Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Farsæl lausn með gjaldeyrishöft: Var kynningin pólitísk leiksýning?

Áhersl­ur Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar um kynn­ing­una á los­un gjald­eyr­is­haft­anna og gjald­heimtu af kröfu­höf­um föllnu bank­anna þriggja voru aðr­ar en komu fram í kynn­ing­unni í Hörpu í gær. Fram­sókn kynnti lengi vel aðra leið, átaka­meiri leið og jafn­vel gjald­þrota­leið, en þessa samn­inga­leið sem orð­in er of­an á á með­an Bjarni Bene­dikts­son var alltaf tals­mað­ur henn­ar. Samn­ing­ar við kröfu­haf­ana eru lengra komn­ir en skilja mátti á for­sæt­is­ráð­herra í gær. Haf­in er um­ræða í sam­fé­lag­inu um hvor formað­ur­inn hafi unn­ið í gær.

„Mér skilst að yfirlýsingarnar hafi komið í kjölfar þess að menn hafi séð að þetta væri raunverulega að gerast, skatturinn kæmi raunverulega,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Íslandi í dag í gær

Kynning á losun gjaldeyrishaftanna fór fram í Hörpu í gær og voru kynntar tvær leiðir sem mögulegar væru til að heimila kröfuhöfum föllnu bankanna Glitnis, Landsbankans og Kaupþings að leysa eignir sínar út úr búunum og fyrir ríkisvaldið að sækja fé til þeirra. Eignir þessara þrotabúa eru lykilatriði við losun hafta þar sem ekki er hægt að losa höftin án samkomulags við þau þar sem útflæði þessara eigna þeirra gæti orsakað verðfall íslensku krónunnar. Skilyrði fyrir losun gjaldeyrishafta er því að koma í veg fyrir að of snöggt útflæði þessara eigna og með því að tryggja að hluti eigna þeirra verði eftir á Íslandi.

Stöðugleikaframlag og stöðugleikaskattur?

Í kynningunni var annars vegar rætt um stöðugleikaskatt sem Sigmundur Davíð vísaði til og svo hins vegar stöðugleikaframlag. Munurinn á þessu tvennu er að stöðugleikaframlagið er samkomulagsatriði - framlag er ekki gjaldtaka - á meðan skattaálagning er gjaldtaka. Stöðugleikaskatturinn mun nema 39 prósentum ef þrotabúin fallast ekki á að greiða stöðugleikaframlagið.

Kynningin snérist í aðalatriðum um að þrotabúin eiga um 900 milljarða krónueignir sem ráðgert er að þau gefi eftir til ríkisins  að hluta gegn því að fá að greiða sér út erlendar eignir þrotabúanna sem einnig eru læstar inni í fjármagnshöftunum.

Flestir sem tjáð sig um kynninguna hingað til hafa lýst yfir ánægju með hana almennt séð þar sem fjármagnshöftin eru eitt stærsta vandamál íslensks samfélags í dag. Enginn vill halda fjármagnshöftunum. 

Afleiðingar fyrir almenning

Einnig var kynnt að lífeyrissjóðirnir fái ákveðnar heimildir til að fjárfesta erlendis næstu fjögur árin, fyrir samtals 10 milljarða á ári, en viðræður um þetta hafi staðið yfir á milli Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóðanna um skeið. 

Hvað varðar áhrif losunar haftanna fyrir almenning þá felst í henni að almenningur getur nú bráðlega keypt gjaldeyri í bönkum án þess að þurfa að sýna flugfarseðla, að öll gjaldeyrisviðskipti við útlönd verða einfaldari - til að mynda flutningar á peningum á milli landa, og að Íslendingar sem vilja kaupa sér fasteignir erlendis munu ekki þurfa undanþágu frá gjaldeyrishöftunum frá Seðlabanka Íslands, svo fátt eitt sé nefnt. 

„Menn sjái þá tækifæri í því að klára málin hraðar og verða við þessum stöðugleikaskilyrðum.“

Söguleg stund
Söguleg stund Leiðin sem Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu í gær var í samræmi við vilja annarra flokka og kröfuhafa.

Hvenær bárust viljayfirlýsingar?

Með orðum sínum, sem vísað er til í upphafi greinarinnar, vísaði forsætisráðherra til þess að kröfuhafar föllnu bankanna hefðu sent frá sér viljayfirlýsingar um samstarf við ríkisstjórnina sem feli í sér greiðslu á stöðugleikaframlagi sem nemur um 39 prósent eigna þrotabúanna.

