Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir stefna í að verkalýðsfélögin muni brjóta forsendur Lífskjarasamningsins sem samþykktur var í fyrra og veltir því upp hvort ríkisstjórnin hyggist hætta að við þær aðgerðir sem boðaðar voru samhliða honum.
Spurningunni velti Þorsteinn upp við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Vísaði hann til kjaradeilu Eflingar við Reykjavíkurborg og þeirra krafna sem eru uppi um hækkun launa leikskólakennara og annarra starfsmanna borgarinnar.
Þorsteinn sagði óveðursský yfir efnahagslífinu, 6 til 8 þúsund störf hafi tapast undanfarið ár og fyrirtæki standi frammi fyrir því að þurfa að segja upp fólki vegna launahækkana sem samþykktar voru í Lífskjarasamningnum í fyrra.
„Sérkennilegt“ að sjá verkfallið
„Það er þess vegna athyglisvert að fylgjast með þeirri kjaradeilu sem er á opinbera vinnumarkaðnum núna þar sem þeirri launastefnu sem mörkuð var í Lífskjarasamningnum virðist kerfisbundið hafa verið hafnað,“ sagði Þorsteinn. „Og kannski enn athyglisverðara að henni er hafnað af verkalýðsfélögum sem stóðu að Lífskjarasamningnum á sínum tíma.“
Þá undrast Þorsteinn aðgerðir Eflingar. „Það er auðvitað mjög sérkennilegt að horfa upp á þá stöðu skapast hér enn eina ferðina, að hér var gengið til kjarasamninga fyrir ári síðan, með skýrum forsendum, þar sem stefnt skyldi að auknum efnahagslegum stöðugleika, og það liggur alveg ljóst fyrir í þeirri stöðu sem efnahagslífið er í dag, að launahækkanir umfram þá kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir, myndu leiða til meira atvinnuleysis en ella. Þeim viðkvæma stöðugleika sem þó er erfitt að færa rök fyrir að ríki lengur, en það er allavega alveg ljóst að við myndum detta í hefðbundið höfrungahlaup ef forsendur lífskjarasamningsins verða brotnar í kjaraviðræðum hins opinbera. Þess vegna skýtur mjög skökku við, hvernig getur það staðist að stéttarfélög sem lögðu hér upp með kjarasamning fyrir ári síðan, með stöðugleikann að grundvelli, með skýra kröfu til stjórnvalda um umfangsmikla aðkomu, að þeim kjarasamningum, geti svo með verkfallsaðgerðum reynt að brjóta markmið samningsins á bak aftur án þess að það hafi áhrif á aðkomu stjórnvalda að þeim sama kjarasamningi? Og þess vegna spyr ég enn og aftur, er sú staða uppi að forsendur fyrir aðkomu stjórnvalda að lífskjarasamningnum gætu brostið, með þeirri kjaradeilu sem nú er uppi á opinbera vinnumarkaðnum?“
80 milljarða aðgerðir
Við samþykkt Lífskjarasamningins í fyrra tilkynnti ríkisstjórnin um 45 aðgerðir til stuðnings samningnum. Á meðal þeirra var lenging fæðingarorlofs, breytingar á tekjuskatti, aðgerðir í húsnæðismálum, hækkun barnabóta og hægari hækkun gjaldskráa ríkis og sveitarfélaga. Var áætlað að kostnaður við aðgerðirnar næmi 80 milljörðum króna.
Þorsteinn sagði að kjaradeilurnar minntu á gömul vinnubrögð og að launahækkanir umfram Lífskjarasamninginn myndu leiða til hærra atvinnuleysis en ella. Hann spurði hvort verkalýðsfélögin gætu brotið markmið samningsins á bak aftur með verkfallsaðgerðum, án þess að það hefði áhrif á þá aðkomu stjórnvalda. „Nei, stjórnvöld munu standa við þær aðgerðir sem við boðuðum,“ svaraði Katrín.
Athugasemdir