Meira en 45 þúsund hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu öllum lögum sem myndu heimila ráðstöfun fiskveiðiheimilda til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Líkt og bent var á í frétt RÚV um málið hafa fleiri skrifað undir þessa áskorun en skrifuðu undir undirskriftalista vegna seinni Icesave-laga árið 2011 og fjölmiðlalaga árið 2004. Forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum á þeim forsendum að gjá væri á milli þings og þjóðar.
Þorkell Helgason stærðfræðingur er einn þeirra sem stendur að baki undirskriftasöfnuninni. Hann segir að hún hafi gengið vonum framar og sýni hversu alvarlegt málið sé. „Við erum fjarska ánægð með þessar undirtektir. Við getum þó ekki sagt að við höfum stefnt að neinu sérstöku markmiði af því að forsetinn metur hvernig hann bregst við. Við höfum engin áhrif á það.“
Árángurinn sé sérstaklega góður í ljósi þess að hópurinn sem að baki undirskriftarstöfnuninni stendur hafði ekki úr neinu fé að spila, nákvæmlega engu. „Þannig að við höfum ekki getað stundað neinar auglýsingaherferðir, annað en að vera virk á veðmiðlum, blogga og þvíumlíkt. En það er nú ekki aðalatriðið, heldur hitt. Það sem við erum að leggja kapp á er að menn hugsi nú sinn gang. Makrílfumvarpið í sjálfu sér kann að virðast lítið og meinlaust og vel meint af ráðherans hálfu, en við óttumst að þarna geti lítil þúfa velt þungu hlassi – að þetta sé upphafið að því að það verði ekki aftur snúið, að kvótarnir verði endanlega einkavæddir.“
Þjóðin ætti að fá eðlilegt gjald
Þorkell bendir á að vissulega sé kominn viss hefðarréttur á úthlutun kvótans og því ekki hægt að innkalla hann á augabragði. „Það þarf eðlilegan aðdraganda. Svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig, þá sé ég það fyrir mig að nú ættu menn að setjast niður og hugsa sinn gang. Ég held að fyrir útgerðina gæti verið mjög hagkvæmt að reyna að ná sáttum á þeim nótum sem stór meirihluti þjóðarinnar virðist vera á. Samkvæmt skoðanakönnun 2012 sögðust yfir áttatíu prósent styðja það að það yrði tekið eðlilegt gjald fyrir kvótann.
„Samkvæmt skoðanakönnun 2012 sögðust yfir áttatíu prósent styðja það að það yrði tekið eðlilegt gjald fyrir kvótann.“
Ég held að það ætti að vera auðvelt að ná samkomulagi sem bæði þjóðin og útgerðin ætti að geta verið sátt við. Slíkt samkomulag fælist í því að skerða kvótana hægt og bítandi, um lítið hlutfall árlega og bjóða upp það sem losnar. Þessi hugmynd hefur verið á kreiki í aldarfjórðung og hefur gengið undir ýmsum nöfnum, firningarleið, tilboðsleið eða uppboðsleið, og verið útfærð á nokkra mismunandi vegu.
Það má færa rök fyrir því að það að fara þessa leið sé síst óhagkvæmara fyrir útgerðina heldur en að vera í óvissu um framhaldið. Það hefur nú komið fram hjá talsmönnum útgerðarinnar að þeir eru orðnir órólegir yfir því að geta ekki verið vissir um framtíðarskilmálana.“
Erfiðara en að breyta stjórnarskránni
Á meðal þess gagnrýnt er að samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra er gert ráð fyrir að úthluta kvótanum til sex ára í senn og framlengist úthutunin sjálfkrafa á hverju ári.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur hins vegar sagt að sex ár séu jafnvel of stuttur tími til að tryggja stöðugleika í greininni.
„Bíðum nú við, eigum við ekki að fá sömu góðu kjörin, eilífðareign á kvótanum“
Um það segir Þorkell: „Það sem við erum að benda á er að til þess að segja þessu upp þarf að minnsta kosti sex ára aðdraganda. Það þarf því að vera meirihluti á Alþingi fyrir uppsögn á úthlutun makrílkvótanna, sem spannar yfir einar, jafnvel tvennar, kosningar.
Það er erfiðara að draga í land með þá úthlutun sem væri gerð á grundvelli þessa frumvarps heldur en að breyta stjórnarskránni. Ef þessu verður komið á er afar ólíklegt að það verði nokkurn tímann dregið til baka. Þá muna þeir sem eru að fiska aðrar tegundur segja; „Bíðum nú við, eigum við ekki að fá sömu góðu kjörin, eilífðareign á kvótanum“.
Málinu verður að ljúka með sátt
Í ljósi þess hve margir hafa skrifað undir áskorunina væntir Þorkell þess að frumvarpið verði ekki afgreitt á Alþingi, heldur muni daga þar uppi eða verða dregið til baka. „Ráðherra hefur sagt að
Athugasemdir