„Annaðhvort hefur Framsóknarflokkurinn látið Sjálfstæðisflokkinn plata sig eða þá að Framsóknarflokkurinn styður stefnu samstarfsflokksins um aukinn ójöfnuð á Íslandi.“
Þetta sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, þegar rætt var um breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við almannatryggingafrumvarp félagsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
„Með breytingartillögum meiri hlutans við almannatryggingafrumvarpið er verið að auka muninn á greiðslum til einhleypra lífeyrisþega og lífeyrisþega sem eru í sambúð,“ sagði Sigríður í fyrirspurn til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og bætti við: „Til að ná markmiðinu um 280.000 kr. fyrir þá sem búa einir árið 2017 eru skerðingar á eldri borgara og öryrkja auknar frá því sem nú er. Þessi munur og skerðingarnar munu aukast enn frekar árið 2018 nái tillögur meiri hlutans fram að ganga. Mér leikur hugur á að vita hvers vegna hæstvirtur félagsmálaráðherra er tilbúin að snuða lífeyrisþega í sambúð um eðlilega hækkun og hvers vegna hún er tilbúin að auka skerðingar hlutfallslega á þá sem búa einir.“
Eygló Harðardóttir svaraði ekki spurningum Sigríðar Ingibjargar efnislega en sagðist hafa „lagt mjög mikla áherslu á, að tryggja að lífeyrisþegar fái sambærilegar kjarabætur og búið var að semja um á almennum vinnumarkaði þannig að þeir sem minnst hafa í kerfinu okkar, alveg eins og á vinnumarkaðnum, mundu fá sambærilegar kjarabætur“.
Í framhaldinu benti Sigríður Ingibjörg á að spurningum hennar hefði ekki verið svarað. „Hæstvirtur ráðherra leggur til að fólk sem er í sambúð, lífeyrisþegar, fái minni hækkun hlutfallslega en þeir sem búa einir. Hún er líka að taka ákvörðun um að auka hlutfallslega skerðingar á þá sem búa einir. Hún talar um að þetta sé kjarabót,“ sagði hún og bætti við:
„Sannarlega er verið að hækka greiðslurnar en það er gert með nánasarlegum hætti, það er verið að blekkja fólk, það er verið að auka skerðingar og auka mun eftir sambúðarformi. Ég óska eftir því að ráðherra svari spurningum mínum. Þær eru tvær. Í fyrsta lagi: Af hverju er verið að auka hlutfallslegan mun á milli einhleypra og fólks í sambúð? Í öðru lagi: Af hverju er verið að auka hlutfallslegar skerðingar á þá sem búa einir?“
Eygló Harðardóttir sagði þá að það væri „einfaldlega rangt sem þingmaðurinn heldur hér fram“ enda væri verið að „bæta verulega í hvað snertir lífeyrisþega“. Hún útskýrði ekki í hverju rangfærslan fælist, en sagði að samkvæmt félagsvísum væri staða fólks sem býr eitt verri en þess sem byggi með öðrum.
„Það eru mjög fáir — við erum að kalla eftir upplýsingum um það — sem eru í þeirri stöðu að vera í sambúð með öðrum sem munu ekki njóta góðs af þeim breytingum sem við erum að tala um,“ sagði Eygló og bætti við: „Við erum líka að fara í verulegar hækkanir á bótum á grundvelli 69. gr. þannig að allir munu koma betur út á grundvelli styrkrar efnahagsstjórnunar hjá þessari ríkisstjórn.“ Þegar Eygló gekk úr pontu kallaði Sigríður Ingibjörg: „Þú svaraðir ekki spurningunum.“
Athugasemdir