Þingmenn úr öllum flokkum hafa birt hjartnæmar samúðarkveðjur til aðstandenda Guðbjarts Hannessonar, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra. Hann lést í morgun eftir baráttu við krabbamein.
Hans er minnst sem vinar og félaga sem sýndi öðrum velvild og hlýju. Þannig segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar að það hafi auðgað sitt líf að verða samferða Guðbjarti í stjórnmálum. „Við minnumst góðs félaga og vinar. Kynnin af Gutta sýndu mér að það var engin tilviljun að hann varð uppalandi og skólamaður. Hann var félagi af hugsjón og lífsskoðun – vildi alltaf vinna með fólki og auðga líf samferðamanna. Hann var alltaf tilbúinn að leggja meira á sig en aðra og brást alltaf við hverri hjálparbón. Sannari og traustari félaga hef ég ekki fundið. Hugur okkar er hjá Sigrúnu, Birnu, Hönnu Maríu og fjölskyldunni allri,“ skrifar Árni Páll.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, segir að hans verði sárt saknað, enda með betri mönnum sem hún hafi kynnst. „Guðbjartur Hannesson félagi minn og vinur er fallinn frá. Sé hann fyrir mér hlæjandi sínum hlýja hlátri enda einstakt ljúfmenni, sanngjarn og skemmtilegur en sótti fast þegar á þurfti að halda. Við erum mörg sem munum sakna hans óskaplega mikið. Einn af þeim bestu sem ég hef kynnst. Samúðarkveðjur sendum við hans nánustu.“
Annar þingmaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, minnist Guðbjarts sem skeleggs baráttumanns: „Félagi okkar Guðbjartur Hannesson lést í dag langt fyrir aldur fram eftir æðrulausa viðureign við illvígt krabbamein. Þar fór einstaklega sanngjarn og skeleggur baráttumaður fyrir réttlátara samfélagi og manneskjulegra. Sigrúnu og fjölskyldu hans sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.“
Samúðarkveðjur frá stjórnarþingmönnum
Þingmenn annarra flokka hafa einnig heiðrað minningu Guðbjarts í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann hafi verið réttsýnn og hjartahlýr maður. „Góður drengur er það fyrsta sem kemur í hugann þegar ég minnist Guðbjarts Hannessonar. Hann var réttsýnn og hjartahlýr og hans verður sárt saknað. Ég vil votta fjölskyldu hans samúð mína.“
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikinn missi af góðum manni. „Ég samhryggist fjölskyldu, vinum og samherjum Guðbjarts Hannessonar innilega. Það er mikill missir af þessum góða manni,“ skrifar Eygló.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknar, minnist þess hversu reiðubúinn Guðbjartur var til þess að aðstoða samstarfsmenn sína óháð því í hvaða flokki þeir væru: „Guðbjartur Hannesson, Gutti, hefur kvatt þennan heim alltof snemma. Blessuð sé minning hans.
Ég og Gutti sátum saman í Allsherjar- og menntamálanefnd og Velferðarnefnd þingsins. Hann var alltaf boðinn og búinn til að aðstoða þó við værum ekki alltaf á sömu skoðun og met ég það mikils.
Ég votta fjölskyldu hans, vinum og samherjum mínar innilegustu samúðarkveðjur.“
„Hugurinn er hjá fjölskyldunni“
Þá hafa þingmenn úr röðum Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar sent aðstandendum hans samúðarkveðju. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að Guðbjartur hafi verið ákaflega manneskjulegur í öllu samstarfi. „Mikið sem ég mun sakna hans Gutta af þinginu. Hann var hlýr, réttsýnn, samviskusamur, heilsteyptur og ákaflega manneskjulegur í öllu okkar samstarfi. Blessuð sé minning hans. Ég votta fjölskyldu hans og vinum samúð og sendi þeim styrk og birtu,“ skrifar Birgitta.
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir það forréttindi að hafa fengið tækifæri til að starfa með Guðbjarti: „Góður maður fallinn frá, það voru mikil forréttindi að fá að kynnast og vinna með Gutta. Betri mentor var ekki hægt að fá fyrir mig sem þingmann sem var að stíga sín fyrstu skref á hálu svelli stjórnmálanna. Alltaf boðinn og búinn til að hjálpa og gefa góð ráð. Blessuð sé minning hans.“
Þá segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, að Guðbjartur hafi verið yndislegur maður: „Góður félagi og yndisleg mannvera hann Gutti sem gott var að vinna með. Hugurinn er hjá fjölskyldunni sem þarf að kveðja alltof snemma.“
Athugasemdir