Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, segir að konur í borgarstjórn myndu styðja kröfur Eflingar, en þær hlýði flokksaganum. Þetta skrifar hann í hóp flokksins á Facebook.
„2/3 hlutar borgarfulltrúa eru konur,“ skrifar hann. „Fyrir fram hefði maður búist við sterkari stuðningi borgarfulltrúa við kröfur láglaunafólksins í Eflingu, þar sem konur eru í meirihluta. Hingað til hefur Sanna Magdalena sósíalisti ein lýst yfir stuðningi við Eflingu. Hvar eru hinar? Batnar heimurinn ekkert þó fleiri konur komist til valda?“
Efling hefur boðað til verkfalla frá og með þriðjudegi hjá félagsmönnum sem vinna fyrir Reykjavíkurborg. Um 1.850 af 9.000 starfsmönnum borgarinnar eru félagsmenn í Eflingu. Starfsfólk Eflingar í skólum á vegum Reykjavíkurborgar er um þúsund manns og mun vinnustöðvun fyrst og fremst leiða til skerðingar á þjónustu leikskóla.
Í umræðum um færsluna segir Gunnar Smári konurnar í borgarstjórn „hringa sig saman inn í búr“ í stað þess að standa með þeim verst stæðu. „Það sem vegur á móti í þessu tilfelli, er hlýðni kvennanna við flokksagann,“ skrifar hann. „Örugglega myndu einhverjar þeirra vilja lýsa yfir stuðningi við Eflingu, en þær hlýða annarri rödd.“
Athugasemdir