Konur úr félagsskapnum Líf án ofbeldis funduðu með Elizu Reid forsetafrú í dag og kynntu henni starfsemi félagsins. Á fundinum voru sagðar reynslusögur af ofbeldi innan fjölskyldna, sögur kvenna og sögur af því hvernig hið opinbera kerfi hefur brugðist í þeim málum.
Líf án ofbeldis er hreyfing sem stofnuð var í september á þessu ári. Að félagsskapnum standa mæður sem hafa þurft að verja börnin sín gegn ofbeldi feðra og konur sem voru sem börn þvingaðar í umgengi við ofbeldisfulla feður sína, ásamt aðstandendum þeirra. Félagsskapurinn berst fyrir því að fundnar verði nýjar leiðir í umgengnis- og forsjármálum þar sem hagsmunir barna eru tryggðir, þegar fyrir liggur að foreldri hefur beitt börn ofbeldi.
Á fundinum með Elizu greindu talskonur félagsins frá þeirri skoðun sinni hvernig kerfisbundið væri litið framhjá gögnum um ofbeldi gegn konum og börnum þegar úrskurðað væri í umgengnismálum. Þá lýstu þær einnig upplifun sinni af því að mæður séu sakaðar um andlegt ofbeldi gegn börnum þeirra þegar þær hafa greint frá áhyggjum af ofbeldi í þeirra garð.
Þá sögðu uppkomin börn, sem beitt höfðu verið ofbeldi, frá því hver áhrif slíks eru á líðan þolenda og fjölskyldna þeirra. Þá var rætt um glufur í kerfinu sem að ofbeldismenn noti til að viðhalda ofbeldi eftir skilnað. Fundurinn gekk að sögn kvennanna vel, tók Eliza frásögnum þeirra vel og gaf þeim góð ráð í framhaldinu.
Athugasemdir