Útlendingastofnun synjaði fjögurra manna fjölskyldu frá Sýrlandi um efnislega meðferð hælisumsóknar á Íslandi í gær. Þetta staðfestir Kristjana Fenger, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við Stundina. Hún segir niðurstöðuna gríðarleg vonbrigði.
Fjölskyldan kom til Íslands í júlí eftir að hafa verið á flótta í tæp tvö ár. Fólkið hefur þegar fengið hæli í Grikklandi, en að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV óttast foreldrarnir að þurfa að búa á götunni þar í landi og verða viðskila við börnin sín.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lýst því yfir úr ræðustól Alþingis að ekki sé öruggt að senda hælisleitendur til Grikklands. Árið 2010 ákvað dómsmála- og mannréttindaráðherra að stöðva endursendingar hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þetta telur Útlendingastofnun hins vegar ekki hafa þýðingu fyrir fjölskylduna sem hér á í hlut, enda hafi fólkið þegar fengið viðurkenningu sem flóttamenn í Grikklandi.
Athugasemdir