Stofnun um heilkenni falskra minninga (e. False Memory Syndrome) var sett á fót fyrir 27 árum síðan í þeim tilgangi að mótmæla fyrirhuguðum lagabreytingum í Bandaríkjunum sem áttu að auðvelda brotaþolum að leita réttar síns. Ætla mætti að tími geð- og sálfræðikenninga sem markvisst grafa undan trúverðugleika þolenda væri löngu liðinn en stofnunin var lögð niður við lok nýliðins árs. Því var haldið fram að fullorðnir einstaklingar sem sögðu frá kynferðisofbeldi úr æsku þjáðust af einhvers konar heilkenni af fölskum minningum um ofbeldi sem hefði aldrei átt sér stað. Þetta heilkenni er ekki til en hefur samt verið beitt af fræðimönnum og lögmönnum í málsvörn manna sem voru ásakaðir um kynferðisofbeldi. Stofnunin var beinn tengiliður milli lögmanna og matsmanna við þá sem grunaðir voru um kynferðisbrotin. Áhersla á hættuna á fölskum minningum varð á tímabili allsráðandi í umfjöllun fjölmiðla um kynferðisofbeldi í æsku.
Kenningin um foreldrafirringarheilkennið (e. Parental Alienation Syndrome, PAS) er af þeirri gerð sem ræðst að trúverðugleika þolenda ofbeldis. Heilkennið var fyrst sett fram af geðlækninum Richard Gardner árið 1985 og lýsti það upplifun hans af forsjár- eða umgengnisdeilum og því sem hann taldi að væru falskar ásakanir um kynferðisofbeldi á hendur föður. Firringarheilkennið átti að útskýra hvernig börn höfnuðu föður vegna heilaþvottar móður á barninu sem stafaði af geðsjúkdómi hennar sem kæmi einvörðungu fram í forsjár- og umgengnismálum. Geðlæknirinn var kallaður sem sérfræðivitni í hundruða forsjármála í fjölskyldurétti Bandaríkjanna, þar sem hann ráðlagði að börn væru tekin úr forsjá mæðra og sett í umsjá feðra sem sakaðir höfðu verið um kynferðisbrot gegn þeim. Gardner hélt því fram að mikill meirihluti af deilum foreldra stafaði af foreldrafirringarheilkenni móður en fullyrðingar hans voru ekki á nokkurn hátt studdar raungögnum. Þrátt fyrir það urðu skýringar Gardners vinsælar í fjölskyldurétti enda virkuðu þær vel sem valdatæki í höndum ofbeldismanna. Kenningasmiðurinn þénaði formúu fjár fyrir að vitna um sakleysi manna sem beitt höfðu ofbeldi með því að ljúga upp á börn og mæður geðrænu heilkenni.
Röklaus og ruglingsleg greining á meintum falsásökunum
Við framsetningu kenningarinnar um foreldrafirringu var þess rækilega gætt að allt sem mætti túlka sem óvinveitt viðhorf móður og barna til föður væri haft til marks um foreldrafirringu. Þar með var útilokað að mæður og börn sem segðu frá ofbeldi yrðu tekin trúanleg. Geðsjúkdómurinn var sagður geta greinst hjá bæði móður og barni, en einnig hjá meðferðaraðilum sem voru vinveittir móður. Eitt af greiningarviðmiðum Gardners fyrir þennan tilbúna geðsjúkdóm, var „ósönn“ ásökun um sifjaspell. Samt hélt hann því líka fram að barnið tældi þann fullorðna til kynferðislegs samneytis og misnotað barn væri þannig ranglega álitið þolandinn. Þá taldi hann að börn sem höfnuðu föður sínum og ásökuðu hann um kynferðisbrot væru að hylja sektarkennd sína yfir því að laðast sjálf kynferðislega að honum. En þau væru líka að þóknast móður af ótta við að tengsl við móður yrðu rofin á sama hátt og við föður. Heilkennishöfundurinn lagði til að mögulega væri dóttir sem leitaði kynferðislega til föður, tilfinningalega vanrækt af móður sinni. Þá beitti faðir börnin kynferðisofbeldi vegna þess að móðir hefði ekki fullnægt kynferðislegum þörfum mannsins nógu vel.