Orð forsætisráðherra mátti skilja sem svo að kröfuhafar bankanna hafi áttað sig á því að þeir yrðu að borga upphæð sem samtals gæti numið um 500 milljörðum króna, viljugir eða óviljugir. Sigmundur Davíð tók fram í viðtalinu að viljayfirlýsingarnar hafi átt að hafa borist frá þrotabúunum í gær, sama dag og kynningin fór fram. 

Sigmundur Davíð útskýrði vilja kröfuhafanna með eftirfarandi hætti í viðtalinu: „Menn sjái þá tækifæri í því að klára málin hraðar og verða við þessum stöðugleikaskilyrðum. Það hefur ýmsa kosti fyrir þessa aðila en getur líka gert það fyrir Ísland, þó hinn kosturinn sé mjög góður líka. Ef þetta endar þannig að menn klára þetta ekki og stöðugleikaskatturinn fellur, þá er það mjög góð niðurstaða líka.“

„Stærstu kröfuhafar í slitabúin hafa lýst því yfir að þeir vilji ganga að stöðugleikaskilyrðum sem sett hafa verið fram.“

Búið að semja

Á kynningunni í Hörpu í gær kom hins vegar fram að búið væri, þá þegar, að semja við kröfuhafana um að fara leið stöðugleikaframlagsins en ekki leið stöðugleikaskattsins. Í þessu felst að ekki kemur til þess að kröfuhafarnir greiði stöðugleikaskattinn frekar en stöðugleikaframlagið. Á einni glærunni sagði: „Stærstu kröfuhafar í slitabúin hafa lýst því yfir að þeir vilji ganga að stöðugleikaskilyrðum sem sett hafa verið fram.“

Stöðugleikaskatturinn verður því einungis settur á ef kröfuhafarnir ganga á bak orða sinna um að fara samningaleiðina. Eins og segir á sömu glæru: „Stöðugleikaskatturinn er nauðvörn almennings gagnvart kröfuhöfum slitabúa föllnu fjármálastofnanana.“

Upplýsingarnar í orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og þær upplýsingar sem voru í glærukynningunni í Hörpu eru því ekki alveg þær sömu að því leytinu til að forsætisráðherra talaði eins og kynningin á úrræðunum hafi leitt til þess að kröfuhafarnir hafi brugðist við á meðan kom fram í kynningunni að búið væri að komast að einhvers konar upphafssamkomulagi við kröfuhafanna. 

Í tilkynningu á vef Glitnis kemur sömuleiðis fram að viðræður við ríkisvaldið á Íslandi hafi staðið yfir og að þær viðræður hafi snúist um hvernig þrotabú bankans gæti fengið undanþágu frá gjaldeyrishaftalögunum til að leysa eignir sínar út úr búinu: „Slitastjórinn bendir á að þessum viðræðum hafi lokið með samþykkt skilmála að mögulegri undanþágu og kynnti íslenska ríkisstjórnin þessar hugmyndir í dag.“ 

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að samningar við kröfuhafanna „séu komnir mjög langt og kröfuhafar muni velja leið stöðugleikaskilyrðanna“.

Hver er skýringin á misræminu?

Áherslurnar í kynningunni og áherslurnar í orðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru því nokkuð aðrar. Í kynningunni kom skýrt að einhvers konar samkomulag við kröfuhafanna lægi fyrir en Sigmundur Davíð talaði eins og þeir væru svo hræddir við stöðugleikaskattinn sem búið væri að kynna til sögunnar sem möguleika að þeir ætluðu sér að ganga samningaleiðina. 

Skýringin á misræminu kann að vera að nú þegar er hafin barátta á milli stjórnarflokkanna um hvor þeirrra beri ábyrgð og eigi að fá meira klapp á bakið fyrir að ná þessari lendingu gagnvart þrotabúum föllnu bankanna.

Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs var aldrei sérstaklega hrifinn af samningaleiðinni við kröfuhafa því þeir vildu fara aðrar leiðir. Nú hefur þessi leið hins vegar orðið ofan á.

„Það mætti líkja þessu við það að hrægammurinn er í skóginum, við erum með haglabyssu, treystum við okkur til að fara að ná í hann eða treystum við einhverjum öðrum til þess.“

Samninga- og átakaleiðin

Með haglabyssu í hrægammaveiðum
Með haglabyssu í hrægammaveiðum Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, mælti fyrir því að sýna kröfuhöfum hörku.

