Dæmi eru um að íslensk verktakafyrirtæki þurfi að borga með erlendum verkamönnum sem hingað koma til lands. Ástæðan er sú að nánast ekkert gistirými er á lausu á höfuðborgarsvæðinu eða nærliggjandi sveitarfélögum og hafa því einhver verktakafyrirtæki þurft að leigja hótelherbergi undir starfsmennina. Hótelherbergi á þessum tíma árs eru ekki þau ódýrustu en framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis sem Stundin ræddi við segir þetta það eina í stöðunni á meðan ástandið er svona á leigumarkaði.
„Það er allt fullt alls staðar. Við höfum leitað að leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Hveragerði, Selfossi og Akranesi. Það er lítið sem ekkert í boði og á sumum stöðum bókstaflega ekki neitt í boði. Við höfum því þurft að leita til gistiheimila og í einhverjum tilfellum hótela til þess að hýsa mannskapinn sem kemur að utan til að vinna fyrir okkur. Við höfum ekki undan byggingaverkefnunum en á sama tíma er algjör skortur á starfsfólki og því lendum við í þessari stöðu.“
Athugasemdir