„Gardner hafði það einfaldlega að markmiði að réttlæta barnagirnd á kostnað barna og verndara þeirra“
Gardner áleit enn fremur að börn þjáðust fyrst og fremst vegna harkalegra viðbragða samfélagsins við barnagirnd. Almennt taldi hann kynferðislegt samneyti fullorðins og barns eðlilegt og að í vestrænum samfélögum væru refsingar við því ýktar. Frásagnir þolenda kynferðisofbeldis í æsku og margendurteknar rannsóknir á heilsu og lífshlaupi þeirra eyða öllum vafa um hvort Gardner hafði rangt fyrir sér. Sá sem misnotar barn er að svala fýsnum sínum á því, sviptir það valdi yfir líkama sínum og sjálfsbjörg, og hefur eigin þarfir í forgangi án þess að skeyta nokkuð um hvernig barninu líður. Gardner hafði það einfaldlega að markmiði að réttlæta barnagirnd á kostnað barna og verndara þeirra og hafði lífsviðurværi sitt af því með góðum árangri. Hvort afstaða Gardners var óbreytt við ævilok hans árið 2003 er ekki vitað, en samkvæmt krufningarskýrslu framdi hann sjálfsmorð með ofskammti lyfja og með því að stinga sig sjö sinnum í bringu og háls með hnífi.
Átröskun, sjálfsskaði og sjálfsvíg barna afleiðing falskenningarinnar
Notkun á kenningu Gardners hafði í för með sér stórfelldan skaða fyrir fjölda barna. Börn sem fá geðsjúkdómsgreiningu þegar þau reyna að segja frá ofbeldi bera alvarlegar afleiðingar. Gardner tjáði sig sem álitsgjafi þegar Woody Allen var sakaður um að hafa beitt dóttur sína, Dylan Farrow, kynferðisofbeldi. Málið kom upp þegar hún var sjö ára gömul og var rannsakað af lögreglu og fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Allen beitti klassískum aðferðum til að rýra trúverðugleika móður og dóttur og höfðaði forsjármál. Haft var eftir Gardner í viðtali við Newsweek um málið að það að öskra ásökun um kynferðisofbeldi væri mjög árangursrík leið til að hefna sín á hötuðum fyrrverandi maka. Dylan skrifaði opið bréf sem birtist í New York Times árið 2014, þá fullorðin kona, þar sem hún segir frá því að hafa verið þráspurð út í ofbeldið af mörgum mismunandi læknum, og að sérfræðingar og læknar hefðu verið auðfúsir að rengja framburð hennar opinberlega og ásaka hana um lygar. Meðal afleiðinga sem Dylan þurfti að glíma við í kjölfarið voru átröskun og sjálfskaði.
Það þekkist að börn allt niður í 12 ára gömul hafa svipt sig lífi vegna þvingunar í umgengni við gerendur sína. Gardner var ráðinn sem sérfræðivitni í máli föður Nathan Grieco og bræðra hans. Dómari í málinu fór að ráðum geðlæknisins og þvingaði Nathan og bræður hans til að fara í umgengni við föður og hótaði því að ef þeir væru ekki jákvæðir og hlýðnir við föður sinn myndi móðir þeirra fara í fangelsi. Nathan, þá 16 ára, framdi sjálfsvíg með því að þrengja belti að hálsi sínum, eftir 8 ára forsjárdeilur við föður sem hafði beitt hann, bræður hans, og móður ofbeldi. Í sjálfsvígsbréfi lýsti Nathan lífi sínu sem endalausri þjáningu. Hundruð barna hafa verið myrt í Bandaríkjunum vegna rangra ákvarðana í forsjár- og umgengnismálum.
