210 namibískir sjómenn, sem starfað hafa við útgerð Samherja í Namibíu, fá greidd laun í tvær vikur í kjölfar þess að íslenska útgerðarfyrirtækið er hætt veiðum í landinu í kjölfar mútumálsins sem nú er til rannsóknar þar ytra og á Íslandi. Eins og Stundin, Kveikur og Al-Jazeera sögðu frá í nóvember, á grundvelli gagna frá Wikileaks, þá greiddi Samherji mútur upp á vel á annan milljarð króna til áhrifamanna til að komast yfir hestamakrílskvóta í landinu á árunum 2012 til 2019.
Útgerð Samherja í Namibíu rak þrjá verksmiðjutogaratogara þar í landi, Heinaste, Geysi og Sögu og hefur Heinaste verið kyrrsettur vegna gruns um notkun hans í þeirri brotastarfsemi sem til rannsóknar er í Samherjamálinu í Namibíu en Geysir og Saga hafa yfirgefið landið. Geysir hefur haldið til veiða í Máritaníu en togarinn Saga er í slipp á Spáni.
Samið var um þessar launagreiðslur til sjómannanna á föstudaginn var samkvæmt namibísku miðlunum The Namibian og New Era Live en framtíð atvinnu sjómannanna hefur verið í uppnámi og óljós vegna þess að Samherji yfirgefur nú í Namibíu.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, sagði í fréttatilkynningu á fimmtudaginn að Samherji myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart öllum starfsmönnum Samherja í Namibíu. „Eins og áður hefur komið fram munu fyrirtækin sem um ræðir standa við skuldbindingar sínar gagnvart öllum starfsmönnum í samræmi við gildandi lög og reglur,“ sagði Björgólfur.
Frekari fundir á næstunni
Verkalýðssamtök sjómannanna, National Union of Namibian Workers (NUNW) og Namibia Food and Allied Union (Nafau) sömdu um tveggja vikna launagreiðslurnar við Sögu Seafood, fyrirtæki Samherja sem rekið hefur togarana þrjá. Frekari fundahöld við verkalýðsfélögin verða á næstunni til að ræða launagreiðslur til sjómannanna vegna þeirra áhrifa sem brottför Samherja frá Namibíu hefur á þá. Samherji mun því þurfa að greiða sjómönnunum frekari laun samkvæmt þessu.
Í frétt namibíska miðilsins kemur fram að verkalýðsfélögin séu ekki fyllilega sátt við samkomulagið en það sé betra en ekkert að sinni fyrir umrædda sjómenn.
„Ljóst er að Fishrot-málið hefur hræðilegar afleiðingar fyrir venjulega sjómenn og fjölskyldur þeirra.“
Samherjamálið „hræðilegt“ fyrir sjómennina
Forseti verkalýðssamtakanna NUNW, Phillip Munenguni, krafðist þess eftir fundinn á föstudaginn þar sem samið var um þessar tveggja vikna launagreiðslur að forsvarsmenn Samherja yrðu með á næstu fundi um framtíða sjómannanna en ráðgert er að hann fari fram 24 febrúar næstkomandi.
Þá sagði Munenguni að stjórnvöld í Namibia þyrftu að aðstoða við að finna „varanlega lausn“ á málinu þar sem Samherjamálið í Namibíu hefði svo slæmar afleiðingar fyrir sjómennina. „Ljóst er að Fishrot-málið hefur hræðilegar afleiðingar fyrir venjulega sjómenn og fjölskyldur þeirra,“ er haft eftir honum í frétt namibíska miðilsins.
Athugasemdir