Stundin hefur fengið þau svör frá Sven H Halvorsen, talsmanni norska hersins, að hríðskotabyssurnar 250 sem Landhelgisgæslan sagði að væri gjöf frá Norðmönnum muni koma til Noregs í dag.
Í frétt Morgunblaðsins um helgina sagði Ásgrímur L. Ásgrímsson, talsmaður Landhelgisgæslunnar, að tæknileg vandamál hefðu komið upp við flutning MP5 byssanna en senda átti þær fyrir helgi. Sven Halvorsen kannast hins vegar ekkert við tæknilega erfiðleika. „Samkomulag okkar var á þá leið að íslenska Landhelgisgæslan myndi láta norsk hernaðaryfirvöld vita viku áður en vopnin myndu koma til Noregs. Vopnin munu koma til Noregs í dag,“ skrifar Sven í tölvupósti til Stundarinnar.
„Vopnin munu koma til Noregs í dag“
Sven segir enn fremur að Landhelgisgæslan hefi ekki gert neina tilraun til að kaupa ýmist byssur eða skotfæri á þessu ári. Hann ítrekar að það hafi ávallt verið skoðun norska hersins að borgað skildi fyrir MP5 byssurnar. Í frétt RÚV frá síðastliðnum janúar kom fram að samkvæmt Landhelgisgæslunni var eina ástæðan fyrir því að vopnin væru þá enn í landi að beðið væri eftir hentugu tækifæri til að flytja vopnin til Noregs. Þá var sagt að til kæmi til greina að nýta tækifæri til að koma þeim um borð í norskri herflutningavél sem yrði stödd á Íslandi. Sven slær þetta alfarið af borðinu í svari við fyrirspurn Stundarinnar. „Ísland ber ábyrgð á að flytja vopnin til baka frá Íslandi til Noregs,“ segir í tölvupósti hans.
„Ísland ber ábyrgð á að flytja vopnin til baka frá Íslandi til Noregs“
Fyrst var greint frá komu hríðskotabyssanna í DV síðastliðinn október. Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri hugðust skipta MP5-byssunum á milli sín. Þann 17. desember árið 2013 samdi gæslan um kaup á 250 MP5 hríðskotabyssum, en Ríkislögreglustjóri átti að fá 150 stykki. Fyrir átti lögreglan 60 hríðskotabyssur og því var um að ræða stóraukna vopnavæðingu. Fyrirætlanir lögreglunnar voru á þá leið að lögreglubifreiðar á landinu yrðu búnar MP5-hríðskotabyssu.
„Eina sem ég get sagt er að við eigum ekki kjarnorkuvopn,“ sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, þegar upp komst um þennan stærsta vopnainnflutning sögunnar.
Ósannar yfirlýsingar Landhelgisgæslunnar
Upphaflega var tilkynnt að norska lögreglan hefði afhent vopnin, og það gefins, en síðar kom í ljós að það var ósatt. Það hafði verið norski herinn sem afhendi þau. Enda kom í ljós síðar að norska lögreglan hafði sjálf farið fram á að fá vopnin frá hernum, en ekki fengið.
Bæði Ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan sögðust telja að um væri að ræða gjöf þrátt fyrir að samningur um greiðslu á 625 þúsund norskum krónum fyrir vopnin lægi fyrir.
Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hélt ósönnum fullyrðingum fram í Kastljósinu á RÚV um málið.
„Ég notaði nú eiginlega orðið aflað [í samtali við fjölmiðla] í dag, sem kannski olli því að menn töldu að þau hefðu verið keypt. En það er ekki; þau fengust gefins,“ sagði hann 21. október í fyrra.
Bent-Ivan Myhre, talsmaður norska varnamálaráðuneytisins, sagði hins vegar frá því rétta í málinu. „Það var undirritaður samningur um sölu á 250 MP5 upp á 625 þúsund krónur þann 17. desember 2013. Þetta er kaupverð sem skal greitt. Það hefur ávallt verið ætlunin,“ sagði Bent-Ivan í samtali við við norska blaðið Dagbladet hinn 28. október síðastliðinn.
Sögðust ekki mega segja frá - en fóru sjálfir fram á leynd
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, neitaði að upplýsa um efni samningsins. Hann vísaði til þess að um væri að ræða NATO-samning sem væri trúnaðarmál.
Norski herinn greindi síðar frá því að Landhelgisgæslan hefði sjálf farið fram á að leynd hvíldi yfir samningnum.
Mánuði eftir að málið komst í umræðu og norski herinn hafði gefið upplýsingar um hvers eðlis væri ákváðu embættin að skila byssunum.
Engin afsökunarbeiðni barst vegna leyndarinnar og ósannra yfirlýsinga forsvarsmanna Landhelgisgæslunnar og Ríkislögreglustjóra um stærsta vopnainnflutning Íslandssögunnar, og enginn var látinn axla ábyrgð á málinu.
Athugasemdir