Í greinargerð með frumvarpi til núgildandi barnalaga hér á landi er sérstaklega varað við beitingu hugmynda um foreldrafirringu þegar upp kemur ágreiningur á milli foreldra um umgengni. Meðal annars er lögð áhersla á að kenningin standist „ekki þær vísindalegu kröfur sem gera verði til faglegra staðla sem útskýra mannlega háttsemi“. Þessi tilmæli hafa ekki verið tekin alvarlega í framkvæmd barnalaganna. Hugmyndinni um móðurina sem í geðfirringu eða reiði sinni ásakar föður um ofbeldi og heilaþvær barnið er víða kastað fram sem réttmætri skýringu í umræðunni um ofbeldi í fjölskyldum, með tilheyrandi gasljóstrun og skaðlegum afleiðingum fyrir þolendur ofbeldis.
Ritgerðir um falskenninguna við íslenska háskóla
Jafn röklausa og hættulega kenningu er erfitt að finna í samtímanum og mætti halda að hún hefði verið sett fram árið 1915 en ekki 1985. Hvað sem því veldur, þá er hún enn viðloðandi fræðasamfélagið á Íslandi sem gild kenning. Við stutta leit má finna nýlegar lokaritgerðir byggðar á kenningunni um foreldrafirringarheilkennið til meistaraprófs í lögfræði og lokaritgerðir í félagsráðgjöf og hjúkrunarfræði við íslenska háskóla. Nemendum er leiðbeint af kennurum við háskólana og þau hafa útskrifast úr náminu með þessi ritgerðarefni byggð á gervivísindum. Geðlæknirinn Richard Gardner virðist vera helsta heimildin sem stuðst er við í skrifum um foreldrafirringu. Verður það að teljast undarlegt í ljósi þess að kenningin byggist ekki á fræðilegum grunni heldur er aðeins hugarburður eins manns sem fannst kynferðisofbeldi gegn börnum hálfgert aukaatriði. Þess ber að geta að Gardner gaf út mest af sínu efni sjálfstætt og fékk skrif sín sjaldnast birt í vísindatímaritum. Framsetning á Gardner og kenningum hans í ritgerðunum virðist auk þess um margt ekki byggð á traustum grunni. Í einni ritgerðinni er vitnað í hann eins og hann hafi sjálfur endurmótað kenninguna árið 2006, en eins og fram hefur komið lést hann árið 2003.
„Í ritgerðinni er gengið út frá foreldrafirringu sem staðreynd og reynt að finna henni tilvist í íslensku lagaumhverfi“
Nemandi sem skrifaði meistaraprófsritgerð í lögfræði árið 2009 um foreldrafirringu sem eina tegund tálmunar á umgengni, starfar í dag sem löglærður fulltrúi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og fer með úrskurðarvald. Í ritgerðinni kemst sýslumannsfulltrúinn að þeirri niðurstöðu að foreldrafirring sé alvarlegt vandamál á Íslandi og sé ástæða ólögmætra umgengnistálmana, andlegs ofbeldis og tengslarofs foreldra og barna og vísar í Gardner máli sínu til stuðnings: „hegðun og atferli sem leiða til foreldrafirringar hjá börnum einkennast af innrætingu og heilaþvotti barnsins og firringu og neikvæðni í garð hins foreldrisins“. Fulltrúinn greinir frá viðmiðum sem hún telur lögfræðinga í umgengnis- og forsjármálum geta haft til hliðsjónar við mat á því hvort barn sé haldið foreldrafirringu. Í ritgerðinni er gengið út frá foreldrafirringu sem staðreynd og reynt að finna henni tilvist í íslensku lagaumhverfi. Þar með er í raun lagt til að lögfræðingar gerist sérfræðingar í fölskum geðgreiningum og seilist þannig með óréttmætum hætti inn á lögverndað starfssvið geðlækna og sálfræðinga. Að þessu sögðu ætti það ekki að koma á óvart að þeir úrskurðir sem Líf án ofbeldis hefur undir höndum frá umræddum sýslumannsfulltrúa eru beinlínis byggðir á greiningu lögfræðingsins á foreldrafirringarheilkenni og snúið út úr gögnum sem lýsa ofbeldi eða þeim vísað frá.