Framsóknarflokkurinn vildi beita kröfuhafana hörðu, að minnsta kosti töluðu fulltrúar flokksins þannig, og má rifja upp ummæli um hrægamma og byssur fyrir síðustu kosningar. Frosti Sigurjónsson, núverandi þingmaður flokksins, sagði til dæmis: „En þetta ræðst svolítið af viðbrögðum og samningsvilja þessara kröfuhafa. […] Það mætti líkja þessu við það að hrægammurinn er í skóginum, við erum með haglabyssu, treystum við okkur til að fara að ná í hann eða treystum við einhverjum öðrum til þess. Ég skal segja þér hvaða veiði­aðferðir við getum notað.“ 

Samningaleiðin var hins vegar leiðin sem fyrri ríkisstjórn vildi fara og sömuleiðis hefur Bjarni Benediktsson aldrei talað með þessum hætti um afnám gjaldeyrishaftanna og vandamálin sem stafa af krónueignum þrotabúanna. Bjarni var auk þess mjög gagnrýninn á málflutning Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar, á þeim forsendum að ekki lægi fyrir hvernig ætti að ná í nokkur hundruð milljónir fyrir íslensk heimili, og sagði meðal annars: „En munum við græða í leiðinni 200 eða 300 milljarða eða hvað það er sem Framsóknarflokkurinn er að lofa. Það er fugl í skógi; hann er ekki í hendi. […] Ég tók eftir því að mér fannst Sigmundur ­Davíð alls ekki svara því hvernig þetta ætti að gerast. Þessu er enn ósvarað af Framsóknarflokksins hálfu. Að lofa því fyrirfram að þarna verði til 200 milljarðar fyrir heimilin, það finnst mér einfaldlega vera óábyrgur málflutningur.“

Það er líka merkilegt að Bjarni Benediktsson staldraði ekki eins mikið við stöðugleikaskattinn í fjölmiðlum í gær þegar hann ræddi um þessa lausn á málefnum þrotabúanna. Í viðtali við RÚV sagði hann: „Í beinu stöðugleikaframlagi og ásamt með bankaskattinum sem við höfum áður kynnt til sögunnar erum við örugglega að tala um 500 milljarða en síðan koma því til viðbótar ýmsar ráðstafanir sem tengjast fjárfestingum í landinu, framlengingu skuldabindingu, framlengingu lána og annað þess háttar. Aðalatriðið er að þessi leið eyðir vandamálinu, alveg eins og skatturinn bara með aðeins öðrum hætti.“

Svo virðist því að sú leið hafi orðið ofan á sem allir aðrir stjórnmálaflokkarnir heldur en Framsókn töluðu um. Enda hefur slík samningaleið í för með sér mesta sátt og minnsta möguleikann á óvæntum, skaðlegum afleiðingum.

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson Leið formanns Sjálfstæðisflokksins virðist hafa orðið ofan á.

Hvor „vann“?

Hafin er umræða í samfélaginu um hvor flokkurinn hafi unnið í gær: Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn og eru ólíkar skoðanir uppi um það. Túlkun varaformanns Vinstri grænna, Björns Vals Gíslasonar, á þessu misræmi í áherslum á stöugleikaskatt og stöðugleikaframlag var að framsókn hefði „lúffað“ fyrir sjálfstæðismönnum; samningaleið Sjálfstæðisflokksins hafi orðið ofan á. 

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, tekur í sama streng og segir: „Bjarni Benediktsson hafði betur í stjórninni. Gjaldþrotaleið Sigmundar Davíðs var hafnað.“ 

Gærdagurinn var sigurdagur fyrir Framsóknarmenn og Sigmund Davíð sérstaklega“

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur er á því að Framsóknarflokkurinn hafi unnið sigur í gær. Á Facebook segir hann: „Gærdagurinn var sigurdagur fyrir Framsóknarmenn og Sigmund Davíð sérstaklega - þó að allir aðrir kunni að eiga heiðurinn af leiðinni sem farin var á endanum. Nú er að vita hvernig úr þessu öllu spilast og hvort íslenskir umsvifamenn hafa öðlast þroska til að starfa í haftalausu umhverfi.“

Losun haftanna er góð fyrir alla íbúa Íslands og er það kannski á endanum stærsta fréttin í gær.

Möguleiki dómsstólaleiðarinnar

Kröfuhafarnir gætu svo vissulega farið þá leið að fá úr því skorið hvort slíkur stöðugleikaskattur standist lög með því að höfða dómsmál. Slíkt tekur hins vegar langan tíma og kemur þá í veg fyrir að kröfuhafar geti innleyst eignir sínar í þrotabúunum og verður að teljast ólíklegt að þeir vilji fara þá leið. Slitastjórn Glitnis gaf hins vegar út áðurnefnda yfirlýsingu þess efnis í gær að verið væri að skoða stöðugleikaskattinn og þá væntanlega lögmæti hans.  

Ekkert bendir til annars að en allir aðilar í málinu, ríkisvaldið og þrotabúin, velji samningaleiðina frekar en átakaleiðina.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Gjaldeyrishöft

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár