Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur boðað til hópferðar Íslendinga til London til að samfagna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Tengiliður vegna ferðarinnar er Gunnlaugur Ingvarsson, formaður Frelsisflokksins, sem leggst gegn fjölmenningu á Íslandi. Fararstjóri verður Hallur Hallsson fréttamaður og rithöfundur.
Bretland gengur úr Evrópusambandinu 31. janúar að óbreyttu og hefur útgangan í daglegu tali verið kölluð Brexit. Hópferð Heimssýnar mun standa í þrjár nætur frá fimmtudeginum 30. janúar til sunnudagsins 2. febrúar. „Hér er um heimssögulegan viðburð að ræða,“ segir í tilkynningu frá Heimssýn vegna ferðarinnar.
Heimssýn eru samtök sem hafa barist gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Formaður þeirra er Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, en margir áhrifamenn hafa gegnt því embætti í gegnum tíðina, meðal annars Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Athugasemdir