Rótinni hlotnaðist sá heiður á dögunum að vera veitt jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs fyrir árið 2019. Rótin er grasrótarsamtök kvenna og brautryðjandi í umræðunni um tengsl áfalla, ofbeldis og skaðlegrar vímuefnanotkunar hér á landi. Í röksemd Jafnréttisráðs segir að Rótin hafi með starfi sínu og málflutningi kynnt nýjar kenningar og hugmyndir um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og hafi þannig ögrað viðteknum hugmyndum um leiðir til bata.
Fjölbreytt flóra námskeiða
Rótin býður upp á fimm ólík námskeið og leiðsagnarhópa (e. psychoeducational groups) fyrir konur. Leiðsagnarhóparnir hittast í tíu til tuttugu skipti og eru þróaðir af einum helsta sérfræðingi heims í áfalla- og vímuefnavanda kvenna, dr. Stephanie Covington. Rótarkonur hafa þýtt og staðfært efnið á íslensku. Námskeiðið Áföll, leiðir til bata er einnig úr smiðju Covington en er styttra, sex skipti, og þá hefur Rótin þróað tvö stutt námskeið sem eru sett upp af félaginu. Námskeiðin eru opin öllum konum og eru ekki sérstaklega ætluð konum með vímuefnavanda.
Öll námskeiðanna byggjast annars vegar á fræðilegum kenningum og rannsóknum og hins vegar á reynslu þátttakenda í ljósi fræðanna. Notaðar eru kenningar um samkennd og sjálfsumhyggju og gerðar æfingar sem hjálpa þátttakendum að jarðtengjast og hlúa að sér. Námskeiðin skiptast í fræðslu, umræður og slökunaræfingar.
Ný nálgun
Rótarnámskeiðin bjóða upp á nýja nálgun fyrir konur til að vinna úr afleiðingum áfalla. Fókusinn er á styrkleika þátttakendanna en ekki á afleiðingarnar, í hvaða formi sem þær birtast; skaðleg vímuefnanotkun, átröskun eða önnur sjálfsskaðandi hegðun. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim. Hvernig þær hafi komist af og til hvaða bjargráða hver og ein þeirra hafi gripið.
Námskeiðin og leiðsagnarhóparnir eru ekki meðferð og þátttakendum er í sjálfsvald sett hvort og hversu ítarlega þær segja frá ofbeldissögu sinni en áherslan er á fræðslu og bjargráð. Kynntar eru nýjustu kenningar og nýjar aðferðir til að takast á við vandann. Markmiðið er að konurnar læri að þekkja sjálfar sig sem einstaklinga í stað þess að skilgreina sig í gegnum sambönd eða stöðu sína, að þær finni styrkleika sína og geti byggt á þeim framtíð sína og betra líf.
Rótarhópur opinn öllum
Auk námskeiðanna og leiðsagnarhópanna er félagið með opna fundi í Rótarhópnum sem er leiddur jafningjastuðningur fyrir allar konur sem eru að vinna í afleiðingum áfalla. Þátttakendur á námskeiðum og í leiðsagnarhópum eru sérstaklega hvattir til að mæta og nýta fundina sem eftirfylgni. Í Rótarhópnum er unnið m.a. út frá þekkingu á sambandi áfalla og líkamlegs og andlegs vanda og einnig út frá kenningum um samkennd og sjálfsumhyggju. Umræðuefnin byggjast m.a. á viðfangsefnum námskeiða og leiðsagnarhópa Rótarinnar „Konur studdar til bata“ og „Áföll – Leiðir til bata“ sem þróuð eru af dr. Stephanie Covington.
Höfundar eru í ráði Rótarinnar.
Athugasemdir