Falskar geðgreiningar stjórnsýslunnar á íslenskum mæðrum og börnum
Stundin hefur fjallað um hvernig börn eru þvinguð í umgengni við ofbeldismenn. Sýslumaður horfir kerfisbundið framhjá gögnum um kynferðisbrot og heimilisofbeldi þegar teknar eru ákvarðanir um umgengni og dagsektir og mæður eru látnar gjalda fyrir að greina frá ofbeldi ef það leiðir ekki til ákæru.
Í máli frá árinu 2017 þar sem móðir greindi frá áhyggjum sínum af ofbeldi föður og öryggi barnsins í samskiptum við hann og vísaði því til stuðnings í lögreglugögn og vitnisburði sem varpa ljósi á ofbeldissögu föður og vanlíðan barnsins, úrskurðaði fulltrúinn að móðirin hafi beinlínis valdið barninu skaða með því að greina frá áhyggjum sínum í málinu og að með þeirri háttsemi sé það hún sem hafi valdið barninu vanlíðan. Engin gögn eða upplýsingar lágu fyrir þessu til stuðnings og lýsir niðurstaðan öðru fremur persónulegri skoðun fulltrúans á hegðun móður. Skóla og nákomnum sem greindu frá áhyggjum sínum af barninu í samskiptum við föður var lýst sem „vinveittum móður“ þrátt fyrir að aðstandendur tengdust barninu í gegnum föðurfjölskyldu. Áhyggjurnar og þá lögregluskýrslur um heimilisofbeldi eru kallaðar „tilhæfulausar ásakanir“ gegn föður. Þessu öllu er svo fundinn staður í barnalögum með því að vísa til þess að móðir hafi í veigamiklum atriðum brotið gegn skyldu sinni gagnvart rétti föður til umgengni samkvæmt 46. gr. barnalaga með því að setja fram alvarlegar ásakanir um ofbeldi og koma í veg fyrir að umgengni færi fram. Heimilisofbeldismálið var til rannsóknar hjá lögreglu árið 2018 en ekki kom til ákæru meðal annars vegna þess að meint sök í málinu var metin fyrnd.
Í öðrum úrskurði frá árinu 2017 lágu fyrir vottorð frá geðlækni, bréf frá sálfræðingi, skólahjúkrunarfræðingi, kærur til lögreglu og gögn úr Barnahúsi þar sem sérfræðingar töldu frásagnir barna samræmast kynferðislegri misnotkun föður. Sýslumannsfulltrúinn mat það svo að allt þetta hefði takmarkaða þýðingu við meðferð málsins þar sem um einhliða gagnaöflun móður væri að ræða. Börnin höfðu sjálf staðfastlega neitað umgengni við föður og lýst ótta sínum við að hann myndi brjóta á þeim aftur. Jók fulltrúinn við eftirlitslausa umgengni við föður og lýsti þeirri skoðun sinni þvert á mat allra fagaðila og sérfræðinga í málinu að vanlíðan barnanna mætti rekja til tengslarofs barnanna við föður sem móðirin bæri ein ábyrgð á með afstöðu sinni til umgengninnar.
Stundin hefur einnig fjallað um eldra mál þar sem tvær systur voru í áratug þvingaðar í umgengni við föður sinn sem misnotaði þær kynferðislega. Barnavernd meðhöndlaði málið allan tímann sem umgengnismál en ekki barnaverndarmál, þrátt fyrir að áhyggjurnar um kynferðisofbeldið væru skýrar. Málinu var sex sinnum vísað til Sýslumannsins í Reykjavík og margir úrskurðir voru felldir um að faðirinn fengi umgengni við þær án þess að öryggi þeirra væri tryggt. Á þessum tíma var kenningin um foreldrafirringu farin að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum og má ætla að viðhorf fagaðila og fulltrúa sem komu að málinu hafi að einhverju leyti litast af kenningunni.
Þegar ofbeldismál eru meðhöndluð sem umgengnisdeila er allt sem túlka mætti sem óvinveitt viðhorf þeirra sem greina frá ofbeldi sjálfkrafa haft til marks um tálmun eða tilraun til tálmunar. Hljómar þetta kunnuglega? Já, þú giskaðir rétt, Richard Gardner umorðaður. Þetta er viðhorfið sem þolendur ofbeldis mæta víða hjá barnavernd, en þann 15. október síðastliðinn lét forstjóri Barnaverndarstofu, Heiða Björg Pálmadóttir, hafa eftir sér í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1 að „um leið og við horfum fram á það að samhliða ásökun um ofbeldi liggur fyrir að það eru deilur milli foreldra um samskipti við barnið þá er orðið mjög erfitt að fá botn í það hvað er raunhæft í ásökunum um ofbeldi…“ Þetta viðhorf lýsir alvarlegri hlutdrægni undir yfirskini hlutleysis í málum er varða ofbeldi á börnum, þar sem það er gert að forsendu að börn fráskilinna foreldra séu sjálfkrafa ótrúverðugri í frásögn sinni af ofbeldi en önnur börn.
Ásökun um ofbeldi tvöfaldar líkur á því að móðir missi forsjá til föður
Á seinni árum hefur hugmyndinni um foreldrafirringu verið beitt heldur frjálslega og hún notuð um alls kyns mál þar sem barn fer sjaldan eða ekki í umgengni við foreldri. Vegna harðrar gagnrýni á hugmyndirnar um firringarheilkennið hafa hugtökin verið uppfærð en byggjast á sams konar skilgreiningum og áfellisdómum yfir mæðrum. Hér á landi hefur kenning Gardners fengið samnefnara við tálmun á umgengni og hugtök á borð við tálmunarmóðir, tengslarof, foreldraútilokun, tálmunarofbeldi, hollustuklemma, foreldraklemma og fleiri hugtök. Fræðimenn sem í dag fjalla um þessi hugtök hafa margir hverjir yfirlýst hafnað kenningum Gardners til að auka trúverðugleika nýju hugtakanna. Sjá má augljós merki í úrskurðum um að móðir sé álitin sek um að heilaþvo barn sitt og bregðast skyldu sinni gagnvart barni, þó í dag séu notuð uppfærð hugtök til að lýsa því. Ákvörðun um saknæmi í réttarkerfi okkar er meðal annars byggð á þeirri meginreglu að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð og hafin yfir skynsamlegan vafa. Reglan á að sjálfsögðu ekki við í málum sem varða eingöngu hagsmuni barna og rétt barna til verndar frá hvers kyns ofbeldi en henni er samt misbeitt í forsjár- og umgengnismálum. Feður sem ásakaðir eru um ofbeldi í fjölskyldu fá að njóta vafans, líkt og um sakamál væri að ræða, umfram börn sem eru send í eftirlitslausa umsjá foreldris sem grunað er um eða jafnvel dæmt fyrir alvarlegt ofbeldi. Ekkert er í málavinnslunni sem sannar að ásakanirnar um ofbeldi séu falskar. Misréttið felst augljóslega í því að sama regla gildi ekki jafnt um sakleysi móður og barns sem greinir frá ofbeldi og geranda. Nýjar rannsóknir frá Bretlandi og Bandaríkjunum renna stoðum undir þetta en þær sýna að feður sem beita ofbeldi nota ásökun um tálmun til þess að fá stjórn í lífi barnsmóður sinnar og barna og hafa fengið forsjá og aukna umgengni við börnin með tálmunarútspilinu. Sérstaklega virðast menn sem virka „venjulegir“ á yfirborðinu, komast upp með ofbeldi á þennan máta. Þá sýnir ný bandarísk rannsókn á yfir fjögur þúsund málum á tíu ára tímabili, að líkur aukast úr 30% í helmingslíkur á að móðir missi forsjá til föður ef hún ásakar hann um ofbeldi og áhættan tvöfaldast ef faðir ásakar móður á móti um tálmun. Innan við helmingslíkur eru á því að ásakanir móður um ofbeldi í forsjár- eða umgengnismálum í Bandaríkjunum séu teknar trúanlegar (41%) og minni líkur ef móðir ásakar föður um ofbeldi gegn barni. Hið sama gildir ekki í málum þar sem mæður ásaka feður um tálmun á umgengni. Þetta rennir stoðum undir þá gagnrýni að ásökun um tálmun og foreldraútilokun (Parental Alienation, PA) í ofbeldismálum er í engu frábrugðin ásökun um foreldrafirringu (PAS) byggð á óviðurkenndum hugmyndum og fordómum gegn konum. Í bandarískri rannsókn sem birt var á síðasta ári kom í ljós að 88% barna voru beitt endurteknu ofbeldi eftir að ofbeldisfullur faðir fékk forsjá, ofbeldið varð alvarlegra og andlegri heilsu barnanna hrakaði verulega.
