1. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, móðgaðist illa að talað væri um sérstaklega mikil tengsl Sjálfstæðisflokks og auðvaldsins í Silfrinu síðasta sunnudag. Jón er þó sjálfur ágætt dæmi um hvernig leiðir Sjálfstæðisflokks, auðvalds og útgerðar liggja saman. Á sama tíma og hann sussar á umræðu um tengsl við fjármagnseigendur er hann t.d. í fámennum karlaklúbbi með Kristjáni Loftssyni, útgerðarmanni sem seldi í HB Granda á síðasta ári fyrir 20 milljarða króna, og sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, Kristjáni Þór Júlíussyni.
2. Jón Gunnarsson sat í þriggja manna nefnd, skipaðri af sama sjávarútvegsráðherra, um veiðitilhögun á grásleppu (eða hrognkelsi). Niðurstaðan var að tengdasonur Jóns skyldi eignast kvóta („útgerðarmennirnir munu þá meðal annars geta selt kvótann eða veðsett hann ef svo ber undir, líkt og gildir um annan kvóta“), og var augljóslega rými í nefndarvinnunni til að hygla tengdasyninum umfram aðra með vali á úthlutunaraðferð. Hvernig Jón Gunnarsson þóttist ekki kannast við málið í Silfrinu er dæmi um mikinn óheiðarleika, enda var þessi nefndarseta í fyrra og málið enn í ferli. Athugum að sönnunarbyrðin hvílir ekki á þeim sem benda á að þarna sé á ferðinni möguleg spilling, heldur er það ráðherra og alþingismanns að tryggja með góðum vinnubrögðum að ekki falli skuggi á störf hans.
3. Jón Gunnarsson kveðst hafa sagt Kristjáni Þór af þessum hagsmunaárekstri, en Kristján Þór hefur greinilega talið smekklegt að hann sæti þrátt fyrir það í þessum hópi, og treyst honum fyrir verkinu. Það er einstaklega ósmekkleg stjórnsýsla. Tengdasonur Jóns, hagsmunaaðilinn, segir Jón hafa spurt út í sína skoðun á málinu, svo ekki var skýrum aðskilnaði milli þingstarfa og fjölskyldu fyrir að fara.
4. Kristján Þór Júlíusson sagðist myndu mögulega segja sig frá málefnum sem snerta Samherja þegar hann tók við sem sjávarútvegsráðherra vegna tengsla við fyrirtækið og stjórnendur. Nú hefur komið í ljós að það hefur hann aldrei gert. Hann nefndi aldrei af fyrra bragði að hann væri líka persónulegur vinur manns sem átti tuttugu milljarða króna hlut í öðru sjávarútvegsfyrirtæki. Innan tveggja vikna frá veislunni á Þremur frökkum sendi Kristján Loftsson tölvupóst til sjávarútvegsráðherra þar sem hann bað um breytingar á reglugerð um hvalskurð. Tíu dögum síðar undirritaði Kristján Þór umbeðna breytingu á reglugerðinni. („Einnig set ég sem viðhengi reglugerðina Nr. 489 frá 28. maí 2009, en þar hef ég sett inn breytingar þær, sem ég fer fram á að verði gerðar með rauðu,“ segir í tölvupósti Kristjáns Loftssonar til ráðherra).
5. Í kjölfar Samherjamálsins sagðist Kristján myndu segja sig frá málefnum sem varða Samherja beint. Tveimur dögum síðar var hann að skoða nýja fiskvinnslu Samherja, en hann hafði nýverið ekki mætt á sambærilegan viðburð tengdan öðru fyrirtæki. Hann sat einnig ríkisstjórnarfund þar sem viðbrögð ríkisstjórnarinnar við Samherjamálinu voru rædd.
Það er ótrúlegt að við þurfum að sitja í sömu sporunum að ræða þessa hluti aftur og aftur. Ljósi punkturinn er að brjálsemi valdamanna (og þetta er brjálsemi) opnar fyrir möguleikann á breytingum sem undirritaður hefur ekki séð síðan í kjölfar þess að sömu öfl settu Ísland á hliðina, þegar óvíst var að til væri gjaldeyrir fyrir lyfjum og olíu.
Nú þurfum við að leyfa okkur að kalla hlutina réttum nöfnum. Nú þurfum við að segja það sem sjáum öll. Þetta fólk er ekki að vinna fyrir okkur.
Athugasemdir