„Þeir tala um þúsundkall, ég tala um milljónir,“ segir ungur kvótaerfingi á Instagram og birtir mynd af sér að veifa þykku búnti af fimm þúsund króna seðlum í lúxusbíl.
Útgerðarfélag fjölskyldunnar hans hagnaðist um tvo milljarða króna á síðasta uppgefna rekstrarári. En sjálfur er hann að hefja rappferil.
Hann gaf út tvö lög í sumar þar sem hann fer með texta eins og: „Já, þú átt kannski skart, en mitt kostar þúsundfalt.“ Og: „Þarf ekki að borga skatt, löggan kom og ég hvarf. Ég elska seðla og ég elska líka að eyða þeim. Svo opna budduna ...“
Valdefling ríkra krakka
Textarnir og birtingarmyndin á samfélagsmiðlum eru hluti af menningu sem snýst um áherslu á dýr vörumerki og peninga. Þessi menning er ekki ný, en mismikil.
Ein af fyrirmyndum rapparans er Gísli Pálmi, rappari sem þótti vera brautryðjandi árið 2015 með samnefndri plötunni sinni, þar sem hann birtist með gullkeðju og kórónu. Í einu af vinsælustu lögum sínum rappar Gísli um peninga: „Ég er með stíl. Fokk þú og þínir. Ég kom rúllandi um í glænýjum bíl ... Rúlla upp með nýtt armband. Sérð þetta gling glampa. Og alla hringana. Beint upp á instagram.“
Gísli Pálmi kemur sjálfur úr einni auðugustu fjölskyldu landsins.
Rapparar í Bandaríkjunum hafa gert mikið út á efnishyggju, peninga og dýr vörumerki. í því tilfelli er það valdeflandi. Oftast eru þessir rapparar að tala úr öðrum reynsluheimi, að fagna því að hafa brotist úr fátækt af eigin rammleik.
Brönduð sköpun
Á plötualbúmi hafnfirska rapparans Yung Nigo Drippin frá því í fyrra er mynd af gullúri. Hann er einn vinsælasti rappari Íslands. Sum lögin fjalla um vörumerki og ríkidæmi, eins og í lögunum „Ennþá Rich“, sem hefur verið spilað 167 þúsund sinnum á Spotify, „Ungur, ríkur, flýgur“, „Trappa í Versace“, „Milljónir“, „Hugo Boss“ og „Snjóhvítt Fendi“.
Yung Nigo Drippin úr Hafnarfirði rappar um Dior og Benz og veifar seðlabúnti.
„Audi það er stór bíll. Svo ekki einu sinni vera fokking spurja mig.“
Yung Nigo Drippin bætir oft vöruheitinu Cintamani inn í texta. Eitt lag heitir Cintamani 2, þar sem orðið kemur fyrir 36 sinnum. Eitt vinsælasta lag hans er Stór Audi, sem hann flytur með rapparanum Daniil. Lagið, sem kom út í maí og hefur verið spilað 240 þúsund sinnum á Spotify, fjallar að stórum hluta um eiginleika lúxusbílsins Audi Q7. „Púlla upp í Audi, Q7. Stór bíll, 7 sæti eins og rútur. Ég er ekki að keyra ég er aftur í slakur. Sjáðu þessar 5% rúður. Audi það er stór bíll. Svo ekki einu sinni vera fokking spurja mig. Hringir og spurjir mig um far. Nei bitch, ég púll'up á þig. Já ég er púllandi upp. Ég hef engan tíma að passa uppá þig. Aftur í Audi. Og hún er rándýr. Stór Audi bíll ... Púll'up á Audi sækjandi pakka. Gellan þín kallar mig pabba. Fokka ekki í henni ég á alltof margar.“
Í samtali við Stundina sagðist Daniil ekki hafa fengið greitt frá Audi-umboðinu fyrir lagið.
Einn þekktasti rappari samtímans, MC Gauti, hefur hins vegar birt myndir af sér með Audi á Instagram. Rétt eins og margir tónlistarmenn hafa birst í alls kyns auglýsingum og jafnvel sungið um sérstök vörumerki gegn greiðslu.
Sponsuð list
Síðasta haust kom Herra Hnetusmjör fram á tónleikum í skærgrænni Olís-peysu. Síðar kom í ljós að hann hafði fengið greiddar 300 þúsund krónur fyrir að klæðast peysunni. Skömmu seinna birtist seld frétt á vef útvarpsstöðvarinnar 101, þar sem sagt var frá því að Olís-fatalínan væri komin í sölu.
