Varla var sprengjugnýrinn þagnaður, þar sem ár Grétu Thunberg var kvatt með öflugri flugeldasýningu, sem lagði alla astma- og ofnæmissjúklinga í rúmið með rykgrímur og veikti ónæmiskerfi og lungu hinna hraustari, þegar ferðaþjónustufyrirtæki þeysti með fjölda fólks, þar á meðal börn og hjartveika, upp á jökul á vélsleðum þrátt fyrir að það væri spáð bandbrjáluðu veðri og fólk væri varað sterklega við því að vera á ferðinni.
200 björgunarsveitarmenn náðu seint og um síðir að toga fólkið úr skafli en ekki fyrr en það var kalið á tám og fingrum og nánast í taugaáfalli. Þegar fjölmiðar leituðu skýringa var þeim sagt að grjóthalda kjafti. Fyrirtækið væri sjálft að rannsaka málið.
Þetta er ekki eina flugeldasýningin sem almenningur borgar í góðri trú. Og það má heimfæra þessa atvinnustarfsemi fjallamannanna upp á ýmis önnur íslensk fyrirtæki þar sem græðgin og hrokinn eru við stjórnvölinn en allt reddast af því almenningur borgar reikninginn á endanum. Í hruninu sáum við falla heila spilaborg úr svikum og blekkingum. Við stóðum uppi berrössuð en reynslunni ríkari.
Og við krepptum hnefana og sögðumst aldrei ætla að kjósa þessa helvítis skúrka aftur.
Næst settum við allt traust okkar á stjórnmálamenn sem lofuðu breytingum. En þeir voru eins og kona í ofbeldissambandi sem nær að sminka yfir marblettina og halda andlitinu en þorir ekki að segja skilið við ofbeldismanninn þrátt fyrir stöðugar barsmíðar. Þeir biluðu í hnjánum þegar kom að raunverulegum breytingum og afhentu skúrkunum aftur samfélagið á silfurfati.
Fjölmiðlar auðmanna og stórfyrirtæki voru aflúsuð inni í bönkunum þar til þau gátu brölt á fætur eins og gamlar risaeðlur og farið aftur að drottna yfir almenningi og auðlindum þjóðarinnar.
Og við krepptum hnefana og sögðumst aldrei ætla að kjósa þessa helvítis aumingja aftur.
Áður en við var litið voru skúrkarnir komnir aftur í ríkisstjórn og farnir að moka peningum í vasana og í gráðuga kjaftana á risaeðlunum og misbjóða réttlætiskennd okkar.
Og við krepptum hnefana og sögðumst aldrei ætla að kjósa þessa andskotans skúrka aftur.
Núna eru skúrkarnir og aumingjarnir saman við völd og eru þá ekki bara allir glaðir?
Úr samkrulli skúrkanna og aumingjanna kemur ýmislegt jákvætt eins og til dæmis miðhálendisþjóðgarður. Aumingjarnir fá sinn þjóðgarð og skúrkarnir setja inn í hann nokkrar virkjanir. Þannig má segja að þjóðgarðurinn sé orðinn til háðungar um sjálfan sig eins og risastór flugeldasýning á ári loftslagssamviskubits.
Við getum auðveldlega reist við heilbrigðiskerfið, skólakerfið og almannatryggingakerfið ef allir greiða skatta og við fáum markaðsverð fyrir kvótann. Svar stjórnmálamanna sem þora ekki eða vilja ekki standa vörð um hagsmuni okkar er að lækka lág veiðigjöld um tvo milljarða.
Stjórnvöld settu upp leikrænan sorgarsvip þegar fyrirtækið Samherji reyndist hafa greitt mútur til spilltra stjórnmálamanna í Namibíu til að komast yfir lífsbjörg bláfátæks fólks. Þau sýndu engin önnur viðbrögð nema umhyggju fyrir líðan forstjóra fyrirtækisins. Hafa fulltrúar almennings óskað eftir því að hafa einkavin Samherja í sjávarútvegsráðuneytinu meðan fyrirtækið sætir lögreglurannsókn? Já, reyndar. Ýmist vegna þess að þeir eru skúrkar eða þá að þeir eru aumingjar. Og við höfum látið það óátalið.
Vefritið Miðjan dró nýlega fram að Eskja á Eskifirði, sem er að mestu í eigu einnar fjölskyldu, fær ár eftir ár allt að 950 milljónir króna í leigutekjur af fjögur þúund tonna botnfiskkvóta sem fyrirtækið fær úthlutað nánast ókeypis þrátt fyrir að eiga hvorki bát né fiskvinnslu til að nota hann. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en að stjórnvöldum finnist í lagi að kvótinn sé seldur á markaðsverði, bara ef tryggt er að arðurinn sé ekki nýttur í þágu almennings.
Kannast einhver við að hafa skrifað þessari fjölskyldu eða öðrum stórútgerðarfjölskyldum eftirfarandi jólakort?:
Kæra fjölskylda
Ég vildi skrifa þetta kort til að óska ykkur gleðilegra jóla. Ég afsala mér hér með þokkalegri menntun barnanna minna, góðum samgöngum og sjúkrahúsum svo þið getið keypt þennan skíðaskála í Aspen sem ykkur langaði svo mikið í. Og hann pabbi gamli er ekkert of góður til að dúsa fárveikur á klósettinu á slysó í nótt ef þið getið borgað inn á þessa seglskútu sem ykkur dreymir um. Mamma hefur síðan ekkert að gera við meira en 250 þúsund á mánuði í eftirlaun, hún eyðir því bara í vitleysu. Það er miklu nær að þið getið lagt meira inn á eftirlaunasjóðinn ykkar í Panama.
Gleðilega hátíð
Nei, ég kannast ekki heldur við að hafa skrifað þetta kort. En stjórnmálamennirnir sem við kjósum hafa gert það í okkar nafni, ár eftir ár. Við þurfum kannski ekki fleiri flugeldasýningar en okkur veitir sannarlega ekki af björgun. Næsta kort ættum við að skrifa sjálf og það ætti að hljóða svona:
Kæru kjörnu fulltrúar
Skilið kvótanum aftur til okkar. Hefjið opinbera rannsókn á áhrifum kvótakerfisins og umsvifum sjávarútvegsfyrirtækja. Hækkið fjármagnstekjuskattinn og látið skattayfirvöld fá nægilegt fé og umboð til að taka á stórum skattsvikum sem komu í ljós í Panama-skjölunum en eru nú að fyrnast af því þið eruð að draga lappirnar og tefja framgang mála.
Ef þið getið ekki gert þetta eruð þið ekki lengur fulltrúar okkar á þingi. Þið skulið fara og finna ykkur aðra vinnu.
Kær kveðja,
Litla Gunna og litli Jón
Athugasemdir