Aumingja Dalvík
Nökkvi Alexander Jónsson, 21 árs, laganemi við Háskólann á Akureyri.
„Samherjamálið er alls ekki nógu gott. Samherjamenn þurfa að líta í eigin barm, það þarf að skoða hvað er í gangi þarna. Vissulega er Þorsteinn búinn að segja af sér en samt sem áður, þetta er arðrán. Þetta er sorglegt fyrir Íslendinga og íslenskan sjávarútveg. Ég vorkenni íslenskum sjómönnum og litlum útgerðarþorpum að þurfa að hafa þetta yfir sér. Aumingja Dalvík, segi ég nú bara.“
Fallegt af sjávarútvegsráðherra
Ragnhildur Valgeirsdóttir, ellilífeyrisþegi og fyrrverandi símritari.
„Það á eftir að rannsaka þetta. Ég get ekki tjáð mig svo mikið um það. En ég get tjáð mig um vinskap hans Más þarna í Samherja og sjávarútvegsráðherra. Mér finnst bara fallegt af sjávarútvegsráðherra að hringja í vin sinn þegar upp koma svona mál. En svo náttúrlega finnst mér þurfa að rannsaka þetta. Eðlilega. En höfum við ekki verið að hjálpa þeim þarna úti í Namibíu? Sjálfsagt hafa þeir eitthvað gengið á lagið, en ég veit það ekki.“
Samherji gert mikið fyrir byggðarlagið
Unnur Elva Hallsdóttir, 60 ára.
„Ég hef svo sem ekki alveg myndað mér skoðun. Maður er í hálfgerðu sjokki, ég veit það ekki, ég get ekki alveg myndað mér skoðun. Mér finnst Samherji hafa gert mjög mikið fyrir byggðarlagið og allt það en að sama skapi er ég alveg í sjokki yfir þessum nýjustu fréttum, maður þarf bara tíma til að melta þetta og fá allt upp á borðið.“
Skandall fyrir íslenska þjóð
Regína Þorkelsdóttir, 60 ára, vinnur á öldrunarheimili.
„Ég er mjög hissa! Mér finnst þetta mjög mikill skandall fyrir íslenska þjóð.“
Útgerðirnar eiga að veiða fyrir okkur
Þorsteinn Stefán Jóhannsson, 36 ára, sjómaður.
„Mér finnst mjög skrýtið að útgerð bara fái að fara inn í land annars staðar og fái kvóta þar. Mín skoðun er auðvitað það að þetta ætti ekkert að gerast. Þetta er örugglega ekki eina útgerðin á landinu sem gerir þetta. Ég er ekki búinn að kynna mér þetta rosalega vel en ég er ekkert rosalega hissa á þessu, það er búið að tala um þetta í mörg ár. Ja, þeir ættu pottþétt að fá einhverja góða sekt fyrir þetta. Þeim verður pottþétt vikið úr landi þarna. Auðvitað er ég reiður. Mér finnst bara útgerðin ekkert eiga að eiga þennan kvóta, landið á að eiga hann. Útgerðirnar eiga að veiða fyrir okkur.“
Athugasemdir