Ég byrjaði í námi í haust, í meistaranámi í kennsluréttindum. Einn áfanginn sem ég tók heitir kynjajafnrétti og hann hefur einhvern veginn opnað augu mín enn frekar fyrir því hvað mismunurinn á milli kynjanna er mikill og alltumlykjandi. Það er það sem ég held að sé sá lærdómur sem ég hef dregið á þessu ári.
Þessi mismunur var mér auðvitað ekki óþekktur, sem konu í íþróttum. Í íþróttum er mjög mikið ósamræmi milli kynjanna að mjög mörgu leyti, hvað varðar umfjöllun, í áhorfendafjölda, peningum og tíma svo eitthvað sé nefnt. Ég vissi því alveg að þessi mismunur væri til staðar en ég hafði kannski aldrei kafað neitt dýpra í málefnið. Kannski ástæðan hafi verið vani, svona hefur þetta alltaf verið, hugsaði ég kannski, en núna hefur runnið upp fyrir mér hversu galin staðan í raun er.
„Það er kynjahalli á næstum öllum vígstöðvum“
Ég hef auðvitað í gegnum árin reynt að hafa áhrif innan minnar íþróttagreinar, körfuboltans. Ég hef undanfarin tíu ár staðið fyrir körfuboltabúðum bara fyrir stelpur því það er mín reynsla að ef bæði kynin æfa saman þá verða stelpurnar oft undir. Strákarnir gefa ekki á stelpurnar og svo framvegis. Ég hef litið á það sem mitt litla framlag, að veita stelpum tækifæri til að koma og stunda sína íþrótt án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvað strákum finnst eða hvað þeir gera.
Það er kynjahalli á næstum öllum vígstöðvum, það er áhugaleysi ríkjandi í þjóðfélaginu á málefnum kvenna. Í körfuboltanum birtist þetta í vanvirðingu við okkur leikmennina. Við höfum lagt gríðarlega mikið á okkur og spilum frábæran leik, þótt hann sé kannski eilítið öðruvísi en körfuboltinn sem karlar spila.
Ég hef ekki sagt fram að þessu að ég sé femínisti, ég hef að sumu leyti verið hrædd við orðið, stimpilinn. Áran sem hefur fylgt femínisma hefur um margt verið svo erfið, neikvæð kannski. Ég myndi hins vegar þora það núna því nú hef ég öðlast meiri skilning á stöðunni. Ég er tilbúin að berjast fyrir kynjajafnrétti, það er ekki vanþörf á.
Athugasemdir