„Þessi skilaboð sem þeir eru að senda út eru alveg fáránleg,“ segir Karl Lúðvíksson, leiðsögumaður í Langá, en þar á hann við upplýsingar sem finna má á vefsíðu fyrirtækisins KúKú Campers sem sérhæfir sig í leigu á breyttum sendiferðabílum hér á landi.
Sendiferðabílarnir eru þannig útbúnir að ferðamenn geta gist í bílunum hvar sem þeir stoppa og hvetur fyrirtækið ferðamenninna til þess að upplifa Ísland á aðeins öðruvísi hátt en flest önnur ferðaþjónustufyrirtæki og bílaleigur hér á landi.
Á vefsíðu KúKú Campers má meðal annars finna upplýsingar um hin ýmsu kort af Íslandi sem fyrirtækið selur ferðamönnum.
Kortin eru átta talsins og eru jafn ólík og þau eru mörg en þar er til að mynda kort fyrir kynlíf utandyra og kort fyrir þá sem vilja lifa eins og náttúrubarn í íslenskri víðáttu. Fyrirtækið skorar á þá sem kaupa „The Natural Life Map“ að lifa af landinu í heila viku og segir á vefsíðu KúKú Campers að lög á Íslandi leyfa hverjum sem er að borða hvað sem er af landi hvers sem er.
Ferðamennirnir mjög hissa
„Þú mátt ekki taka neitt með frá landi annars manns en þú mátt borða eins mikið og þú vilt í tuttugu og fjóra klukkutíma,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins, sem einnig leigir út útigrill og veiðistangir.
„Ég lenti í því í fyrra að ég kom að fólki með veiðistangir upp við á. Ég kynnti mig sem staðarhaldara í Langá og lét þau vita að þau væru að veiða í ánni í óleyfi og reyndi að útskýra fyrir þeim að á Íslandi væri það ekki þannig að þú færir að næsta vatni eða á og veiðir. Þú mátt gera það í sjó en það gildir eignarréttur um vötn og ár. Fólk var yfirleitt mjög hissa því það hafði upplýsingar um annað, en var gífurlega þakklátt fyrir að hafa fengið réttar upplýsingar,“ segir Karl Lúðvíksson, en allir þeir sem hann stöðvaði við ólöglega veiði í fyrra höfðu leigt „húsbíl“ af KúKú Campers.
„Þetta eru ekki rétt skilaboð til ferðamanna“
„Síðasta parið sem ég greip var að veiða á stað við Langá sem heitir Bugurinn, en þá var ég að fylgja eldri manni frá Kanada sem kom hingað til lands til þess að veiða íslenskan lax. Ég lét þau vita að þetta væri ekki það sem við gerum hér á landi en ákvað, eins og ég hef reynt að temja mér í þessu, að vera kurteis og útskýra fyrir þeim hvernig landið liggur í þessum málum. Ég dró þau með mér að Kattarfossbrún við Langá þar sem er að finna ótrúlega fallegt landslag og ég og þessi eldri maður frá Kanada sýndum þeim hvernig við berum okkur að þegar við erum að veiða. Þeim fannst það svakalega gaman. Þau sögðu mér að þetta væru upplýsingarnar frá bílaleigunni sem hafði meira að segja leigt þeim veiðistangir til verksins. Þau tóku áskorun KúKú Campers og leituðu að ám á Íslandi. Þetta eru ekki rétt skilaboð til ferðamanna,“ segir Karl sem vill taka það fram að allir þeir ferðamenn sem hann stöðvaði voru afskaplega kurteisir og miður sín yfir því að hafa verið að gera eitthvað ólöglegt hér á landi: „Já, þau voru hreinlega í rusli yfir því.“
„Þú mátt ekki taka neitt með frá landi annars manns en þú mátt borða eins mikið og þú vilt af því í tuttugu og fjóra klukkutíma.“
En ekki eru þó allir jafn kurteisir segir Karl en hann veit dæmi þess að ferðamenn hafi haldið því fram að þeir væru í rétti og jafnvel neitað að fara.
Enginn svarar hjá KúKú Campers
„Já það hefur næstum því komið til handalögmála út af þessu rugli. Ég vil taka það fram að ég legg mikið upp úr því að útskýra fyrir fólki, vera kurteis og rólegur, því þau vita ekki betur og ég veit að flestir kollegar mínir reyna að gera slíkt hið sama.“
Stundin reyndi ítrekað að ná sambandi við eigendur og framkvæmdastjóra KúKú Campers en hafði ekki erindi sem erfiði.
Athugasemdir