Það er þrennt sem hefur átt huga minn að stærstum hluta þetta árið. Það er að hafa opnað vínbarinn Tíu sopa, að hafa tekið upp aðra seríu af Kokkaflakki og hafa tekið þátt í danskeppninni Allir geta dansað. Allt er þetta vissulega gerólíkt en hefur tekið mikið af mínum tíma og veitt mér mikla gleði. Af þessu er svo engum blöðum um það að fletta að það að taka þátt í Allir geta dansað var erfiðast. Raunar er þátttakan í þeirri keppni líklega það erfiðasta sem ég hef gert í lífi mínu. Með því steig ég svo langt út fyrir þægindarammann að ég efast um að ég finni hann aftur.
Samt sem áður held ég að þetta sé það hollasta sem miðaldra, feitur karlmaður getur gert í lífi sínu. Ég varð fimmtugur á þessu ári, og það að læra eitthvað alveg nýtt á þeim tímapunkti í lífi sínu, þurfa svo að standa frammi fyrir fimmtán myndavélum og gera eitthvað í beinni útsendingu sem þú kannt ekki vel, held ég að sé ótrúlega hollt.
„Með því steig ég svo langt út fyrir þægindarammann að ég efast um að ég finni hann aftur“
Fólk festist í því að gera það sem það er gott í og kann. Þess vegna prófar fólk ekki endilega nýja hluti, þess vegna einblínir fólk á það sem það kann og tekst ekki á við áskoranir. En fólk ætti að gera það, fólk ætti að velja að gera eitthvað sem það er ekki endilega gott í alltaf.
Fyrir nokkuð mörgum árum síðan ákvað ég að ef einhver kæmi til mín og stingi upp á einhverju við mig sem gæti verið skemmtilegt, jafnvel þótt það væri mér algjörlega framandi, þá myndi ég segja já við því. Þess vegna hef ég lent í alls konar ævintýrum, vegna þess að ævintýrin koma ekki nema maður leyfi þeim að koma. Fyrir vikið er ég sá maður sem ég er í dag, og er í raun og veru í þróun. Og það hlýtur að vera eftirsóknarvert.
Athugasemdir