Þetta ár, árið eftir Klaustursupptökurnar, kenndi mér að þrátt fyrir líkamlegar hindranir þá hef ég ýmsa hæfileika og get komið hlutum í verk. Það að fólk þekki nafnið mitt og andlit eftir Klaustursmálið hefur skilað sér í velvilja og að auðvelt hefur verið að kalla eftir aðstoð fyrir mig. Því hef ég getað unnið að ýmsum verkefnum, að skapa listaverk og halda málþing, til dæmis.
Að sama skapi hef ég áttað mig á því að þetta hefði mér ekki verið kleift ef ég hefði ekki verið orðin þekkt nafn. Að vera orðin þekkt nafn á Íslandi er tvíbent sverð, í það minnsta fyrir mig. Ég finn að ég nýt velvilja og fæ knús frá ókunnu fólki sem þakkar mér og vill gleðja mig. Það er hins vegar flókið að vera þekkt, ekkert mjög hæf líkamlega, og fátæk. Fólk gerir nefnilega ráð fyrir því að þegar þú ert orðin smá þekkt nafn að því fylgi efnisleg gæði. Það er verið að hafa samband við mig og bjóða mér hitt og þetta, að taka þátt í einhverju eða koma á sýningar, sem allt kostar peninga. Og þá á ég ekki, ég fékk aldrei borgað frá George Soros þótt einhverjir kunni að halda annað. Mínar veraldlegu aðstæður hafa ekkert breyst.
„Ég hef fengið óendanlegan stuðning frá sterkum íslenskum konum“
Það hefur því ekki allt verið auðvelt sem eftir Klaustursmálið kom. Það hefur ekki verið neitt gaman eða auðvelt að þurfa að svara fyrir upptökurnar hjá Persónuvernd, það er ekkert eðlilegt að þurfa að sitja undir áreiti heima hjá sér, að fá lögfræðistimpluð bréf vikulega. En ég ákvað að henda mér á þennan eld allan og hef ekki efast um þá ákvörðun. Ég er líka mjög vonsvikin með að það framferði ráðamanna þjóðarinnar, sem opinberaðist í Klaustursupptökunum, skuli ekki hafa haft nein áhrif á heilu ári og í raun haft þveröfug áhrif sýnist mér stundum.
En ég hef líka lært á þessu ári hversu sterk samstaða er meðal fólks á Íslandi. Ég hef fengið óendanlegan stuðning frá sterkum íslenskum konum, sumar þeirra eru algjörlega á öndverðum meiði við mig í lífsskoðunum en styðja samt við bakið á mér. Fyrir það er ég óskaplega þakklát.
Athugasemdir