Fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp vanáætlar útgjöld til lyfjamála á næsta ári um að minnsta kosti 700 milljónir króna. Þetta er fullyrt í umsögn Félags atvinnurekenda, Frumtaka og Samtökum verslunar og þjónustu sem birtist á vef Alþingis í morgun.
„Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er nú gert ráð fyrir að útgjöld vegna S-merktra lyfja fari um 9% fram yfir fjárheimildir ársins en eitthvað minna þegar horft er til almennra lyfja. Þessi staða er nú að koma upp enn eitt árið og ljóst, verði fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp óbreytt að lögum, að enn og aftur er verulegt ósamræmi milli fjárlaga annars vegar og raunverulegrar lyfjanotkunar í heilbrigðiskerfinu hins vegar,“ segir í umsögninni.
Bent er á að með áframhaldandi breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar og fjölgun sjúklinga aukist þunginn í heilbrigðiskerfinu. Því sé með öllu óskiljanlegt að lagt sé fram fjárlagafrumvarp sem taki ekki mið af þeim raunveruleika sem notkunartölur og áætlanir Sjúkratrygginga gera ráð fyrir. „Ljóst er að frumvarpið vanáætlar útgjöld til lyfjamála á næsta ári í það minnsta um 700 milljónir króna, miðað við reynslu undanfarinna ára. Ekki verður annað séð en að afleiðingar þessarar vanáætlunar verði þær sömu og undanfarin ár; að fé til kaupa á sjúkrahúslyfjum verður uppurið á haustmánuðum. Hjá heilbrigðisstarfsmönnum eru skiljanlega áhyggjur af því að sjúklingar fái ekki sambærilega lyfjameðferð og tíðkast í löndum sem við kjósum að bera okkur saman við.“
Athugasemdir