Þrír hælisleitendur verða handteknir og sendir úr landi í nótt þrátt fyrir að vera með atvinnu- og dvalarleyfi þar til í júní. Einn af þeim er Christian Boadi sem hefur unnið samviskusamlega hér á landi frá því í júlí. Hann er aðstoðarkokkur á Lækjarbrekku.
„Christian hefur starfað hjá mér frá því í ágúst á síðasta ári og hefur staðið sig frábærlega. Það er því þyngra en tárum taki að vita til þess að hann verði handtekinn í nótt og fluttur til Ítalíu,“ segir Jón Tryggvi Jónsson, eigandi veitingastaðarins Lækjarbrekku í Bankastræti.
Þrír verða handteknir og sendir út
Christian Kwaku Boadi er frá Ghana en hann er einn af þremur hælisleitendum sem sendir verða úr landi í nótt en þeim barst tilkynning þess efnis frá lögreglunni seinnipartinn í gær.
„Ég fékk símtal frá lögreglunni um klukkan fjögur í gær en þá var búið að loka hjá bæði innanríkisráðuneytinu og Útlendingastofnun þannig að mér gafst ekkert færi á að afla mér upplýsinga um þessa ákvörðun. Ég er búinn að bíða í mörg ár eftir niðurstöðu og á þeim tíma hef ég reynt að aðlagast lífinu á Íslandi. Í dag er ég með góða vinnu, er að reyna að læra íslensku og á hér fullt af vinum sem mig þykir vænt um,“ segir Christian sem var í miklu uppnámi. Hann kom hingað til lands frá Ítalíu. Þar reikaði hann um götur, allslaus, og gisti á almenningssalernum.
Athugasemdir