Strax þegar ljóst var hversu slæmur aðbúnaður hænsna Brúneggja er hefði Matvælastofnun átt að kæra stjórnendur fyrirtækisins til lögreglu. Í kjölfarið hefði verið hægt að svipta þá aðila umráðarétti yfir dýrum með dómi, sem hefði verið eðlilegt í svona tilviki og hefði útilokað að umráðaaðilar þessara dýra settu á laggirnar þriðja eggjabúið þrátt fyrir ítrekuð, sönnuð og gríðarlega alvarleg brot. Þetta segir Alexandra Jóhannesdóttir lögfræðingur sem hefur rannsakað brot á lögum um velferð dýra og eftirfylgni með þeim. „Þeir sem fara svona með dýr eiga ekki að fá leyfi til að sýsla með dýr til langs tíma. Það á að taka þann rétt af þeim. Það hefði raunverulega áhrif á þeirra lífsviðurværi. Með því móti hefðu dýravelferðarlög og -reglugerðir fælingarmátt.“
Dæmið um Brúnegg bendi til þess að það séu engar alvöru afleiðingar af því að brjóta lög og fara illa með dýr. „Jú, framleiðendurnir fengu dagsektir. En aðilar sem eru að hagnast um nokkur hundruð milljónir í arð á ári geta alveg lifað við þær.“
Það eru bræðurnir Kristinn Gylfi Jónsson og Björn Jónsson sem eiga hvorn sinn helminginn í Brúneggjum ehf. í gegnum einkahlutafélög sín. Félög þeirra högnuðust um tæpar hundrað milljónir króna hvort árið 2015, sama ár og aðbúnaður á eggjabúum þeirra var það slæmur að loka átti búunum, eins og kemur fram í frétt Stundarinnar.
Athugasemdir