1. Viljinn til að standa við áramótaheit getur vel brugðist um miðjan janúarmánuð. Þá skiptir litlu máli hvort þau eru hófleg eða ekki. Janúar er ekki rétti tíminn til að gera stórtækar breytingar á lífi sínu. Við eigum bara að liggja og gera sem minnst þar til í apríl.
2. Þú veist aldrei hver er að fara að leggja stein í götu þína. Gallstein, nánar tiltekið. Þá er fátt annað í stöðunni en að láta fjarlægja kvikindið.
3. Þessa speki má yfirfæra á ýmsar aðstæður. Það er alltaf gott að losa sig við hluti og hegðunarmynstur sem þjóna manni ekki og valda meiri sársauka en gleði, þótt það geti verið erfitt.
4. Fólk með enga gallblöðru á síður að borða brasaðan mat. Standist maður hins vegar ekki freistinguna er hægt að einfalda ferlið með hjálp meltingarensíma úr Heilsuhúsinu.
5. Það er mikilvægt að hlúa að tengslunum við fólkið sitt. Stór hluti af því er að sýna frumkvæði og gefa fólki tíma þótt það sé mikið að gera.
6. Handan uppgjafar bíða manns stærstu sigrar. Að gefast upp á því sem kemur í veg fyrir að maður rækti það góða í sjálfum sér og lifi í samræmi við gildin sín er ekki ósigur, þvert á móti er það fyrsta skrefið í massífri sigurgöngu.
7. Snjallsími á skrifstofu hringir ekki nema eigandinn hafi nýlega yfirgefið rýmið. Þetta er lögmál sem hefur ekki klikkað í mínu umhverfi og hlýtur því að vera algildur sannleikur.
8. Það er frelsandi að axla ábyrgð á sjálfum sér. Við stjórnum ekki öllu sem kemur fyrir okkur en við ein berum ábyrgð á því hvernig við tökumst á við og lærum af krefjandi lífsreynslum.
9. Hugrekki er ekki meðfæddur eiginleiki heldur ákvörðun. Við höfum engu að tapa og allt að vinna þegar við tökum ákvörðun um að stíga inn í óttann og ættum að gera það sem oftast.
10. Lífið skuldar mér ekki hamingju. Það þarf víst að vinna fyrir henni eins og öllu öðru. Sú vinna getur verið leiðinleg á köflum en ávallt gefandi.
11. Verktakar þurfa að fá sér góðan bókara. Það er að segja ef þeir eru með fjármálalæsi á við hundasúru og vilja ekki vera með allt niðrum sig þegar kemur að framtalsskilum. Þá er heimilisbókhald góð pæling sem ég hlakka til að skoða nánar árið 2020.
12. Það er allt í lagi að líða stundum illa. Mikilvægast er að halda ró sinni, leyfa tilfinningunum að vera og finna uppbyggilegar leiðir til að vinna sig í gegnum þær.
13. Það er ekki í lagi að líða alltaf illa. Ef það er tilfellið er um að gera að kynna sér þau úrræði sem eru í boði og bera sig eftir björginni. Það gerir það enginn nema þú.
14. Líkamsrækt er hrikalega skemmtileg. Að minnsta kosti þegar maður stundar hana með göfugri markmið að leiðarljósi en þyngdartap.
15. Fólk er þrefalt líklegra til að skilja við maka en að skipta um banka. Það var einhver hagfræðingur sem skrifaði þetta á Twitter í janúar og ég get ekki hætt að hugsa um það.
16. Manni finnst maður aldrei vera tilbúinn þó maður sé það. Sjálfsefinn er lævís meri sem við þurfum öll að taka minna mark á á árinu 2020.
17. Tími er það verðmætasta sem við eigum. Að ráðstafa honum skynsamlega og markvisst verður nauðsynlegra með hverju árinu sem líður.
18. Ég kaupi alltaf jólatré á síðustu stundu. Þetta er einn af þessum fáu hlutum sem haldast óbreyttir í gegnum öll þroskatímabil.
19. _________________________. Ég skil þetta eftir autt því ég vona að ég læri að minnsta kosti einn hlut í viðbót áður en árið er á enda.
Athugasemdir