Feðraréttur lagður að jöfnu við hagsmuni barna
Á Íslandi hefur verið starfræktur ýmiskonar félagsskapur sem heldur á lofti kenningum um foreldrafirringarheilkenni sem kallast nú foreldraútilokun. Má þar síðast nefna að Félag um foreldrajafnrétti heldur sérstakt námskeið í janúar um foreldraútilokun, en kennararnir eru hjónin Karen og Nick Woodall. Stundin fjallaði um það fyrr í mánuðinum hvernig Karen var ávítt af félagi breskra sálfræðinga meðal annars fyrir að greina barn með foreldrafirringu án þess að hitta barnið. Félag um foreldrajafnrétti hefur fengið mikla viðurkenningu í gegnum árin en árið 2017 hélt félagið til að mynda ráðstefnu um foreldraútilokun og mælendaskrá skipuð þekktum einstaklingum og ráðamönnum í þjóðfélaginu. Umræðan hefur einkennst af skorti á gagnrýni og mögulega hugsunarleysi sem orðið hefur til þess að viðhalda mýtunni um börn sem ljúga til um ofbeldi. Í gegnum tíðina hefur félagið barist fyrir því að aðferðum á borð við þær sem Gardner mælti með væri beitt til að vinna gegn tálmun og haldið því fram að réttarstaða íslenskra karla sé líklega sú lakasta í vestrænum heimi. Í grein Gunnars Hrafns Birgissonar, sérfræðings í klínískri sálfræði, frá árinu 2009, kemur fram við athugun á héraðsdómum að feður fengu forsjá barna í 40% tilvika og að í Héraðsdómi Reykjaness fengu feður dæmda til sín forsjá oftar en mæður. Félagið og fleiri félög með samskonar hagmuni, hafa lagt að jöfnu baráttu fyrir rétti feðra til umgengni við börn sín og hagsmunagæslu barna og halda því fram að tálmun á umgengni sé jafngild ofbeldi gegn börnum.
Að sjálfsögðu er mikilvægt að réttarstaða foreldra við ákvörðun um umgengni og forsjá sé jöfn óháð kyni, en hagsmunum barns ætti ekki að rugla saman við foreldrajafnrétti. Líkt og í Bretlandi og Bandaríkjunum á innleiðing þessarar hugsunar í réttarákvörðun og barnavernd sér stjórnarfarslegar rætur í gömlum hugmyndum um undirsetningu kvenna og „hina ævarandi illgjörnu og undirförulu móður“. Sú stefna að skylda móður til að uppfylla rétt föður til umgengni gildi fyrst í réttarákvörðun og sé barni ævinlega fyrir bestu er hápólitísk setning um feðrarétt en ekki byggð á faglegum grunni eða raunathugun á hagsmunum barna. Hagsmunir barns og vernd gegn ofbeldi ættu alltaf að ganga fyrir þegar kemur að slíkri ákvarðanatöku. Raunveruleikinn er sá að það er ekki öllum börnum fyrir bestu að umgangast báða foreldra sína. Það að samfélagið sé að bregðast þessum börnum vegna háværra radda feðra sem segjast vera tálmaðir og vísa til óréttmætra hugarsmíða og fordóma um börn og mæður sem ljúga, er óverjandi og verður að stöðva strax. Séu foreldrar útilokaðir á ósanngjarnan hátt úr lífi barna sinna þarf að leysa það á annan hátt en með því að fórna lífi þolenda ofbeldis á altari falsvísinda og fordóma. Það á ekki að vera samfélagslegur refsidómur að segja frá ofbeldi. Hættið þessu samstundis!
Athugasemdir