Herra Hnetusmjör bauð stjórnmálaflokki Pírata að greiða sér 300 þúsund fyrir að setja á sig derhúfu merkta flokknum fyrir kosningarnar 2017, þegar hann var spurður um það.
Það er eðlilegt og óumflýjanlegt að listamenn reyni að fjármagna sig. Samt sem áður má spyrja hvar mörkin liggja og hversu mikið er til sölu og hvaða áhrif það hefur á okkur.
Saga til sölu
Í Stundinni er fjallað um að einn helsti sagnfræðingur landsins, Guðjón Friðriksson, sem skrifaði ævisögu fyrrverandi forsætisráðherrans Halldórs Ásgrímssonar í fyrra, var fjármagnaður af fjölskyldu hans þegar sagan var skrifuð, án þess að greina frá hagsmunatengslunum. Guðjón hefur áður skrifað ævisögur Jónasar frá Hriflu, Einars Benediktssonar og Hannesar Hafstein.
Halldór er einn áhrifamesti og umdeildasti stjórnmálamaður síðustu áratuga. Hann innleiddi kvótakerfið í sjávarútvegi, sem fjölskylda hans hagnaðist verulega á, stóð fyrir umdeildri einkavæðingu, lýsti stuðningi við innrás í Írak án aðkomu þingsins og fleira. Einn af þeim sem koma að ævisögunni er fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar ríkisins. Ekkert segir að ævisögur, hvað þá sjálfsævisögur, megi ekki vera fjármagnaðar af viðfangsefninu, en það hefur áhrif á hlutlægni og áreiðanleika.
Auðvitað hefur peningavald áhrif á upplýsingar og túlkun sögunnar. Í dæmigerðri sýn frjálshyggjunnar er það ekki bara eðlilegt heldur æskilegt, þar sem þeir sem græða mest eru hæfastir og eiga að vera frjálsir tjáningar eins og aðrir, þótt geta þeirra til sannfæringar sé mögnuð margfalt upp. Þannig gæti verið eðlilegt að auðmenn keyptu upp alla fjölmiðla í krafti frelsis síns, og þar á meðal ríkisútvarpið.
Bjöguð viðmið
Fyrr á árinu birti Landsbankinn sparnaðarráðgjöf fyrir ungt fólk, sem unnin var af ungu fólki. „Mig langar að spara en mér finnst ekki mjög spennandi að fylla út excel-skjöl með kalda núðlusúpu í fanginu,“ sagði umsjónarmaður umfjöllunarinnar.
Greint var frá því síðar að hann skartaði þriggja til fjögurra milljóna króna úri á úlnliðnum í viðtölunum um fjárhagslegan veruleika ungs fólks. Hann er sonur fjárfestis sem fékk 107 milljónir króna í fjármagnstekjur árið 2017 og eru aðstæður hans því fjarlægar aðstæðum langflests ungs fólks. Viðmælendur hans sem sögðu reynslusögur reyndust einnig fyrst og fremst vera börn forstjóra, stjórnenda úr fjármálageiranum og annarra áhrifamanna úr þjóðfélaginu.
Hjálp til ungs fólks
Fyrir tveimur árum keypti Íslandsbanki umfjallanir í Fréttablaðinu og á Vísi.is með boðskap um að umræða um erfiðleika ungs fólks að komast á fasteignamarkaðinn væru orðum auknar:
„Það hefur alltaf verið erfitt að eignast sína fyrstu íbúð – spurðu bara mömmu og pabba eða ömmu og afa,“ sagði í einni auglýsingunni.
Þessu til stuðnings voru birtar reynslusögur af fólki sem höfðu náð að kaupa sér íbúð. Þetta var gert til að svara umræðu um að ungt fólk ætti erfitt með að komast inn á fasteignamarkaðinn. Flestar sögurnar voru hins vegar þannig að fólkið hafði keypt fasteign löngu áður en hækkunarhrina hófst á fasteignamarkaði og flestir fengu fjárhagslega hjálp frá foreldrum sínum.
Skilaboðin til ungs fólks sem þarf að standa á eigin fótum og hefur ekki aðgang að auðugum foreldrum eru því að þau standi sig einfaldlega ekki nógu vel í því að spara, en raunveruleikinn að þau hafa einfaldlega ekki sama forskot og þeir sem veita ráðleggingarnar og deila reynslu sinni.
