Útlendingastofnun staðhæfir að hvorugur hælisleitendanna sem dreginn var út úr Laugarneskirkju með valdi síðustu nótt sé undir lögaldri. Ali Nasir og Majed, hælisleitendur frá Írak sem dvalið hafa á Íslandi í um sjö mánuði, greindu Stundinni frá því að þeir væru 16 ára og 30 ára gamlir.
Ali og túlkurinn hans sögðu jafnframt að þegar Ali flúði frá Írak hefði hann orðið sér úti um falsað vegabréf og samkvæmt því væri hann 19 ára gamall. Á leiðinni til Íslands hefði hann heyrt að Íslendingar hefðu um árabil dæmt flóttafólk í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Auk þess væri hérlendis oftast dregið í efa að hælisleitendur væru undir lögaldri.
Þegar Ali kom til Íslands og sótti um hæli framvísaði hann því falsaða vegabréfinu en þorði ekki að segja íslenskum yfirvöldum að pappírarnir væru falsaðir. Fyrir vikið notfærði Ali sér ekki ungan aldur þegar yfirvöld tóku mál hans til skoðunar, en slíkt hefði getað orðið máli hans til framdráttar.
Útlendingastofnun rýfur trúnað
Morgunblaðið sló því upp í netfrétt um tvöleytið í dag að Ali Nasir væri „ekki sextán ára, líkt og haldið hefur verið fram í fréttum Stundarinnar og Ríkisútvarpsins í dag, heldur yfir lögaldri“. Þetta staðfesti starfsmaður Útlendingastofnunar í samtali við Mbl.
Í fréttinni er jafnframt vísað í málsgögn Alis. „Í gögnum málsins er afrit af vegabréfi sem staðfestir að hann er yfir lögaldri. Staðfesti hann sjálfur fæðingardaginn sem gefinn er upp í vegabréfinu í viðtali hjá Útlendingastofnun. Stofnunin staðfestir einnig þessar upplýsingar,“ segir orðrétt í frétt Mbl.is.
Klukkan 15:20 sendi loks Útlendingastofnun út fréttatilkynningu þar sem segir orðrétt: „Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að annar umsækjendanna sé 16 ára gamall og því barn að aldri. Þetta er ekki rétt. Mennirnir eru báðir eldri en átján ára. Þetta sýna fyrirliggjandi gögn í málinu auk framburðar mannanna fyrir stjórnvöldum þar sem þeir staðfestu aldur sinn.“
Lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við furða sig á að Útlendingastofnun gefi fjölmiðlum upp upplýsingar um vegabréf hælisleitenda, það hvað komið hefur fram í viðtölum við þá og málsgögn úr hælismálum.
Löng ferð að baki
Ali og Majed voru dregnir með valdi út úr Laugarneskirkju síðustu nótt. Við kirkjutröppurnar tóku tveir lögreglumannanna sér stöðu og handjárnuðu Ali. Þegar vinur hans beygði sig yfir hann og benti lögreglumönnunum á að Ali væri aðeins sextán ára gamall sló annar lögreglumannanna hann í andlitið. Síðan ýttu lögreglumennirnir Ali niður kirkjutröppurnar í handjárnum og þrýstu honum inn í lögreglubíl þar sem hann brast í grát.
Fram kom í samtali Stundarinnar við Ali að hann hefði alist upp í Bagdad en yfirgefið Írak og haldið til Evrópu í leit að betri framtíð. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa farið á yfirsetnum bátum yfir Miðjarðarhafið frá Tyrklandi til Grikklands og gengið svo þvert yfir meginland Evrópu.
Horfðu á leikinn áður en þeir bjuggu sig til brottfarar
Ali og Majed lýstu því ófremdarástandi sem ríkir í Írak. Ali nefndi sem dæmi að fyrir nokkrum árum hefði honum verið rænt af vopnuðum mönnum, keyrt með hann út úr borginni og foreldrar hans krafðir um lausnargjald. Faðir hans hefði selt helstu eignir fjölskyldunnar til að geta greitt það. Majed segist hafa starfað sem lögreglumaður í Írak og meðal annars flúið vegna ítrekaðra hótana sem hann varð fyrir.
Ali og Majed óttast að norsk stjórnvöld sendi þá aftur heim til Írak. Þeim líður vel á Íslandi og segja að hér sé fólk vingjarnlegt og minna um rasisma en víða annars staðar í Evrópu. Þeir vörðu síðusta kvöldinu sínu á Íslandi í að horfa á fótboltaleikinn milli Íslands og Englands.
Athugasemdir