Feminíska fötlunarhreyfingin Tabú hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skilaboðum bandarísku kvikmyndarinnar Me Before You um fatlað fólk er mótmælt. Jafnframt mótmælir hreyfingin því að Sambíóin skuli skilgreina kvikmyndina sem „feel-good“ mynd.
„Við virðum frelsi fólks til þess að sækja þær kvikmyndir á markaðnum sem því sýnist en teljum það skyldu okkar að deila áhyggjum okkar, sorg og reiði yfir ýmsum atriðum sem varða kvikmyndina og eru meiðandi fyrir okkur sem búum við þann félagslega veruleika að vera fötluð,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Tabú, en sambærilegar hreyfingar í Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar hafa sömuleiðis fordæmt myndina.
Áður en lengra er haldið er ástæða til að vara áhugasama kvikmyndaunnendur við því að yfirlýsing Tabú greinir meðal annars frá veigamiklum atriðum úr söguþræði myndarinnar. Tabú telur hins vegar mikilvægt að samborgarar sínir taki upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji fjármagna kvikmynd sem niðurlægir og smánar fatlað fólk með því að sækja hana í kvikmyndahús.
Fötlun ekki andstæða við heilbrigði og hamingju
Yfirlýsing Tabú, sem fimmtán konur innan hreyfingarinnar undirrita, er í nokkrum liðum.
Í fyrsta lagi gagnrýnir hreyfingin þá sögu sem kvikmyndir segja, að það sé betra að deyja en að vera fatlaður, en aðalpersóna myndarinnar fatlast á lífsleiðinni og vill enda líf sitt. „Kvikmyndin birtir þá sögu, enn eina ferðina, að það sé betra að deyja en að vera fatlaður ... Þessi síendurtekna mýta um fatlað fólk er skaðleg. Flest fatlað fólk er hamingjusamt og lífsglatt fólk sem ýmist þekkir ekki neitt annað en að lifa í sínum fatlaða líkama eða lærir inn á líf í fötluðum líkama. Fötlun er ekki andstæðan við heilbrigði og hamingju þó hún geti verið flókin og kerfisbundið staðsett neðarlega í valdapýramída flestra samfélaga heimsins – enda er lífið ekki ein tvíhyggja. Fötlun er margbreytileiki og á þátt í að skapa fjölmenningarsamfélag. Því ber að fagna,“ segir í yfirlýsingu Tabú.
„Þessi síendurtekna mýta um fatlað fólk er skaðleg.“
Í öðru lagi segja þær söguna ekki taka á mikilvægi þess að fatlað fólk fái sálrænan stuðning og að fatlað fólk hitti annað fatlað fólk til þess að spegla sig í. „Fatlað fólk upplifir mikið misrétti, ofbeldi og býr við mikinn skort á tækifærum sem ófatlað fólk hefur. Jafnframt eru hugmyndir um fatlað fólk mjög neikvæðar og staðalímyndir einsleitar, smættandi og rótgrónar. Það er erfitt fyrir fólk sem hefur verið fatlað frá fæðingu sem og fólk sem fatlast seinna á ævinni. Það krefst mikillar vinnu og úrvinnslu áreitis sem getur stuðlað að kvíða, þunglyndi, áfallastreitu, síþreytu, áhyggjum o.fl. líkt og hjá öðrum jaðarsettum hópum. Í fæstum tilvikum leiðir þetta af sér sjálfsvíg en getur gert það enda er misrétti lífshættulegt á marga vegu. Sagan ‘Me before you’ fjallar ekkert um þetta og tekur þessa líðan fatlaðrar manneskju úr samfélagslegu og sögulegu samhengi. Hún endurspeglar þó þann veruleika fatlaðs fólks, sem birtist gagnrýnislaust í sögunni, að það er auðveldara að fá aðstoð til þess að deyja en að fá aðstoð til þess að lifa. Það eitt og sér er glæpur því við erum verðmætar manneskjur fyrir okkur sjálfum, ástvinum okkar og samfélagi.“
Hættuleg mýta og dæmin mýmörg
Tabú gagnrýnir einnig leikaraval myndarinnar, en aðalpersónan er leikin af ófötluðum leikara. „Það er fyrir löngu hætt að láta hvítt fólk leika svart fólk í kvikmyndum enda niðurlægjandi og óviðeigandi í alla staði. Það sama gildir um ófatlaða leikara í hlutverki fatlaðrar manneskju,“ segja þær meðal annars.
Me Before You er ástarsaga, en aðalpersóna myndarinnar verður ástfangin af ófatlaðri aðstoðarkonu sinni. Í myndinni eru sýnd kynlífsatriði, en þó ekki með fatlaðri aðalpersónuninni. „Hér birtist enn önnur gömul tugga um kynleysi fatlaðs fólks,“ segja forsvarskonur Tabú og benda á að allt fatlað fólk geti stundað innihaldsríkt og gott kynlíf.
„Það er fyrir löngu hætt að láta hvítt fólk leika svart fólk í kvikmyndum enda niðurlægjandi og óviðeigandi í alla staði. Það sama gildir um ófatlaða leikara í hlutverki fatlaðrar manneskju.“
„Margir eru reiðir við fatlað fólk fyrir að gagnrýna söguna ‘Me before you’ og spyrja hvernig ein kvikmynd/bók/saga geti skipt nokkru máli. Málið er að það er ekki bara þessi eina saga. Þetta er hvorki í fyrsta eða síðasta sinn sem valdamikil öfl eins og bókmennta- og kvikmyndaheimurinn birtir fatlað fólk sem betur dáið en fatlað. Hver man ekki eftir boxaranum í ‘Million dollar baby’ sem fatlaðist og bað þjálfarann að drepa sig í kjölfarið? Sú kvikmynd er sögð byggja á sannsögulegum atburðum en raunin er sú að boxarinn vildi ekki deyja heldur er hún starfandi fötluð listakona í Bandaríkjunum í dag. Dæmin eru mýmörg og því oftar sem saga er sögð verður hún raunverulegri, er eins og olía á fordómaelda og hefur áhrif á viðhorf samfélagsins með þeim hætti að það getur stofnað lífi fatlaðs fólks í hættu,“ segir að lokum í yfirlýsingu Tabú.
Athugasemdir