Sigurður Haraldsson, mótmælandinn sem snúinn var niður af þingverði á dögunum, segir í samtali við Stundina að læknir hafi tjáð honum að allar líkur séu á því að hann sé rifbeinsbrotinn. Hann segist vera í sambandi við lögmann um mögulega kæru vegna málsins.
„Hún á Læknavaktinni taldi mig vera brotinn. Lýsingin á því sem ég finn, sagði hún, bendir eindregið til brots. Ég er svo hryllilega aumur, það má ekki koma við mig. Þegar ég hósta eða hlæ þá fæ ég verki þannig að það eru allar líkur á broti. Rifbrot er nú bara þannig að það er ekki hægt að meðhöndla það, það er bara brotið og grær á sínum tíma,“ segir Sigurður og bætir við að hann þurfi að taka sterkustu verkjatöflur vegna sársauka.
„Þegar ég hósta eða hlæ þá fæ ég verki“
Þarf að koma aftur í myndgreiningu
Ef Sigurður er í raun rifbeinsbrotinn er ekki víst að það komi strax í ljós í myndgreiningu. „Málið er að ef ég fer í myndgreiningu á broti sem er ekki misgengið þá er mjög erfitt að sjá það. Þannig að ég þarf að koma helst einhverjum fjórum, fimm vikum seinna til að sjá samgróninginn,“ útskýrir Sigurður. „Þetta var ekki sjáanlegt, en það þýðir hvorki af eða á. Læknirinn á Læknavaktinn sagði að það væri ekkert víst að þeir myndu sjá neitt brot í mynd,“ segir Sigurður.
Athugasemdir