Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru gegn Sævari Óla Helgasyni, varamanni Pírata í Faxaflóahafnarnefnd í Reykjavík. Honum er gefið að sök að hafa laust eftir miðnætti miðvikudaginn 23. júlí 2014 í fangamóttöku lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík, hótað lögreglumanni að berja hann og móður hans.
Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík hafði ekki vitneskju um ákæruna í samtali við Stundina. Halldór segir að málið verði skoðað innan raða Pírata og til greina komi að svipta Sævar Óla varanefndarsæti verði hann fundinn sekur. „Þetta eru breyttar forsendur. Það þarf að skoða hverju þetta breytir. Við þurfum að fara yfir þetta,“ segir Halldór Auðar.
Halldór Auðar segir að Sævar Óli hafi einu sinni tekið sæti í nefnd Faxaflóahafnar. Aðalmaður Pírata í þeirri nefnd er Þórlaug Ágústsdóttir.
Dæmdur fyrir rasskellingu
Rétt fyrir borgarstjórnarkosningar í fyrra fjallaði DV um Sævar Óla sem var þá umboðsmaður Pírata. Sævar Óli hefur í tvígang verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, árið 2005 og 2006. Árið 2013 var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir húsbrot og eignarspjöll á Ráðherrabústaðinum við Tjarnargötu.
Árið 2006 féll dómur í máli sýslumannsins á Selfossi gegn Sævari Óla, sem hafði gripið í öxl þess fyrrnefnda og brugðið fyrir hann fæti.
Árið 2005 var Sævar Óli dæmdur fyrir rasskella leikskólakennara sem hann taldi hafi lagt ólöglega við innkeyrslu. Í dómnum er atvikalýsing á þá vegu að hann hafi skellt konunni á húdd bíls síns og rasskellt þéttingsfast. Fyrir vikið hlaut hann sex mánaða fangelsisdóm.
Stuðningsyfirlýsing Pírata
Í kjölfar fréttaflutnings af fortíð Sævars Óla gáfu Píratar í Reykjavík út út stuðningsyfirlýsingu við hann, sem birtist rétt fyrir kosningarnar í fyrra.
Fjölmiðla- og viðburðatenglar Pírata í Reykjavík, Guðmundur Fjalar Ísfeld og Heiða Hrönn Sigmundardóttir, sögðu flokkinn vera stoltan „yfir því að hjálpa þessum fönix að rísa úr öskunni.“
Í frétt frá þeim tíma kemur fram að í yfirlýsingunni hafi verið talað um árásina á Selfossi sem „ryskingar“ og innbrotin sem „ógæfuspor“. Yfirlýsingunni lauk síðan með þessum orðum: „Við erum stolt af því að hafa slíkan mann innanborðs“.
Samkvæmt ákærunni birtist stuðningsyfirlýsing Pírata við Sævar um tveimur mánuðum áður en honum er gefið að sök að hafa hótað lögreglumanni.
Reynt var að fá viðbrögð Sævars Óla við fréttinni, en án árangurs.
Athugasemdir