Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spyr Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hvort takmarka beri sölu orkudrykkja í ljósi áhrifa þeirra á heilsufar ungs fólks. „Koma frekari takmarkanir á sölu og markaðssetningu orkudrykkja til greina, meðal annars varðandi innihald koffíns og táríns og sölu til barna og ungmenna?“ segir í fyrirspurn hennar sem birt var á vef Alþingis í dag.
Mikil aukning í neyslu á meðal ungmenna
Mikil aukning hefur orðið í neyslu orkudrykkja bæði meðal framhaldsskólanema og nema í 8. til 10. bekk grunnskóla. „Börn og ungmenni eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla koffíns því sérstaklega óæskileg fyrir þann hóp,“ segir í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rósu um málefnið í desember. „Ef koffíns er neytt í miklu magni getur það haft ýmis óæskileg áhrif á líðan og heilsu fólks, getur til dæmis valdið hjartsláttartruflunum, hækkuðum blóðþrýstingi, höfuðverk, svima og haft neikvæð áhrif á svefn.“
„Ef koffíns er neytt í miklu magni getur það haft ýmis óæskileg áhrif á líðan og heilsu fólks“
Samkvæmt niðurstöðu könnunar embættis landlæknis neytti 55 prósent framhaldsskólanema orkudrykkja sem innihalda koffín daglega árið 2018. Hlutfallið var aðeins 22 prósent árið 2016 og aukningin því umtalsverð.
Óskað eftir mati áhættunefndar
Matvælastofnun hefur óskað eftir því að áhættunefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um matvæli, fóður, áburð og sáðvöru meti áhættu af koffínneyslu ungmenna. „Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hafa komið upp nokkur tilvik þar sem einstaklingar hafa leitað á bráðamóttöku með almenn einkenni vegna neyslu orkudrykkja,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.
„Hafa komið upp nokkur tilvik þar sem einstaklingar hafa leitað á bráðamóttöku með almenn einkenni vegna neyslu orkudrykkja“
„Algengustu einkenni eru hraður hjartsláttur, óróleikatilfinning, svimi, eirðarleysi og kvíði en engin staðfest alvarleg einkenni af völdum orkudrykkja meðal einstaklinga sem hafa leitað á bráðadeild. Ekki er skráð sérstaklega í sjúkraskrá hvort talið er að einkenni sjúklinga séu af völdum orkudrykkja. Á þessu ári hefur eitrunarupplýsingamiðstöðin á Landspítala fengið þrjú símtöl vegna barna sem drukku orkudrykki, ekkert þeirra þurfti að koma á bráðamóttöku og þau fundu ekki fyrir alvarlegum einkennum.“
Athugasemdir