Eins og segir í rapptexta ungs kvótaerfingja: „Hverjir eru þeir? Þeir þykjast græða, en við græðum miklu meir.“
Nýjar fréttir sem eru gamlar fréttir
Tvær fréttir á árinu settu gildismat okkar í ákveðið samhengi. „Einelti í skólum að aukast á ný“ var frétt sem lýsti aukinni jaðarsetningu meðal barna og unglinga.
„Einelti í skólum í Reykjavík mælist nú 5,5 prósent, talan var komin niður í 4,6 prósent árið 2012 en var 6,9 prósent árið 2007,“ sagði í fréttinni.
Einelti virðist hafa haldist í hendur við uppsveiflu og niðursveiflu í efnahagslífinu, eða öllu heldur breytingu á gildismati samhliða bóluhagkerfi og efnahagshruni. Í uppsveiflunni 2007 var einelti algengara heldur en eftir að bólan sprakk, þegar jöfnuður jókst og umræða átti sér stað um skaðleg áhrif efnishyggju.
„Depurð íslenskra ungmenna aukist um þriðjung“ er hin fréttin. Þar greindi frá því að börnum sem finna mjög oft fyrir depurð hefur fjölgað frá árinu 2006 til ársins 2018 úr 5,8% í 7,6%.
Börn sem koma frá efnalitlum heimilum eru 25 sinnum líklegri en önnur til að finna fyrir „daglegri depurð“.
Fjöldi erlendra rannsókna hefur staðfest að börn sem koma úr efnaminni fjölskyldum eru líklegri en önnur til að verða fyrir einelti. Í íslenskri rannsókn meðal tíundu bekkinga sem birt var 2018 er vitnað til þess að „þeir einstaklingar sem eru valdhafar innan hóps geta nýtt sér völd sín og skapað ný viðmið fyrir hópinn. Þeir sem fylgja ekki þeim viðmiðum eiga þá á hættu að verða jaðarsettir. Hægt er að gera sér í hugarlund að þeir nemendur sem koma frá efnaminni heimilum eða „brotnum“ heimilum séu frekar valdaminni og því í meiri áhættu á að verða jaðarsettir.“
Afleiðingar efnishyggju
Rannsóknir hafa sýnt að efnishyggja í fjölmiðlum, sem líkist óneitanlega efnishyggjunni á samfélagsmiðlum, minnkar samkennd fólks gagnvart öðrum.
Flestar mælingar benda til þess að misskipting hafi aukist í heiminum á síðustu áratugum. Popúlískur auðmaður með einræðistilburði varð forseti með því að upphefja sjálfan sig vegna auðs og gera lítið úr öðrum.
Þegar við upphefjum auð óháð verðleikum og dýr vörumerki, sem eru fyrst og fremst félagsleg tákn, eykst virði viðmiða sem er flestum ómögulegt að uppfylla. Afleiðingar af því að fólk upplifir að það nái ekki að uppfylla viðmið samfélagsins eru auknar líkur á siðrofi. Þetta getur í raun aukið afstæða fátækt, óháð efnislegri dreifingu auðs.
Við mótum menninguna og menningin mótar okkur. Drifkrafturinn er frumstæð virkni heilans sem leiðir af sér félagslega dýnamík, meðal annars í gegnum fyrirmyndir, sem hafa áhrif á skoðanir og gildismat, neyslu og kosningar, í endurgjafarlykkju.
Fyrri kynslóðir hafa hins vegar ekki „efni á því“ að gagnrýna yngri kynslóðir fyrir efnishyggju. Kynslóðin sem núna er að komast á fullorðinsaldur er sú fyrsta frá hippakynslóðinni sem rís raunverulega upp í nafni heildarhagsmuna. Meira en tvöfalt fleira fólk á aldrinum 18 til 29 ára borðaði grænmetisrétt síðustu jól en næsti aldurshópur fyrir ofan, svo dæmi sé nefnt. Mótmæli gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum hafa verið leidd af börnum og ungu fólki, en helst andmælt af vel stæðum íhaldsmönnum.
Í siðferðislegri efnishyggju er sannleikurinn sjálfur til sölu. Hann er það sem hentar, það sem borgar eða ræður. Það sem við erum hefur alltaf í rót sinni legið í því sem fær okkur til að lifa af. Ef heimspekileg og söguleg efnishyggja er rétt munu fjárhagslegir hagsmunir stýra okkur í átt að meiri áherslu á efnishyggju, og þess þá meira eftir því sem það er meira upphafið og umborið.
Athugasemdir