Ungi drengurinn sem fluttur var þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa fest í affalli í Reykjadalsstíflu í Læknum í Hafnarfirði í vikunni hefur verið útskrifaður af gjörgæslu. Hann liggur nú á Barnaspítala Hringsins og samkvæmt upplýsingum frá landspítala eru batahorfur hans góðar. Vísir greinir frá þessu.
Drengurinn er níu ára gamall, en eldri bróðir hans sem er 12 ára festist einnig í affallinu. Endurlífga þurfti báða drengina, en sá eldri komst til meðvitundar á vettvangi. Börnin gerðu sér ekki grein fyrir hættunni sem leyndist á svæðinu en bæjaryfirvöld Hafnafjarðar eru með málið til skoðunar. Stíflan hefur verið tæmd.
Kældur til að draga úr líkum á heilaskaða
Læknar beittu svokallaðri kælimeðferð þar sem líkamshiti sjúklings er kældur niður í 32 til 34 gráður. Líkami drengsins var kældur niður í tvo sólarhringa. Með slíkri meðferð er hægt að draga úr líkum á heilaskaða. Drengurinn fór síðan að vakna um hádegisbil á föstudag þegar kælingunni var hætt. Í frétt RÚV um málið segir að kælimeðferð hafi verið nokkrum sinnum verið beitt hér á landi þegar fólk hefur verið nærri drukknað og hafa sjúklingar náð ótrúlegum bata í kjölfarið.
Haft er eftir Felix Valssyni, sérfræðilækni í svæfingu og gjörgæslu á Landspítala, að mikilvægt sé að bregðast rétt við á slysstað. „Ef fólk kemur að sjúklingi sem hefur kólnað mikið þá á alltaf að kalla fyrst á hjálp en síðan að reyna að hefja endurlífgun á meðan hjálp berst því það eru dæmi um það að þessir sjúklingar hafa verið í endurlífgun í langan tíma, jafnvel klukkustundir, og komið samt mjög heilir út úr því,“ segir Felix.
Tengdar fréttir:
Svona gerðist slysið í læknum í Hafnarfirði: Yngri drengurinn vaknaður
Börn í Lækjarskóla urðu vitni að slysinu
Tveir drengir þungt haldnir eftir slys: Vitni tjáir sig um málið
Athugasemdir