Svifryksmengun á gamlárskvöldi í Reykjavík er tvöfalt meiri en við skógarelda í Kaliforníu. Þó svifryksmengun fari reglulega yfir hættumörk í höfuðborginni er enginn dagur ársins líkur gamlárskvöldi þó leitað sé langt út fyrir landsteinana.
Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um svifryksmengun í heiminum. Á vef blaðsins má bera svifryksmengun víða um heim við Camp Fire skógareldana sem geisuðu í Kaliforníu á síðasta ári. Voru þeir skæðustu skógareldar í sögu ríkisins. 85 manns fórust í eldunum og 19 þúsund byggingar lögðust í eyði. Svifryksmengun vegna reyksins fór í nær 200 míkrógrömm (μm) á rúmmetra og er útivera í slíkri mengun skilgreind sem „mjög óheilbrigð“ af umhverfisstofnun Bandaríkjanna.
Versti svifryksdagur ársins í Reykjavík síðasta ár var hins vegar tvöfalt verri. Á gamlárskvöld 2018 fór mengunin í 435 míkrógrömm á rúmmetra sem skilgreint er sem „hættulegt“.
Svifryksmengun olli dauða 4,2 milljóna jarðarbúa árið 2012 og milljónir til viðbótar veiktust alvarlega. Megnið af menguninni var í Asíu, en sjá má á umfjöllun New York Times hversu mikið svifryk er í loftinu um allan ársins hring í Nýju Delí á Indlandi og Beijing í Kína. Mengunin á versta klukkutímanum á gamlárskvöld í Reykjavík var þó verri en á nokkrum klukkutíma í Beijing síðasta ár.
Svifryk er flokkað með tvennum hætti. Annars vegar eru agnir undir 2,5 μm að stærð (PM2,5) og hins vegar agnir á bilinu 2,5-10 μm að stærð (PM10). Síðarnefnda útgáfan er sú sem reglulega fer yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík og er slit gatna ein helsta uppspretta þess að vetrarlagi og er þar helsti sökudólgurinn notkun nagladekkja. Fínni svifryksagnirnar eru að mestu tilkomnar vegna bruna eldsneytis, en samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu umhversisstofnunar Evrópu metur stofnunin það svo að allt að 80 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar PM2,5 svifryks á Íslandi á hverju ári.
PM10 er skráð sem krabbameinsvaldandi efni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Agnirnar eru svo smáar að þær komast djúpt inn í lungun við innöndun og geta haft margvísleg heilsufarsáhrif. Innöndun í miklu magni getur leitt til öndunarerfiðleika og í alvarlegum tilfellum hás blóðþrýstings, hjartaáfalls, heilablóðfalls og jafnvel dauða. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir. Tvær íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á sambandinu milli svifryksmengunar og notkunar astma- og hjartalyfja. Rannsóknirnar sýndu fram á aukningu í úttektum lyfja nokkrum dögum eftir að loftmengun vegna svifryks og brennisteinsvetnis jókst.
Svifryksmengun fer helst yfir heilsuverndarmörk þá daga sem loft er þurrt og stillt, einkum kalda vetrardaga. Þá getur mengunin safnast upp þar sem lítil hreyfing er á loftinu. Mengunin er mest við stórar umferðaræðar og nálægt verksmiðjum, en mælistöðvar eru einmitt staðsettar meðal annars við Hringbraut og Grensásveg.
Athugasemdir