar sem gerð er grein fyrir því að hið hreina Ísland beri ábyrgð á notkun kjarnorku, gass, olíu og kolabrennslu í talsverðu magni. Þetta virðist hafa kveikt þá hugmynd hjá snjöllu bissnissfólki í röðum jafnaðarmanna að það sé að sama skapi hægt að selja rauð aflátsbréf, ímynd hreinleika jafnaðarstefnunnar í stjórnarsamstarfi. Þannig sé hægt að sveipa dólgakapítalisma, karlrembu og jafnvel glæpamennsku, sauðargæru jafnaðarmennsku og femínisma, það þurfi bara að hafa umbúðirnar grænar og bleika slaufu utan um og hanga með vinsælu krökkunum og segja brandara. Fyrir þetta fáist greitt í góðum launum og valdastöðum fyrir sjálfan sig og vini sína og örfáum vinsælum málum sem fá að fljóta í gegn ef þau kosta ekki mikið.
Og þetta hefur verið skemmtilegt partí fyrir þá sem eru boðnir í það.
Frelsi fyrir fyrirtæki
Allir eru einarðir stuðningsmenn fjölbreytileika og ráðherrarnir setja upp fyndnar hárkollur fyrir ljósmyndara í gleðigöngu og brosa framan í myndavélarnar. En virðingin fyrir þeim er samt í sögulegu lágmarki. Enda er hljómurinn falskur, hvort sem þeir kalla sig jafnaðarmenn og hækka sín eigin laun og lífeyrisréttindi upp úr öllu valdi, eða femínista sem þora ekki að standa með lægstlaunuðu og smáðustu kvennastéttum landsins í baráttunni fyrir bættum kjörum. Og svo eru þeir sem tala fyrir frelsi einstaklingsins en standa svo bara vaktina fyrir örfá stórfyrirtæki og skattsvikara sem fá að mergsjúga samfélagið á kostnað allra hinna.
Og það vakna óþægilegar grunsemdir um að við séum bara hráefni í tilraunaeldhúsi Trumpista. Að uppskriftin sé að ringluðu fólki sem hefur misst tengslin við allt sem það telur sig standa fyrir. Og verður bráðum til í breytingar hvað sem þær kosta.
Til dæmis núna þegar ráðherrar fjölbreytileikans loka augunum meðan börn eru flutt úr landi á næturnar í illræmdustu flóttamannabúðir í heimi. Og transbarnið Maní frá Íran sem á að senda í flóttamannabúðir í Portúgal. Kannski er hægt að kaupa nokkur aflátsbréf hjá Samtökunum 78, skála í kampavíni og fagna fjölbreytileikanum áfram þótt Maní verði leiddur á gapastokkinn.
Frelsi frá lögum
Og svo er boðað að forstjóri Samherja sé að taka aftur við stjórnartaumunum eftir Namibíuhneykslið. Hann er búinn að rannsaka sjálfan sig, niðurstöðurnar verða þó ekki gerðar opinberar, þvert á yfirlýsingar um að það sé ekkert að fela. Tíu manns, þar á meðal ráðherrar, hafa verið fangelsaðir í Namibíu en ekkert heyrist frá lögreglurannsókninni hér og ekkert frá yfirvaldinu, nema jú, sjávarútvegsráðherra boðar frumvarp sem gefur stórfyrirtækjum í sjávarútvegi sex ára frest til að byrja að fara eftir lögum um kvótaeign tengdra aðila sem hafa verið þverbrotin árum saman.
Og í öllu þessu heyrist hvorki hósti né stuna frá vinstri mönnum í ríkisstjórn, sem eru búnir að samþykkja að lækka veiðigjöldin svo mikið að sjávarútvegurinn stendur ekki lengur undir eftirlitskerfi með sjálfum sér.
Þegar almenningur fær loksins nóg og litast um sviðið ringlaður af öllu þessu bulli. Hver verður þá fyrstur til að virkja reiðina og vonleysið og andúðina? Og hvert leiðir það okkur?
Athugasemdir